10.03.1923
Efri deild: 14. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

21. mál, ríkisskuldabréf

Frsm. (Karl Einarsson):

Fyrst vil jeg geta þess, að þeir tveir nefndarmenn, sem hafa skrifað undir nál. með fyrirvara, hafa ekki gert það vegna þess, að þeir sjeu í raun og veru á móti frv., heldur vegna þess, að þeir álíta það þýðingarlaust eins og nú standa sakir. Jeg tek þetta fram til þess að fyrirbyggja misskilning. En nefndin er á því, eða meiri hluti hennar, að frv. eigi að ganga fram, því að í því sje rjettarbót að hafa föst ákvæði um ríkisskuldabrjef. Stjfrv. fór fram á, að rentufóturinn væri 4 eða 5%, en nefndin leit svo á, að það væru of lágir vextir. Þetta getur altaf verið álitamál, því þess ber að gæta, að afföllin verði ekki of mikil og eins að þau verði þó eitthvað, til þess að gera brjefin útgengilegri, en þó ekki mjög mikil, þar sem um ríkislán er að ræða. Sú skoðun kom einnig fram í nefndinni, að heppilegt væri að hafa brjefin uppsegjanleg, en þó var fallið frá því eftir samtal við hæstv. fjármálaráðh. (MagnJ). Þá vantar í frv. ákvæði um, hvernig fer, ef slíkt brjef glatast, en í því efni má nota reglur þær, sem gilda alment um viðskiftabrjef.

Jeg ætla að svo stöddu ekki að fjölyrða frekar um frv., en mun svara athugasemdum, ef þær koma fram. Breytingar nefndarinnar eru á þskj. 72, og skýra þær sig að öðru sjálfar.