08.05.1923
Sameinað þing: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í D-deild Alþingistíðinda. (3301)

133. mál, strandvarðar og björgunarskip

Jón Auðunn Jónsson:

Það er í sjálfu sjer ekkert nýmæli, sem kemur fram í þáltill. á þskj. 304, frá hv. 5. landsk. þm. (JJ) og hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), að sameina björgunarstarfið og landhelgisgæsluna. Það var mikið um þetta skrifað í blað eitt, sem gefið var út á Vestfjörðum, og er óhætt að segja, að allar þær upplýsingar, sem þá fengust viðvíkjandi þessu, hnigu í þá átt, að þetta væri illa samrýmanlegt. Að vísu fást nokkrar tekjur við björgun, en þess ber að gæta, að slíkt skip liggur í höfn mestan tímann af árinu, en kolaeyðslan hins vegar einhver stærsti útgjaldaliðurinn við gufuskip. Og þess er getið í reikningi björgunarskipsins Geirs yfir árið 1921, að honum hafi viljað eitt stórt happ til, sem hafi haldið honum uppi fjárhagslega í fleiri ár, sem sje er hann bjargaði fyrirhafnarlítið skipinu Köbenhavn og fekk fyrir það um 650000 kr., að því er jeg hefi heyrt. En annars hafi flest árin orðið halli af starfrækslu skipsins. Auk þess er, eins og margir hv. þm. hafa bent á, mjög óheppilegt, að strandgæsluskipið hafi björgunarstarf einnig með höndum. Hinu ber heldur ekki að neita, að eins og fjárhagsástæður ríkisins eru nú og þar sem mestur hluti landhelgissjóðsins er genginn til ríkissjóðs, þá muni lítið fje vera fyrir hendi til að byggja skip þetta fyrir, en þörfin á hinn bóginn æðibrýn. Það er víst lítill vafi á því, að í skemdum á veiðarfærum eingöngu fara árlega forgörðum tugir þúsunda kr., og er það þó ekki nema lítill hluti af tapinu, þar sem bæði missist við þetta mikill afli og menn oft þannig settir, að þeir verða að liggja í landi lengi á eftir, án þess að geta hafst að; en aðalskaðinn er eyðilegging margra fiskimiða um lengri eða skemri tíma. Annars hefir hæstv. landsstjórn tekið svo vel í þetta mál, að jeg mun geta fallist á tillögur hv. þm. N.-Þ. (BSv), en með öðrum forsendum en hans. Jeg vil með öðrum orðum æskja þess og vænta þess, að af framkvæmdum verði sem allra fyrst í þessu máli, og vil því, með leyfi hæstv. forseta, bera fram svofelda dagskrá:

Í trausti þess, að ríkisstjórnin ráðist til framkvæmda í landhelgisgæslumálinu, annaðhvort með byggingu á nýju skipi eða kaupum eða leigu á skipi, svo fljótt sem tiltækilegt þykir, tekur þingið fyrir næsta mál á dagskrá.