28.02.1923
Neðri deild: 8. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í D-deild Alþingistíðinda. (3347)

27. mál, verðgildi íslenskrar krónu

Magnús Kristjánsson:

Það eru aðeins nokkrar athugasemdir, sem mig langar til að gera út af því, sem fram er komið í þessu máli. Jeg er að mestu leyti samþykkur hv. flm. (JB) um tilganginn, um efni till., en ekki um meðulin til þess að bæta ástandið. Því jeg er því algerlega mótfallinn, að reynt sje að stöðva gengið, með því að taka lán til að greiða skuldir Pjeturs og Páls, sem stofnaðar hafa verið fyrirhyggju- og ábyrgðarlaust.

Um ræðu hæstv. fjrh. (MagnJ) er það að segja, að jeg heyrði fremur lítið af henni, því manninum liggur í lægra lagi rómur. Má vel vera, að þar hafi margt spaklega sagt verið, en þó álít jeg, að mest hafi það verið „teoriur“, sem að litlu gagni koma, og lýsing á sleifarlaginu í bönkunum, sem stjórnin hefir látið sig litlu skifta.

Hæstv. forsrh. (SE) gaf þær upplýsingar, að þegar um það var að ræða, hvort ríkisstjórnin, eftir tilmælum Landsbankastjórnarinnar, vildi leggja fyrir þingið tillögu um skipulagsbundna afurðasölu, í því skyni að stöðva gengi íslensku krónunnar, þá hafi hún neitað því. Er þetta að vísu lofsverð hreinskilni, en stjórnin hefir að mínu áliti brotið stórkostlega af sjer með þessu háttalagi. Hefði henni þó ekki átt að verða skotaskuld úr því að leggja eitthvað fram, því að nógu loðið hefði henni verið treystandi til að hafa það, til þess að binda sig ekki um of.

Það hefir mikið verið talað um hið órjúfandi viðskiftalögmál. En enginn veit, hvað það er nje hvernig það hagar sjer. Er og sannleikurinn sá, að það fer að mestu eftir því, hvernig þing og stjórn, ásamt bankastjórunum, haga afskiftum sínum af viðskiftamálunum.

Hæstv. forsrh. (SE) sagði, að bankinn hefði reiknað útlenda gjaldeyrinn of lágt á liðna árinu. Reynslan hefir ekki sýnt þetta, enda hefðu þeir sjálfir átt að geta ráðið mestu um það, að andvirði hins útlenda gjaldeyris væri hæfilega ákveðið. Er aumt til þess að vita, að bankarnir skuli hafa látið örfáa einstaka menn ráða því, hvert verðgildi peninganna skuli vera á hverjum tíma.

Tíminn er stuttur, svo að jeg verð að hlaupa lauslega á aðalatriðunum. Verð jeg því að skilja við hæstv. forsrh., en vænti þess, að mjer gefist aftur tilefni til að víkja að þessu, þegar 4. mál á dagskránni kemur til umræðu.

Þá var það hv. 3. þm. Reykv. (JÞ), er jeg vildi tala fáein orð við. Ræða hans var að vanda sjálfsagt vel undirbúin og í flestum dráttum rökstudd að dómi ýmsra, og verður hún líklega kölluð stórmerkileg í sumum blöðum, eftir undanfarandi reynslu að dæma. En hún fjell ekki við minn skilning, og ætla jeg því að leyfa mjer að gera við hana nokkrar athugasemdir.

Hv. þm. (JÞ) sagði á þá leið um hið óhagstæða gengi íslensku krónunnar og núverandi ástand viðskiftamálanna, að sá sjúkleiki gæti orðið til góðs, ef hann stæði nógu lengi. Jeg geri ráð fyrir, að meining hans hafi verið sú, að þótt við sjeum búnir að taka lán og tapa stórfje á gengislækkun, þá verði sá lærdómur af því í framtíðinni, að þjóðin fari skynsamlegar að ráði sínu.

Þó að þm. (JÞ), eftir rökfærslu hans að dæma, hafi meint annað, er legið hafi á bak við hjá honum, vil jeg nú samt færa þessi ummæli til betri vegar. Annað mál er það, að jeg er skoðunum hans mótfallinn.

Þá sagði hann einnig, að lága gengið hefði orðið til góðs á þann hátt að takmarka innflutning til landsins. Það er nýtt að heyra þann hv. þm. telja það til kosta. Hefði svo verið, þá erum við sammála. En jeg hygg, að þessu sje ekki þannig varið í raun og veru.

Þá gat þm. enn fremur um, að lága gengið hefði aukið framleiðsluna. Það efast jeg um. Hann þekkir það máske betur. Mjer er eigi kunnugt um það. En hafi það verið svo, þá er það óheilbrigt og stendur ekki lengi. Enda efa jeg mjög, að það hafi átt sjer stað.

Niðurstaðan verður þá þessi, að meginatriðin í ræðu hv. þm. (JÞ) eru villukenningar, að líkindum fluttar til þess að mæla fyrir og vernda hagsmuni nokkurra einstaklinga. Hann má álíta þær landinu fyrir bestu, en það geri jeg ekki.

Hið sanna er, að verðfall íslensku krónunnar hefir ekki aukið framleiðsluna í landinu nje minkað innflutning erlendra vara. Það er nokkuð langt gengið að ætla að telja mönnum trú um, að framleiðslunni sje hagur að lágu gengi, en þetta er öldungis fráleitt. Með bestu gengi er lægstur tilkostnaður við framleiðsluna. Af verðfallinu stafar óhagur. Þetta liggur svo í hlutarins eðli, þegar alt gengur sinn eðlilega gang. Þess vegna er það aðeins blekking, að framleiðendur hagnist á lággengi. Hitt getur ef til vill átt sjer stað, að einstakir gróðabrallsmenn hagnist, sem hafa gjaldeyrisvörumar til umráða, en almenningur alls ekki.

Jeg vona, að jeg hafi tekið það fram nægilega skýrt, að rökfærsla hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) er bæði villandi og hættuleg, ef lagður væri trúnaður á hana.

Þá kem jeg að hv. 1. þm. Reykv. (JakM). Við höfum sjaldan verið sammála, hvernig sem á því stendur. En hjer er þó stutt á milli, og tel jeg það vel farið. Þótt hann teldi, að lágt gengi væri til ills eins, þá var hann ekki sterkari á svellinu en það, að hann gekk að nokkru leyti inn á kenningu hv. 3. þm. Reykv. (JÞ), að það gæti verið framleiðslunni til gagns í vissum tilfellum. (JakM: Nei). Jú, hv. þm. hlýtur að kannast við orð sín; jeg skrifaði þau eftir honum.

Svo langt er nú komið, að mikill hluti af framleiðendum í landinu, einkum til sveita, annast sjálfir sölu á framleiðsluafurðum sínum, þ. e. Samband íslenskra samvinnufjelaga. Þótt það sje ekki vinsælt nje mikils metið af öllum hjer í bænum, þá eru fjelagar þess svo mannaðir, að borga ekki gengismun. Það hefir lagt útlenda peninga í bankana hjer síðastliðið ár, og er það vel farið, enda heilbrigðast, að framleiðendur njóti sjálfir hagnaðarins af viðskiftunum út á við.

Þá eru og fáeinir aðrir framleiðendur, sem flytja sjálfir vöru sína á markaðinn og njóta hagsmunanna af því. En allur fjöldinn, hinir máttarminni framleiðendur, verða að nota milliliðina og bíða skaðann. Því að gróðabrallsmenn og milliliðir, sem kaupa íslensku krónuna, stinga hagnaðinum í eigin vasa.

Hjer verð jeg að fella niður mál mitt, því jeg sje, að fundartíminn er útrunninn.