28.02.1923
Neðri deild: 8. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í D-deild Alþingistíðinda. (3342)

27. mál, verðgildi íslenskrar krónu

Forsætisráðherra (SE):

Jeg hefi ekki heyrt alt, sem rætt hefir verið um þetta mál, aðeins hrafl úr ræðu hv. 2. þm. Reykv. (JB). Tel jeg, að þetta mál heyri yfirleitt undir fjármálaráðherra.

Þegar jeg kom frá útlöndum í vetur, var strax tekið að ræða um gengismálið, og átti stjórnin marga fundi með báðum bönkum. Pundin voru þá seld í bönkunum á kr. 26,50, en það var aðeins málamyndarverð á þeim, því svo að segja ekkert var selt af þeim og yfirfærslur að miklu leyti stöðvaðar. Afleiðingin af því var, að gjaldeyrisverslunin fór að mestu leyti fram fyrir utan bankana, og það virkilega gengi skapaðist eftir þessari verslun fyrir utan bankana og fór stöðugt lækkandi. Stjórn Íslandsbanka sá ekki aðra leið út úr þessu máli en að bankarnir færu að yfirfæra og gæfu meira fyrir pundin og seldu þau dýrara en þá var gert, með öðrum orðum ákvæðu gengisverslunina eftir hinu almenna lögmáli viðskiftanna, þannig, að eftirspurnin rjeði um verðið. Landsbankinn vildi halda í það verð, sem þá var, en gat ekki bent stjórninni á neinar ákveðnar leiðir til þess að halda genginu uppi; þó taldi bankinn, að ef höft væru lögð á innflutning og landsstjórnin tæki eða ljeti nefnd taka fiskverslunina í sínar hendur, þá mundi mega stöðva gengið. Vildi Landsbankinn fá loforð stjórnarinnar um að leggja til við þingið, að slíkum höftum yrði komið á, en því neitaði stjórnin með öllu og vísaði til undirtekta síðasta þings undir það mál. Fjármálaráðherra kom því næst með uppástungu um, að bankarnir tækju gjaldeyrisverslunina sameiginlega í sínar hendur, þannig, að hvor banki legði fram um 60 þús. pund og svo þann gjaldeyri, sem þeir seinna fengju; en þriggja manna nefnd hefði svo gjaldeyrisverslunina í sínum höndum, einn bankastjóri frá hvorum bankanum og oddamaður, tilnefndur af stjórnarráðinu. Gert var ráð fyrir, að halli, sem yrði af versluninni, greiddist af Landsbankanum að 1/3, Íslandsbanka að 1/3 og landssjóði að Landsstjórnin hugði, að fult samkomulag væri að verða um málið, en á seinasta augnabliki mun Landsbankinn hafa dregið sig til baka, og varð því ekkert úr samningum.

Eftir að nýju bankastjórarnir tóku við störfum í Íslandsbanka, var eftir sameiginlegri ráðstöfun beggja bankanna gerð ákvörðun um það gengi, sem nú er. Gengi krónunnar hreyfist auðvitað eftir ákveðnum lögum, og án sjerstakra ráðstafana er ekki hægt að rjúfa það lögmál. En stjórnin hafði enga heimild til að koma á viðskiftahöftum, og eigi heldur til þess að taka gjaldeyrislán eða gera aðrar ráðstafanir, og því varð íslensk króna að hlíta almennum viðskiftalögum.