08.05.1923
Sameinað þing: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í D-deild Alþingistíðinda. (3304)

133. mál, strandvarðar og björgunarskip

Forsætisráðherra (SE):

Jeg vil nota tækifærið til að skora á hv. 1. þm. Ám. (EE) að koma fram með vantraustsyfirlýsingu á stjórnina, þar sem þessi tillaga verður nú ekki borin undir atkvæði, og getur það einungis verið af hræðslu, ef hann gerir það ekki. (EE: Ef ekki nægir að bera slíka yfirlýsingu fram einu sinni, skal jeg gera það tvisvar).

Þá var það fyrirspurn hv. þm. Snæf. (HSt) til stjórnarinnar, um hvað hafi verið gert til að framkvæma aukningu landhelgisgæslunnar samkvæmt þál. síðasta þings. En jeg hefi skýrt það atriði áður ítarlega út af ræðu hv. þm. Borgf. (PO), og þykir mjer leiðinlegt, að þessi hv. þm. (HSt) skuli ekki hafa verið viðstaddur, því jeg hefi ekki nú ýms skjöl við hendina, sem jeg þarf að hafa, til þess að geta gefið um þetta nákvæma skýrslu. En mjer skal þó vera ljúft að taka fram helstu atriðin viðvíkjandi þessu.

Svo er mál með vexti, að forsætisráðherrann danski sendi dansk-íslensku lögjafnaðarnefndinni uppkast að samningum um landhelgisgæsluna. Var það rætt allítarlega á fundum nefndarinnar, og fjelst meiri hluti hennar á samninginn, eftir að nokkrar breytingar höfðu verið gerðar á honum. Síðar, er jeg sigldi til Kaupmannahafnar, átti jeg tal um þetta mál við forsætisráðherrann, eftir ósk hans, og sat á fundi með honum ásamt danska hlutanum af lögjafnaðarnefndinni og flotamálaráðherranum. Var þá sjerstaklega eitt atriði, sem jeg óskaði, að kæmi skýrt fram, rjettur vor til að hafa sjálfstæða íslenska landhelgisvörn, auðvitað í samvinnu við þá dönsku. Jeg skal nú ekki fara langt út í það, sem gerðist á fundinum, en aðeins geta þess, að á þessum undirbúningsfundi komu raddir fram í aðra átt.

Þegar jeg kom heim, skýrði danska stjórnin mjer frá því, að hún fjellist á samningsuppkast meiri hluta nefndarinnar, með nokkrum smávægilegum breytingum, og var stjórnin beðin um að svara, hvort hún vildi ganga að þessu. Þá var komið að þingi, og áður en stjórnin sendi fullnaðarsvar sitt, bar hún málið undir sjávarútvegsnefndir beggja deilda. Í svari því, sem dönsku stjórninni var síðan sent, var sú málaleitun endurnýjuð, hvort danska stjórnin væri oss sammála um, að vjer gætum haft sjerstaka íslenska landvörn, samhliða þeirri dönsku, og var þess jafnframt getið, að ef danska stjórnin væri oss sammála, þá mundi gengið að tilboði dönsku stjórnarinnar, en jafnframt var þess farið á leit, að málið yrði útkljáð í nótuformi, en ef danska stjórnin liti öðruvísi á málið, þá óskuðum vjer ekki eftir aukningunni á dönsku landvörninni. Danska stjórnin hefir nú fallist á skoðun vora á málinu, en ljet þess getið, að of seint hefði verið að fá fjárveitingu til landhelgisaukningarinnar og óskaði, að alt málið yrði tekið upp á næsta fundi sambandslaganefndarinnar.

Jeg hefi áður lýst yfir þeirri skoðun minni, að jeg sjái ekki ástæðu að halda því fast fram, að vjer fengjum gefins fje úr ríkissjóði Dana, en ljetum oss nægja af þeirra hendi þá landhelgisgæslu, sem samningsbundin er, og ekki meir; en ykjum aftur landhelgisgæsluna sjálfir eins og nauðsyn bæri til.

Annars er jeg ekki undir það búinn í kvöld að gefa skýrslu um þetta mál. Jeg gaf nákvæma skýrslu um það í vetur og vísa til hennar að öðru leyti. Sjávarútvegsnefndirnar hafa fallist á aðgerðir stjórnarinnar í þessu máli, og það gleður mig, að ýmsir aðrir hv. þm. hafa í dag tekið í sama streng.