28.02.1923
Neðri deild: 8. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í D-deild Alþingistíðinda. (3346)

27. mál, verðgildi íslenskrar krónu

Forsætisráðherra (SE):

Nokkrar athugasemdir við ræðu hv. 1. þm. Reykv. (JakM).

Jeg var því fylgjandi, að bankinn hjeldi áfram yfirfærslum með sama gengi í október og nóvember, því jeg treysti því, að fiskur og síld mundi seljast viðunanlega og við það mundi lag komast á gengið.

Hjelt Íslandsbanki svo áfram að selja pund, meðan þau voru til, með óbreyttu verði, en þegar þau þrutu, bauðst Landsbankinn til að lána honum 30 þús. pund, en með þeim afarkostum, að ómögulegt var fyrir bankann að ganga að því boði. Átti að borga þau síðast í desember og auk þess átti hann að fá veð fyrir láninu og landssjóðsábyrgð, en landsstjórnin að hafa eftirlit með því, hvernig fjenu væri varið. Jafnhliða þessu óx sífelt eftirspurnin eftir útlenda gjaldeyrinum, sökum þess, að horfurnar um fisksöluna voru að versna. Hafði í vor, þegar mikið fiskaðist, skapast trúin á það, að íslensk króna mundi hækka, og því drógu menn greiðslur sínar, en af því leiddi, að eftirspurnin eftir gjaldeyrinum var mjög hógleg. En þegar allar horfur versnuðu og allir bjuggust við verðfalli krónunnar, þá vildu allir ná í gjaldeyrinn áður en krónan fjelli meira, og sú mikla eftirspurn þrýsti krónunni niður. Þarna sýndi lögmálið sig, sem ýmsir ekki trúa á.

Þegar jeg kom í janúar frá Kaupmannahöfn, þá hjeldu bankarnir enn „nominellu“ gengi, en yfirfærslur voru sama sem engar. Afleiðing þessa var sú, að þeir menn, sem þurftu á erlendum gjaldeyri að halda, leituðu hans utan bankanna. Það fer um sölu gjaldeyrisins sem um sölu annarar vöru.

Jeg skildi hv. 1. þm. Reykv. (JakM) svo, að hann vildi gera að umtalsefni mál, sem til umræðu kom á bankaráðsfundinum, sem sje það, að bankaráðið hefði afskifti af genginu. Má vel vera, að bankaráðið hafi það á valdi sínu að ákveða gengið, en það er ópraktiskt og jeg held óframkvæmanlegt. Er ómögulegt að heimta það af bankaráðinu eða formanni þess, að það sje inni í öllum gengissveiflum og orsökum þeirra. Þetta starf verður að fela bankastjórunum sjálfum, enda ætti slíkt ekki að vera athugavert, þar sem tveir þeirra eru nú stjórnskipaðir. Annað mál er það, að sjálfsagt er, að alt sje gert til að rjetta gengið, og það heyrir undir bankaráðið að aðstoða í því.

Að síðustu vil jeg geta þess, að báðir bankarnir fjellust í faðma um það að hækka gengið. Á Íslandsbanki þar ekki meiri sök en Landsbankinn.