11.04.1923
Efri deild: 37. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í D-deild Alþingistíðinda. (3252)

129. mál, húsmæðraskóli á Staðarfelli

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg vona, að enginn væni mig um það, að jeg vilji tefja þetta mál að ástæðulausu, þótt jeg geti ekki aðhylst till. hv. flm. (JJ) án frekari rannsóknar. Að reisa skóla á Staðarfelli þarf mikinn og góðan undirbúning, en sá undirbúningur er enn ekki hafinn.

Jeg gat ekki annað en glaðst, þegar jeg sá þessa till., yfir þeim áhuga, sem er orðinn fyrir mentun kvenna. En jeg vil þó leggja nokkra áherslu á það, sem hv. 4. landsk. þm. (JM) sagði, að skólinn á Norðurlandi á að hafa forgangsrjett að því fje, sem landið leggur fram til þess að stofna nýjan húsmæðraskóla. Um skólann á Staðarfelli getur þess vegna því aðeins verið að ræða, að hægt sje að reka hann þannig, að hann beri sig sjálfur, eða að mestu leyti. Jeg er dálítið kunnug á Staðarfelli og húsakynnum þar og álít, að þau sjeu ónóg, þótt ekki sje fyrir fleiri en 12 nemendur.