01.03.1923
Neðri deild: 9. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í D-deild Alþingistíðinda. (3350)

27. mál, verðgildi íslenskrar krónu

Flm. (Jón Baldvinsson):

Umræðurnar um þetta mál í gær voru á víð og dreif. Það, sem jeg hafði óskað eftir, greinileg skýrsla um málið frá hæstv. stjórn, kom ekki fram.

Ætla jeg þá að víkja að einstökum atriðum, sem fram hafa komið í ræðum hv. þm.

Sannast að segja þótti mjer ályktanir hv. samþm. míns, 3. þm. Reykv. (JÞ), undarlega hæpnar, eftir allri röksemdafærslu hans. Röksemdafærsla hans fór sem sje öll í þá átt, að því meira sem íslenska krónan fjelli, þess betra yrði að lifa í landinu. En þó vildi hv. þm. (JÞ) að síðustu vona, að verðgildi krónunnar mundi hækka og gengið læknast af sjálfu sjer!

En jeg er nú hræddur um, að það sje ekki leiðin til lækningar, að láta krónuna falla, og er alveg ósammála hv. þm., að nokkur hagnaður sje að því. Vil jeg nefna hjer tvö dæmi, sem hv. þm. (JÞ) nefndi til rökstuðnings sínu máli.

Hv. þm. (JÞ) hjelt því fram, að gengislækkunin mundi takmarka innflutning á útlendum vörum og örva útflutning á framleiðsluvörum. Ef lággengið á þennan hátt yrði til þess að efla hag þjóðanna, hvers vegna skyldu þær þá allar reyna að streitast eftir megni á móti gengislækkuninni, ef það er slík blessun, eins og hv. þm. vill vera láta? Það virðist ofurauðvelt að láta gengið falla. En þennan kost hafa menn nú ekki viljað taka, heldur verjast lækkuninni eins og hægt er. Mjer virðist það líka vera skoðun allra ræðumanna hjer, nema hv. 3. þm. Reykv. (JÞ). En það eru sárfáir menn, sem hagnast á gengislækkuninni, og það er þeirra hagur, sem hv. þm. ber fyrir brjósti.

Annað atriðið, sem hv. þm. (JÞ) vildi láta styðja sína skoðun, um haginn af lággenginu, var það, að með lækkandi gengi krónunnar væri atvinnurekendum auðveldara að svara út vöxtum og afborgunum af rekstrarfje. Það kann rjett að vera, að í fljótu bragði sje það auðveldara, ef tekjurnar vaxa að sama skapi. En gerist það ekki líka á kostnað annara landsmanna? Ef jeg skulda 100 þús. krónur, og svo fellur gengið áður en jeg borga, en tekjur mínar vaxa hlutfallslega við gengislækkunina, þá vitanlega græði jeg, en það verður á kostnað annara landsmanna, sem tapa á lækkuninni.

Hv. þm. (JÞ) var sammála mjer um, að þeir, sem hefðu lánstraust erlendis, færu varlegar með það, ef krónan fjelli. En hann hjelt, að það mundi verða til þess að takmarka innflutning. En það held jeg ekki.

Þeir menn, sem geta aflað sjer lánstrausts erlendis, eru efnamennirnir, sömu mennirnir, sem eiga öðrum fremur aðgang að erlendum gjaldeyri hjá bönkunum hjer, og þyrftu því ekki að takmarka neitt verslun sína, þótt þeir hættu að nota erlenda lánstraustið.

Það hefir komið fram hjer í umræðunum, að menn hafa gert ráð fyrir því, að allur almenningur hafi ekki notið eða getað notið hlunninda af því í vöruverði yfirleitt, þegar bankarnir höfðu gengi erlendra peninga sem lægst síðastliðið sumar, heldur hafi vöruverðið verið miðað við útlendan gjaldeyri, eins og hann var seldur manna á milli utan hjá bönkunum. En þetta er ekki allskostar rjett. Á öllum algengustu nauðsynjavörum naut hann áreiðanlega lækkunarinnar, þótt vel geti verið, að á svonefndum luxusvörum hafi þetta ekki komið fram. Í þessu sambandi má einnig benda á það, sem líka styrkir þessa skoðun, að einmitt matvöruverð hækkar, þegar bankarnir fastákveða gengið, eða lággengið, eins og nú er orðið.

Út af því, sem jeg sagði um það, að yfirfærslur hefðu stöðvast hjá bönkunum í síðastl. desembermánuði, vil jeg aðeins geta þess, til að sýna, hve erfitt er að átta sig á því, hvað rjett sje í þessu gengismáli, að hæstv. fjármálaráðherra (MagnJ) sagði, að þær hefðu stöðvast í nóvember, hv. 1. þm. Reykv. (JakM) sagði, að þær hefðu stöðvast í október, maður frá Íslandsbanka segir í september, og þm., sem þóttist kunnugur, skaut því að mjer, að þetta hefði verið í ágústmánuði!

Jeg vil þakka hv. samþm. mínum, 1. þm. Reykv. (JakM), fyrir ræðu hans. Jeg græddi meira á henni en ræðum beggja ráðherranna. Maður sá þar betur og greinilegar, hvernig gangurinn hefir verið í samningunum milli bankanna og stjórnarinnar um þetta gengismál. Þó jeg sje hins vegar ekki sammála hv. þm. í öllum atriðum. Fyrir honum er það aðalatriðið að stöðva gengið, en jeg vil jafnframt hækka það.

Hins vegar var ræða hæstv. forsrh. (SE) að mjer virtist nokkuð óskýr. Hann vildi vísa þessu frá sjer yfir á bankastjórnirnar, og má það kannske til sanns vegar færa að sumu leyti, því auðvitað á stjórnin að hafa æðsta yfirlit og yfirráð með þessu öllu. Annars skýrði hæstv. ráðherra í rauninni alls ekki það, sem hann hefði átt að skýra. Hann talaði alment um gengið, en vjek minna að hinu, sem þó hefði átt að vera þungamiðjan í hans ræðu, hvað hann sjálfur, eða stjórnin í heild, hefði gert til þess að halda genginu í hagkvæmu horfi. Mjer skildist það einnig á ummælum hans um Landsbankann, að sá banki hefði ekki viljað fallast á till. hæstv. fjármálaráðherra um nefndarskipunina. En jeg má fullyrða, að þetta er rangt. — Landsbankinn mun þvert á móti hafa gert einar þrjár tillögur um þetta mál til stjórnarinnar. Hitt er annað mál, að bankinn mun hafa viljað fá tryggingu fyrir því, að það yrði ekki látið henda oftar á miðju ári, að yfirfærslur stöðvuðust. Og síðan hefir Landsbankastjórnin sjálf gengist fyrir því, sem stjórnin vildi ekki gera, að kalla útgerðarmenn á fund til þess að kjósa nefnd til að athuga það, hvernig útflytjendur gætu betur „organiserað“ útflutning sinn.

Þá má líka geta þess, að Landsbankinn vildi láta festa lausu skuldirnar, en stjórnin telur sig eða taldi ekki hafa heimild til þess að taka lán í þessum tilgangi.

Um ræðu hv. þm. Ak. (MK) þarf jeg ekki að fjölyrða; hann var till. minni mjög mótfallinn, enda mun hann hafa aðrar till. að gera í þessu efni. Og þó við sjeum sammála um sum atriði, svo sem um skipulag útflutningsins, erum við það ekki að því er til innflutningshaftanna kemur, sem hann leggur aðaláhersluna á. — Að öðru leyti þarf jeg ekki að svara ræðum þeim, sem um málið hafa verið fluttar.