28.02.1923
Neðri deild: 8. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í D-deild Alþingistíðinda. (3341)

27. mál, verðgildi íslenskrar krónu

Flm. (Jón Baldvinsson):

Jeg get þakkað hæstv. fjrh. (MagnJ) fyrir, hve vel hann tók í till. mína. En satt að segja get jeg ekki að sama skapi þakkað honum fyrir skýrsluna um framkvæmd stjórnarinnar í þessu máli. Jeg bjóst við að fá að heyra, hver afskifti hæstv. stjórn hefði haft af gengismálinu, en hæstv. ráðherra (MagnJ) kom ekki fram með neitt í þá átt. Að vísu er honum það nokkur afsökun, að þetta heyri fremur undir annan ráðherra en hann. En eitthvað ætti honum engu að síður að vera kunnugt um framkvæmdir stjórnarinnar, ef þær annars hafa verið nokkrar.

Jeg vil annars minnast á eitt, sem gert hefir verið í þessu máli. En það er, að ekki alls fyrir löngu var skorað á stjórnina að koma á fundi með bankastjórn Landsbankans og útgerðarmönnum hjer, til að ræða uppástungur Landsbankans um fisksöluna. Til þessa var ríkisstjórnin ófáanleg, og var það þó heldur undarlegur áhugi á slíku máli.

Hæstv. fjrh. (MagnJ) vildi bera bankaráðið sem skjöld fyrir stjórnina í þessu máli, og kvað ekki hæfa, að ríkisstjórnin væri að skifta sjer af daglegum viðskiftum bankans. Jeg verð þá að segja það, að mjer finst það nokkuð hart, ef hæstv. stjórn vill halda því fram, að hún megi ekki blanda sjer neitt í þau viðskifti, þótt hagur alls landsins sje í veði og gengi krónunnar ætli niður úr öllu valdi.

Hæstv. fjrh. (MagnJ) sagði, að eftirspurnin minkaði af sjálfu sjer, er gengið stæði sem lægst, og kæmist því aftur jafnvægi á á þann hátt. Slíkt er aðeins í bili. Menn venjast smám saman lága genginu og brátt kemur fram krafan frá þeim, sem útlenda gjaldeyrinn hafa til sölu, að hækka hann á ný. Hvað skyldi t. d. vera því til fyrirstöðu, að pundið kæmist upp í 30–35 krónur, ef ekkert yrði gert til að sporna við því?

Hæstv. fjrh. (MagnJ) hjelt því líka fram, að bankarnir hjer hefðu ekki farið nógu lágt með verð á erlendum gjaldeyri á síðastliðnu sumri. Hví ljet hæstv. stjórn það þá ekki neitt til sín taka?

þá þætti mjer undarlegt, ef satt væri það, sem stendur á miða, sem var skotið til mín rjett áðan, að yfirfærsluteppan hafi byrjað í september, en ekki í nóvember, eins og hæstv. fjrh. hjelt fram. Mjer er að minsta kosti kunnugt um, að þó að ef til vill hafi einhver tregða verið á yfirfærslum, þá munu þó flestir þeir, sem nauðsynjavörur þurftu að greiða erlendis, hafa fengið úrlausn í þessu fram í desember, að minsta kosti hjá Landsbankanum.

Hæstv. ráðherra (MagnJ) var að tala um það, að peningagengið lyti hinni gullnu reglu um framboð og eftirspurn. En jeg er nú hræddur um, að hið eðlilega framboð og eftirspurn í þessu sje oft truflað. Verslunarvelta okkar er svo lítil, að hægt er að hugsa sjer, að fáeinir útlendir auðkýfingar eigi hægt með að snúa í hendi sjer gengi íslensku krónunnar, nema við sjeum alvarlega á verði í þessum efnum.

Hæstv. fjrh. (MagnJ) kvaðst engan þátt eiga í stjórn Íslandsbanka. Mig minnir þó, að ákveðið væri í fyrra, að fjármálaráðherrann hefði með höndum yfirstjórn bankamálanna. Það getur náttúrlega verið, að þetta hafi breyst. En hvað sem því líður, þá er hitt víst, að forsrh. á formannssæti í bankaráði Íslandsbanka, og ætti hann því að láta það eitthvað til sín taka, hvernig fer með verðgildi íslenskrar krónu. Þar hefir hann sjer til stuðnings tvo bankaráðsmenn, valda af Alþingi, og væri heldur undarlegt, ef ekki má til þess ætlast, að þessir allir láti slíkt mál eitthvað til sín taka. Jeg á auðvitað ekki við, að stjórn landsins fari að vasast í afgreiðslu smávíxla eða öðrum slíkum daglegum rekstri bankans. En þegar um mál er að ræða, sem skiftir þjóðina miljónum króna, þá má ekki þola það, að hún sitji aðgerðarlaus hjá og leggi ekkert til málanna.

Viðvíkjandi því, hverjir hafi helst hagnað af þessu lága gengi, þá hafa komið fram raddir um það, að bændur og útgerðarmenn muni hafa hag af lággenginu. Jeg mótmæli þessu kröftuglega. Það eru ekki yfirleitt þessir menn, sem fleyta rjómann af dýrtíðinni í landinu, heldur eru það örfáir útflytjendur, mestmegnis útlendir, sem kunna að hagnast á þessu, þeir fáu, sem selja afurðirnar erlendis og fá erlenda gjaldeyrinn. Alt og sumt sem framleiðendurnir, bændur og hinir smærri útgerðarmenn, hafa upp úr krafsinu, er, að þeir fá að reikna með hærri tölum.

Að lokum gaf hæstv. fjrh. (MagnJ) það í skyn, að þetta lága gengi myndi ekki standa lengi. Það skyldi gleðja mig, ef svo yrði; en hvað hefir hæstv. ráðherra fyrir sjer í þessu? Á þetta að ske fyrir aðgerðir, sem hæstv. stjórn hefir nú þegar gert eða hefir í hyggju að gera á næstunni? Eða er þetta bara sagt svona út í loftið? Jeg vildi gjarnan fá skýr svör upp á þetta. Og með því að jeg sje nú, að hæstv. forsrh. (SE) kveður sjer hljóðs, þá sest jeg niður að sinni til að heyra, hvað hann hefir fram að færa í þessu máli.