23.04.1923
Efri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í D-deild Alþingistíðinda. (3310)

146. mál, prestsþjónusta í Mosfellsprestakalli

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg hefi áður gert grein fyrir því, hvers vegna jeg hafði borið þess þáltill. fram. Eldri löggjöf gerir ráð fyrir, að Mosfellssókn sje skift á milli nágrannaprestanna. Söfnuðurinn hefir verið óánægður með þessa ráðstöfun. þess vegna hefir þingmaður þessa kjördæmis borið fram frv., þar sem ætlast er til, að þetta brauð verði aftur gert að sjerstöku prestakalli. Nú hefir deildin felt þetta frv. með jöfnum atkvæðum. Þá talaði hæstv. forsrh. (SE) um, að hann mundi skipa prest í embættið. En þar sem um mjög lítil prestsverk er að gera í svo litlu prestakalli, að ekki virðist þörf vera á að binda þar einn mann við, þá er þáltill. komin fram. Mjer datt í hug, að hugsanlegt væri, að landsstjórnin fengi ákveðna upphæð á ári til þess að launa prestsverk í prestakallinu og semja við einhverja prestvígða menn hjer í höfuðstaðnum og fá þá til að þjóna þar um stundarsakir. Jeg gæti bent hjer á allmarga roskna prestvígða menn, sem myndu fegins hendi taka á móti slíkri aukavinnu, ef hún byðist, og þótt þeir fengju ekki nándar nærri eins há laun fyrir það og prestar annars fá. Síðan þetta mál kom til umr. hjer á þinginu, hefi jeg hitt gamlan, merkan prófast, sem nú er hættur prestsskap. Hann er nýfluttur hingað til bæjarins og starfar nú mest við tímakenslu og annað þess háttar. Jeg átti tal við hann um þetta, og leist honum vel á það fyrirkomulag, sem jeg hafði hugsað mjer. Var hann hreint ekki fjarri því að fást til að þjóna brauðinu með þessum kjörum, ef það kæmist í kring, enda er hann enn þá eru og hraustur. Hann var mjer yfir höfuð fullkomlega samdóma um, að ýmsir prestvígðir menn hjer í bænum, lausir og liðugir, mundu taka að sjer þennan starfa, þannig, að talsvert fje mundi við það sparast. Það munu árlega vera greiddar 700 kr. aukalega fyrir að halda guðsþjónustur á Kleppi, en ef þingið hyrfi að þessu ráði, sem felst í þáltill., þá mætti sameina þetta eftir samkomulagi, þannig, að það væri vel viðunanlegt fyrir sama manninn að halda guðsþjónustur á Kleppi og messa í prestakallinu í Mosfellssveit.

Annars skal jeg ekki orðlengja um þetta. það, sem mestu máli skiftir, er stefna till. Jeg álít, að ríkið eigi að halda sömu braut og einstakir menn, að koma framkvæmdunum sem allra ódýrast fyrir. Þeir, sem vilja, að hið formlega sitji í fyrirrúmi, hvað sem kostnaði líður, verða þá sjálfsagt á móti till., og þá er sú saga búin.