28.02.1923
Neðri deild: 8. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í D-deild Alþingistíðinda. (3348)

27. mál, verðgildi íslenskrar krónu

Forsætisráðherra (SE):

Jeg þarf ekki að bæta mörgum orðum við það, sem jeg sagði hjer áður um afstöðu stjórnarinnar gagnvart bönkunum í gengismálinu. Þó að landsstjórnin hefði nú lofað bönkunum að koma með höft, hvaða áhrif hefði það svo haft? Hjer situr alveg óbreytt sama þing og í fyrra, er þá lagði ákveðið á móti öllum höftum. Jeg er því hræddur um, að það hefði orðið lítils virði fyrir bankana, þó að stjórnin hefði gefið einhver loforð í þessu efni.

Þá er lánaleiðin. Hvað ætli þingið hefði sagt við stjórnina, ef hún hefði ákveðið að ganga í ábyrgð fyrir Íslandsbanka? Þá hefði víst ekki verið tekið illa á móti henni! (MK: Það mál liggur alls ekki fyrir). Þetta eru aðalleiðirnar, lántaka eða ríkisábyrgð fyrir Íslandsbanka. Landsbankinn fekk ábyrgð hjá stjórninni eins og hann óskaði. Það er því erfitt að gefa landsstjórninni nokkuð að sök, þar sem hún gerði alt, sem í hennar valdi stóð, í þessu máli.