25.04.1923
Efri deild: 48. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í D-deild Alþingistíðinda. (3316)

146. mál, prestsþjónusta í Mosfellsprestakalli

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg hefi áður skýrt till. þessa og hinn rjettmæta sparnað, sem í henni felst. Því hefir verið haldið fram hjer í deildinni, að e. t. v. þyrfti lagabreytingu, líklega til þess að borga ekki meira fyrir prestsþjónustu í prestakalli þessu heldur en till. fer fram á. Um þennan hugsunarhátt er hið sama að segja og enskan hershöfðingja, sem átti í bardögum á Spáni fyrir löngu síðan. Hann var roskinn maður og vel að sjer í öllum hernaðarreglum og fylkti liði sínu nákvæmlega á þann hátt, sem hernaðarfræðin sagði fyrir. En afleiðingin varð sú, að 10 mínútur voru ekki liðnar áður en flótti brast í her hans, og beið hann þar fullkominn ósigur. Hernaðarfræðinni hafði farið fram og mótstöðumennirnir kunnu ný ráð, sem hinn roskni maður, hversu vel sem hann var að sjer í gömlu fræðunum, mátti ekki í móti standa.

Eins býst jeg við, að gamla formið segi hjer, að setja eigi prest í embættið, þó að hægt sje að fá því þjónað með þriðjungi kostnaðar á annan hátt.

Og jeg þori vel að taka á mig ábyrgðina af því lagabroti.