08.05.1923
Sameinað þing: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í D-deild Alþingistíðinda. (3331)

111. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg vil benda þeim hv. þm., sem stóðu að þessu máli og komu því í gegn 1921, á, að mjer virðist þeir hafa gleymt þessum lögum nú á þinginu. Annars hefir hæstv. atvrh. (KIJ) tekið mest af því fram, sem jeg þurfti að vekja athygli á. Jeg bjóst annars við, að þessir hv. þm. myndu koma fram með frv. til breytingar á Ríkisveðbankalögunum við meðferð laga þeirra, er samþykt hafa verið um breyting á lögum um Landsbanka. 41. gr. laga nr. 64, 27. júní 1921, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalbankastjóri hefir laun og dýrtíðaruppbót eins og bankastjórar Landsbanka Íslands, þó svo, að í stað hundraðshluta af ársarði komi 1/20% af samanlagðri upphæð allra bankavaxtabrjefa, er í gildi verða við lok hvers reikningsárs, samt aldrei af hærri upphæð en 10 milj. króna.

Meðstjórnendur hafa hvor um sig helming fastra launa og dýrtíðaruppbótar á móti aðalbankastjóra, auk 1/60% af upphæð bankavaxtabrjefa. Fyrst um sinn skulu þó tveir af bankastjórum Landsbanka Íslands, er stjórnarráðið tilnefnir, gegna störfum sem meðstjórnendur Ríkisveðbankans, án sjerstakrar þóknunar“, o. s. frv.

Samkvæmt þessu fær bankastjóri veðbankans 26 þús. kr. á ári og meðstjórnendur 12500 kr. hvor, eða 53000 kr. allir. Með öðrum orðum, þeir fá alla vexti Ræktunarsjóðs að launum. Jeg vildi aðeins benda hv. þm. á þetta, en mjer hefir ekki þótt taka að koma með breytingar á veðbankalögunum, því að jeg álít þau aðeins pappírsgagn, sem ekki geti komið til framkvæmda að svo stöddu.