08.05.1923
Sameinað þing: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í D-deild Alþingistíðinda. (3300)

133. mál, strandvarðar og björgunarskip

Pjetur Ottesen:

Það eru aðeins örfáar athugasemdir við ræðu hv. 5. landsk. þm. (JJ). Hann talaði um það, að þjóðin tryði ekki á nauðsyn þessa máls. Því verð jeg að mótmæla, og get jeg skírskotað til fjölda af áskorunum, sem borist hafa um þetta efni til þingsins árlega, þótt jeg hafi þær ekki við hendina, og sýna þær ótvírætt þjóðarviljann í þessu máli. þess minnist jeg líka, að lögin, sem þingið samþykti um þessi efni 1919, vöktu mjög almennan fögnuð, þótt allmjög hafi úr honum dregið við það, hvað drátturinn á framkvæmdunum hefir orðið mikill. Og þjóðarviljinn er samur og óbreyttur enn, eða ef til vill öllu sterkari nú en nokkru sinni fyr, því altaf sverfur meira og meira að.

Þá gat sami hv. þm. (JJ) um það, að lagt væri í mikinn kostnað við þetta, þar sem skipið kæmi aðeins að gagni um nokkra mánuði, eða aðeins vertíðina. En þetta er sýnilega af ókunnugleika talað, því það er vitanlegt, að vertíð er alt árið einhversstaðar í kringum landið, en það skiftist á eftir árstíðum, hve nær venjulega aflast mest í hverjum landshluta.

þá sló hann ávalt þann varnagla, að ef hægt væri að sameina landhelgisgæsluna og björgunarstarfið, þá væri mikið unnið með því, og er það vitanlega rjett, ef þetta væri hægt. En bæði jeg og fleiri, sem nokkuð þekkja til þessa máls, höfum bent á það, að nær ómögulegt er að samrýma þetta hvorttveggja, nema með því, að altaf sje slegið slöku við annað starfið, og þó sjerstaklega, þegar aðeins einu skipi eru ætluð þessi störf.

þá gat hann þess, hver hagur það yrði fyrir ríkið að láta stýrimannaefnin vinna kauplaust á skipinu, og taldi það ekki síður verða þeim sjálfum til hagnaðar en útgerðinni. En jeg hefi nú þegar bent á það, að þeir lærðu ekki öllu meira á þessu skipi en þeir læra yfirleitt hjá góðum skipstjóra á hvaða skipi sem er. Jeg sje því ekki, að stýrimannaefnin sæktu þangað meira verklegt nám en þeir annars eiga kost á sem hásetar á öðrum skipum. Og sparnaðurinn við þetta fyrir útgerðina eða ríkissjóðinn sje jeg ekki, að sje í öðru fólginn en því að taka fje úr einum vasanum og láta í hinn. Hjer er eingöngu um innlenda menn að ræða, og gróði ríkissjóðs enginn annar en þeirra tap. — Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar um þetta.