28.02.1923
Neðri deild: 8. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í D-deild Alþingistíðinda. (3345)

27. mál, verðgildi íslenskrar krónu

Jakob Möller:

Það er eðlilegt, að umræðumar hafi farið á víð og dreif og utan við aðalkjarna gengismálsins, því að tillagan, sem hjer liggur fyrir, er mjög einhliða. Í henni er öll áherslan lögð á að hækka gengi krónunnar, sem flestum kom þó að lokum saman um, að sje ekki aðalatriðið. Frá mínu sjónarmiði er aðalatriðið að stöðva gengið. Jeg þykist skilja hv. 2. þm. Reykv. (JB), að honum sje hækkun gengisins ríkust í huga, og ástæður hans fyrir því. En hið lága gengi er ekki aðalatriðið í þessu máli. Þegar gengið lækkar, verður það öllum almenningi tilfinnanlegt í bili, en venjulega kemst jöfnuður á áður langt líður. En reikið á genginu er það hættulegasta, og við því verður fyrst að gera Eins og hjer er ástatt, getur það orðið mjög mikið og til stórtjóns, bæði neytendum og framleiðendum.

Viðskiftamálanefnd þingsins í fyrra virtist vera alveg ljóst, að þetta væri aðalatriðið. Því kom það fram í greinargerð fyrir frv. um gjaldeyrismat og umræðum um það, að ráðstafa þyrfti þeim lausum skuldum í íslenskum krónum, er erlendir menn eiga hjer, og koma á jafnaðargengi, er færi hækkandi með litlum sveiflum, helst engum í öfuga átt.

Svo er hjer ástatt, að meginið af íslenskum afurðum er flutt út á skömmum tíma. Ef farið væri stranglega eftir venjulegu lögmáli um framboð og eftirspurn, myndu verða mjög stórar og skaðlegar sveiflur á genginu. Á sumrum, þegar útflutningur er mestur, ætti gengið að hækka, og fengju þá útflytjendur minna fyrir afurðir sínar heldur en ella. En þegar dregur úr útflutningi, ætti krónan að falla, eins og líka hefir orðið.

Þetta hlýtur að vera öllum skaðlegt, og hygg jeg, að hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) hafi ekki skoðað þetta nógu vandlega niður í kjölinn. Gróðinn af sveiflunni er enginn. Framleiðendur tapa, ef lögmálinu er fylgt stranglega fram. Krónan verður lægst um miðjan vetur, þegar þeir kaupa kol og salt til vertíðarinnar, en hækkar svo aftur, þegar þeir selja afurðir sínar og fá þær greiddar. En fyrir almenning verður alt verðlag mun hærra en eðlilegt væri. Innflytjendur vita ekki með neinni vissu, með hvaða gengi þeir verði að greiða fyrir vörur sínar; þeir setja verðið því hærra, til þess að tryggja sig gegn gengistjóni. Á þessu bygðist krafa viðskiftamálanefndar í fyrra, um að festa þyrfti lausaskuldirnar og koma á jafnaðargengi.

Ef athuguð er nánar kenning hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) um gróða fyrir framleiðendur af lággengi, er hún mjög vafasöm, hvernig sem á er litið. Það er rjett, að lágt gengi örvar framleiðsluna í svip. En hvernig er sú uppörvun? Land með lágu gengi selur afurðir sínar í raun og veru ódýrar en lönd með háu gengi. Þýskar vörur eru ótrúlega ódýrar, en það þýðir, að Þjóðverjar fá ekki nema örlítið brot af verðmæti vöru sinnar, reiknað í erlendum gjaldeyri, í samanburði við aðrar þjóðir. Ef við trúum á slíkan gróða, svíkjum við sjálfa okkur. Menn ætla, að þeir græði, ef krónutalan hækkar, en eftir reynslu annara verða þær afleiðingar, að verð framleiðslu þess lands lækkar í samanburði við vörur nágrannalandanna. Jeg get sem dæmi bent á, að um eitt skeið voru norskar kartöflur seldar hjer 4–6 kr. ódýrari tunnan en danskar. Norðmenn fengu þessu minna fyrir vörur sínar en Danir; norsk framleiðsla fjell beinlínis í verði fyrir áhrif lággengisins.

Þetta tap gerir hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) ráð fyrir að framleiðendur vinni upp með því, að þeir fá fleiri krónur til þess að greiða með verkalaun, vexti og greiðslur af lánum. Það er rjett, að rekstrarkostnaður lækkar í svip. En þetta er ekki nema bráðabirgðagróði og hvergi nærri nógur til að vinna upp hið raunverulega tap. Því að það er vafalaust, að eftir því sem dýrtíðin eykst við hið lága gengi, því meir hækkar verkkaupið, enda játaði hv. þm., að svo myndi fara að lokum, að samræmi yrði milli vinnulauna og gengisins.

Hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) taldi gengið einskonar læknislyf, er hið sjúka fjármálalíf læknaði sjálft sig með. En hvernig er sú lækning? Þegar krónan lækkar í verði, hækkar kaupgjaldið, þangað til samræmi er þar á milli. En hvernig stendur hv. þm. þá að vígi að hækka gengið aftur? Ástandið er líkt því, sem var á ófriðarárunum. Vöruverð hækkaði þá í sífellu og kaupgjald um leið. En þegar vörur fjellu aftur í verði, lækkuðu þær fyr og örar en kaupgjald og annar framleiðslukostnaður. Með þessu móti verður því sýkin í fjármálalífinu ekki læknuð, heldur aðeins ýtt frá sjer í svip. En hve nær sem fara á í öfuga átt, kemur hún strax í ljós.

Jeg hygg, að okkur 3. þm. Reykv. (JÞ) greini ekki mikið á, hvað gera beri. Jeg legg ekki áherslu á, hvort gengið hækkar strax, heldur að það sje stöðvað, komið á öruggu jafnaðargengi. Mjer skilst hv. þm. (JÞ) líta svipuðum augum á málið. Hann talaði mjög vingjarnlega um þær ráðstafanir, er við hv. þm. Dala. (BJ) berum fram frv. um. En jeg er honum sammála í því, að varlega þurfi að fara, og mun jeg ef til vill tala nánar um það í sambandi við frv. okkar.

Eftir því sem umræðurnar hafa snúist, finn jeg ástæðu til þess að gera, frá mínu sjónarmiði, grein fyrir orsökum síðustu gengislækkunar. Þó að erfitt sje að skella skuldinni á nokkurn sjerstakan mann, má jafnvel segja, að það hafi orðið fyrir handvömm. Svo er mál með vexti, að í síðastliðnum september var farið að draga úr fisksölu til útlanda. Þá kom fram töluvert eindreginn vilji í þá átt að fella krónuna í verði, vegna aukinna örðugleika. Og þó í raun og veru ekki svo mjög af því, heldur vegna þess, að krónan hafði verið látin hækka óeðlilega fljótt; breytingin á verði sterlingspunds úr 27 kr. niður í kr. 25,60 eigi verið rjettmæt á þeim tíma. Þetta er því gagnstætt skoðun hæstv. fjrh. (MagnJ), er hann hjelt því fram, að sveiflan hefði átt að vera stærri. Um sama leyti hafði Íslandsbanki lítið upp á að hlaupa af erlendum gjaldeyri. Þegar svo staðið var í móti því að lækka krónuna á þessum tíma, varð sú afleiðing, að hætt var mikið til að selja erlendan gjaldeyri. Var þá gerð gangskör að því að kippa þessu í lag, og tókst um hríð, og voru yfirfærslur yfirleitt greiðar í september. Hve lengi það hjelst, man jeg ekki, en smátt og smátt kom sú tilhneiging aftur, að lækka krónuna, og kom hún fram í því, að bankarnir kiptu meir og meir að sjer hendinni um gjaldeyrissölu. Varð þetta til þess, að krónan fjell í verði erlendis, svo að fullyrt var jafnvel, að um áramót hefði verið hægt að fá yfir 30 kr. fyrir sterlingspund í London. Það var bankaráð Íslandsbanka, sem lagðist á móti því, að gengið væri lækkað í september. En það gat engu ráðið um þetta verðfall krónunnar utanlands. Jeg er enn þeirrar skoðunar, að gengið hafi ekki þurft að lækka; mjer er kunnugt um, að mikið af gjaldeyri fór fram hjá bönkunum frá 1. október til áramóta, en hins vegar hygg jeg, að aldrei hafi verið treyst á fremsta hlunn um yfirfærslur. Ef yfirfærslur hefðu aldrei stöðvast, hefði gengið aldrei lækkað. En jeg tel það þó afsakanlegt, úr því svo var komið, þó að bankarnir lækkuðu gengið upp úr áramótunum. Jeg lagði þó á móti því, en bankaráð Íslandsbanka var þá ekki alt á einu máli, og landsstjórnin, sem í september var eindregin með því að halda genginu uppi, vildi nú ekkert lið leggja til þess. Jeg veit ekki, hvort þessi breyting á afstöðu stjórnarinnar hefir staðið í nokkru sambandi við útreikning dýrtíðaruppbótarinnar í október. En jeg verð að segja það, að mjer þykir illa farið með starfsmenn landsins, ef genginu er haldið óbreyttu þann tíma, en svo slept hendinni af því. Veit jeg ekki, hvort slíkt vakir fyrir hæstv. stjórn. Hefir mjer aldrei dottið í hug, að svo væri, en vera mætti, að einhverjum hafi hugkvæmst, að þetta stafaði af helst til mikilli nærgætni við ríkissjóðinn.

Þegar svona gekk nú, genginu ekki breytt og yfirfærslur takmarkaðar til ársloka, er tekið var alveg fyrir þær, þá kom líka fram eindregin krafa utan frá, um að lækka krónuna, þótt rök væru engin fyrir því færð. Var aðeins sagt, að komið væri gengi utan bankanna, en ekki var slíkt gengi enn farið að verka á verðlag í landinu, og bar því sjálfsagt að stöðva fallið sem fyrst, ef unt var. Gengisbreytingin kom til umræðu í fulltrúaráði Íslandsbanka, eins og jeg gat um áður, og er vert að geta þess hjer, að skiftar urðu skoðanir um, hvort slíkt heyrði undir fulltrúaráðið eða ekki. Niðurstaðan varð sú, að það taldist ekki heyra undir það. En þetta er hrein fjarstæða að mínu viti, og vil jeg gjarnan skjóta því til þingsins, þótt jeg þykist vita, að á þeim stöðum verði þingið ekki talið „competent“ til úrskurðar um slíkt.

Samkvæmt reglugerð Íslandsbanka hefir bankaráðið á hendi æðstu stjórn bankans, en bankastjórar dagleg störf. En á því er það bygt, að bankaráðið hafi ekki vald til þess að hlutast til um dagleg störf.

En ef meiningin er sú, að gera bankaráðið þannig að undirbankastjórum, þá er lítil trygging fengin með lögunum um bankann, sem mæla svo um, að meiri hluti bankaráðsins skuli skipaður af þinginu.

En úrskurðurinn fjell nú á þessa leið, og því voru það ekki ráðstafanir bankaráðsins, sem framkvæmdar voru.

Þá vildi jeg minnast á þetta algilda lögmál, sem allir eru að tala um, en jeg verð að játa, að jeg veit ekki, hvar það stendur skrifað, og jeg hefi engan heyrt færa sannanir fyrir því, að þetta lögmál væri til. Er jeg hræddur um, að ef pundið hefir verið of dýrt á kr. 26,50, þá kunni það líka að vera það á kr. 28,50.

Var því líka haldið fram, að rjetta gengið mundi vera 31 kr., og því er lögmálið alveg brotið með því að reikna það eins og nú er gert á kr. 28,50. Er mjer að því leyti viðkvæmt mál, að ruglað sje með gengið fram og aftur, að jeg veit, að afleiðingar þess verða eingöngu skaðlegar fyrir ahnenningsheill.

Fyrir mig sjálfan get jeg sagt líkt og hv. samþm. minn (JÞ), að verðfall krónunnar kemur mjer ekki að skaða, heldur þvert á móti, en það er sjerstakra ástæðna vegna.

En jeg lít svo á þetta mál, að ekki megi einblína á persónulegan hag einstakra manna, en hræddur er jeg um, að svo hafi of mikið verið gert.