08.05.1923
Sameinað þing: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í D-deild Alþingistíðinda. (3281)

133. mál, strandvarðar og björgunarskip

Halldór Steinsson:

Jeg þarf nú ekki að vera langorður. Krafan um aukna landhelgisgæslu er að vísu ekki orðin mjög gömul, því þó að yfirgangur botnvörpunga væri orðinn tilfinnanlegur fyrir stríðið, þá bar lítið á honum meðan á því stóð. En að stríðinu loknu fór vöntun á fyllri landhelgisgæslu aftur að verða tilfinnanleg og þá fóru jafnframt að koma fram kröfur um, að hún yrði aukin. Þingið 1919 taldi sjer því skylt að semja lög um þetta efni, og heimiluðu þau stjórninni að kaupa eða leigja strandvarnarskip. Þetta skip hefir nú ekki enn verið keypt, þrátt fyrir það, þó yfirtroðslur erlendu botnvörpunganna hafi haldist og kröfurnar um strandvarnarskip verið ítrekaðar. Á þingunum 1920 og 1922 voru samþyktar þáltill. um þetta, og 1921 kom fram fyrirspurn um sama efni. En alt hefir setið í sama farinu, nema þá að verra hafi orðið.

Um löggæslu Dana er það sannast að segja, að hún hefir verið mjög misjöfn. Stundum hefir hún verið ágæt. Það var hún 1921, þegar Bröberg var foringi á Fálkanum, þessi ótrauði foringi. Hefði enginn Íslendingur gert það betur en hann gerði. En hin árin flest hefir starfsemi þessari verið mjög ábótavant, sem auðvitað getur stafað af mörgu, t. d. áhugaleysi, ókunnugleika, og þó kanske ekki hvað síst af afskiftaleysi æðri stjórnarvalda. Ef þeim hefði verið þýðing gæslunnar nægilega ljós, þá held jeg að eftirlitið hefði orðið betra en oft hefir orðið raun á.

En jafnvel þó að vörn Dana hefði ávalt verið í besta lagi, þá er vörn þessa eina skips ekki nóg. Er það öllum ljóst, að svo getur ekki orðið, þegar um jafnvíðlent svæði er að ræða sem frá Hornafirði til Hornstranda. En þetta svæði þarf alt að verja, að minsta kosti yfir vetrarvertíðina, og þótt eitt skip dygði máske yfir hásumarið, þá er það of lítið á haustin og veturna. Það er því viðurkent, að landhelgisgæslan, eins og hún er nú, er allsendis ófullnægjandi, og til þess að hún verði viðunanleg, þarf að minsta kosti að bæta við einu skipi. Flestum er einnig ljóst, að meiri trygging er fyrir sæmilegri vörn, ef skipið er rekið fyrir íslenskt fje og með íslenskri skipshöfn.

Það, sem okkur, sem brtt. fluttum, greinir aðallega á við hv. flm. þáltill., er, að okkur þykir þeir of hægfara. Við álítum, að þetta mál þoli enga bið; að drátturinn sje þegar orðinn alt of langur og miljónum króna hafi verið rænt frá okkur vegna þess. Jeg vil einmitt í samræmi við þessa skoðun mína minna á það, sem hv. 5. landsk. þm. (JJ) sagði, að nú mundi vera orðið 200000 kr. dýrara að byggja slíkt skip en áður var, sem eru þó smámunir við það tjón, sem orðið er og verður af drættinum. En þessi till. tefur málið enn, því ef nú skal hefja undirbúning, sem leggjast á fyrir næsta þing, þá er auðsætt, að ekki verður búið að byggja skipið fyr en síðast á árinu 1924 eða fyrri hluta ársins 1925. Annars mætti hrinda þessu í framkvæmd þegar á þessu ári.

Þá er einnig ágreiningur milli okkar um víðtæki verkahringsins. Við álítum heppilegast, að skipið sje að stærð sem meðaltogari, en með talsvert kraftmeiri vjel. En þeir vilja hafa það stærra, þótt það sje ekki beint í till., og hafa það jafnframt björgunarskip. En þetta tvent er alveg ósamrýmanlegt; eða hvernig hugsa hv. flm. sjer, ef t. d. sægur af botnvörpungum væri innan landhelgi í Faxaflóa eða Breiðafirði, að skipið gæti þotið frá þeim stöðum, ef það væri kallað austur á Sanda til björgunar einhverju skipi? Það þarf að gefa sig eindregið að sínu starfi; annað mundi afsanna það, að brýn þörf væri á gæslunni.

Þá tel jeg þá hugmynd varhugaverða að nota þetta skip sem skólaskip handa stýrimannaefnum og þeim gert skylt að vinna þar eitt ár kauplaust. Jeg er að vísu hlyntur þegnskylduvinnuhugmyndinni, en jeg tel þó ekki rjett, að ein stjett manna sje tekin út úr. Það er heldur ekki lítil kvöð, að ræna menn einu ári af besta tíma æfi sinnar, enda er efnahagur þessara manna ekki svo sjerstaklega góður, að þeir þyldu það. Þetta gæti líka orðið baggi fyrir landssjóð, því margir læra þessi fræði, en ef ekki á að kosta allan hópinn, þá er erfitt að sjá, hvernig velja skyldi úr.

Jeg lít því svo á, að till. sje mjög óaðgengileg til samþyktar, þar sem hún tefur málið, og svo er gert ráð fyrir útbúnaði og rekstri, sem ógerningur er að koma í framkvæmd.