09.05.1923
Neðri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í D-deild Alþingistíðinda. (3267)

156. mál, atkvæðagreiðsla alþingiskjósenda um útsölustaði áfengisverslunarinnar og vínveitingaleyfi

Flm. (Jón Baldvinsson):

Sökum þess, að þessi till. snertir sjerstaklega hæstv. forsrh. (SE), þá þykir mjer leitt, að hann skuli ekki vera viðstaddur nú, er till. kemur til umr.

Baráttan gegn ofnautn áfengis byrjaði víða á þann hátt, að takmarkaðir voru sölustaðir víns og sveitar- og bæjarstjórnum gefið vald til þess að ráða sölustöðum, hverri hjá sjer. Var þetta ágætt meðal til þess að draga úr áfengissölunni. Var þessu einnig fylgt hjer á landi, og var hjeraðsstjórnum með lögum gefið vald til þess að veita söluleyfi. Fór svo smátt og smátt, að þessi leyfi voru ekki veitt, og þegar aðflutningsbannið kom, voru aðeins sárfá leyfi eftir, svo að áfengissala var mjög óvíða í landinu. þegar bannlögin komu, þá fjellu þessi lög, að ætlun sumra, úr gildi. En sumir halda, að með undanþágunni í fyrra frá bannlögunum hafi þessi lög aftur farið að verka, og ættu því að gilda nú. En hæstv. stjórn hefir nú gengið inn á aðra braut í fyrra, er undanþágan var fengin og selja þurfti vín í landinu. Að vísu eru þær leifar eftir af gamla fyrirkomulaginu, að sumstaðar hafa kjósendur atkvæðisrjett um það, hvort vín skuli selja innan hrepps þeirra eða bæjarfjelags. En í 4 kaupstöðum, Reykjavík, Ísafirði, Akureyri og Seyðisfirði, hafa kjósendur engan slíkan atkvæðisrjett. Hafa þó bæjarstjórnir í kaupstöðunum mótmælt þessu, og sjerstaklega bæjarstjórn Reykjavíkur. Snemma á þessu þingi sendi borgarstjóri til þingsins áskorun bæjarstjórnarinnar um, að ákvæði laganna frá 18. júlí 1922, um atkvæðagreiðslu alþingiskjósenda sem skilyrði fyrir vínveitingaleyfi, nái einnig til þessara 4 kaupstaða. par sem óvíst er, að hv. þdm. hafi kynt sjer þessa áskorun, þá vil jeg með leyfi hæstv. forseta lesa hana upp. Hún hljóðar svo:

„Bæjarstjórn Reykjavíkur skorar á Alþingi að hlutast til um, að reglugerð um sölu og veitingar vína frá 18. júlí 1922 verði breytt þannig, að ákvæði 10. greinar um atkvæðagreiðslu alþingiskjósenda sem skilyrði fyrir því, að vínveitingaleyfi sjeu heimiluð, nái til kaupstaðanna Reykjavíkur, Ísafjarðar, Akureyrar og Seyðisfjarðar, eins og til annara kaupstaða landsins“.

Bœjarstjórnin hefir áður leitað til hæstv. stjórnar með þetta, en hún hefir ekki tekið vel í málið, og fyrir því hefir verið tekið það ráð að snúa sjer til Alþingis og jeg borið fram þessa till. Mjer finst hv. deild geti nú ekki kipt að sjer hendinni með þá stefnu, sem áður gilti hjer á landi. Sú stefna er líka vel skiljanleg, því að vitanlega var hverri bæjar- og sveitarstjórn best kunnugt sjálfri um það böl, sem áfengið olli í hjeraðinu, og vissi best sjálf, hvernig heppilegast var að takmarka það. Þess vegna vil jeg mælast til þess, að kjósendum verði leyft að láta í ljós með atkvæði sínu, hvort vínsöluleyfi sje veitt eða eigi.

Enn fremur eru í till. ákvæði um, að lögin verki aftur í tímann að því leyti, að í þeim kaupstöðum, sem vínveitingaleyfi hefir þegar verið veitt, verði einnig látin fara fram atkvæðagreiðsla, nema um aðalútsölustað ríkisins í Reykjavík. Enda þótt jeg sje á móti þeirri sölu í raun og veru, þá álít jeg þó ekki fært að ganga svo langt meðan undanþágan er leyfð. Býst jeg við, að þó að einhver kynni að álíta, að Spánverjar færu að ýfa sig við þetta, þá sje það alveg ástæðulaust. Munu þeir góðu herrar láta sig litlu skifta, hvort selt er einni eða tveim þúsund flöskum fleira eða færra í landinu. Munu þeir aðallega hugsa um, að undanþáguákvæðið sje til, og ættu þeir að geta sætt sig við það.

Það getur nú vel verið, að einhver kaupstaður samþykki vínsöluleyfi hjá sjer, en ekki er jeg trúaður á það. Ætti það líka að vera nóg að hafa þennan útsölustað hjer í Reykjavík.

Jeg þarf svo ekki að segja meira, uns jeg heyri hvað stjórnin segir. Jeg þykist vita, að verði till. samþykt, muni stjórnin fara eftir henni, þótt jeg sje hins vegar ekki trúaður á það, að hæstv. forsrh. (SE) sje neitt hrifinn af því að láta samþykkja hana.