01.03.1923
Neðri deild: 9. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í D-deild Alþingistíðinda. (3355)

27. mál, verðgildi íslenskrar krónu

Jón Þorláksson:

Jeg skil það, að hv. deild muni nú vera orðin ærið þreytt á þessum umr., og skal því ekki vera langorður.

Jeg vil byrja með því að þakka hv. þm. Ak. (MK) fyrir skemtunina í gærdag, þegar hann var að reyna að hafa eftir mjer ummæli úr fyrri ræðu minni um þetta. Hann kvað mig hafa haldið því fram, að þessi gengissjúkdómur yrði til góðs, ef hann stæði nógu lengi. Að vísu hefi jeg aldrei sagt þetta, en í rauninni er það ekki svo lítil speki, sem hv. þm. (MK) hefir hjer lagt mjer í munn, því að það getur sannarlega svo farið, að þessi sjúkdómur verði til góðs, ef hann stendur nógu lengi til þess, að landsmenn læri af honum það, sem þeir þarfnast mest að læra í þessum efnum.

Jeg skal þá víkja lítið eitt að kenningu hv. 1. þm. Reykv. (JakM) um lögmálið um framboð og eftirspurn. Hann kvað íslensku krónuna lækka þann tíma ársins, sem útflutningur er mestur, en hækka á öðrum tímum árs, eða þegar innflutningurinn er tiltölulega meiri en útflutningurinn, og í báðum tilfellum kveður hann landsmenn tapa á gengisbreytingunni. Jeg skal játa, að þetta er mjög áferðarfalleg kenning. En á henni er bara sá lítilmótlegi galli, að hún kemur ekki heim við reynsluna á þessu eina ári, sem liðið er síðan sjerstakt gengi á íslenskri krónu var viðurkent, árið 1922. Það sýnir alveg öfuga niðurstöðu við kenninguna. Allir vita, að útflutningur íslenskra afurða er mestur á haustin. Pundið hefði þá átt að falla á þeim tíma, en það skeði einmitt hið gagnstæða. Og ástæðan til þess er auðfundin. Hún er sú, að þeir voru helst til margir, sem trúðu á þessa kenningu hv. 1. þm. Reykv. (JakM) og ætluðu sjer að nota þá ímynduðu þekkingu sína til að græða á henni. Margir kaupmenn fengu sjer vörur að láni erlendis til haustsins og hugðust mundu borga þær lægra verði, er íslenska krónan hækkaði. Aðrir fengu eldri skuldir sínar framlengdar til þessa sama tíma, og niðurstaðan varð svo sú, að eftirspurn erlenda gjaldeyrisins varð einmitt mest á þessum tíma, svo að verðið á honum hækkaði, íslenska krónan lækkaði. Svona getur nú farið, þrátt fyrir alla áferðarfegurð þessarar kenningar hv. 1. þm. Reykv. (JakM).

Þá kom önnur kenning fram hjá hv. 1. þm. Reykv. (JakM), sem var þess eðlis, að mjer finst rjett að minnast lítið eitt á hana. Hún hljóðaði svo, að lággengi gjaldeyrisins í einu landi hafi í för með sjer verðfall innlendu vörunnar. Skírskotaði hv. þm. þar sjerstaklega til reynslu Þjóðverja og svo einnig Norðmanna. En jeg verð þá að halda því fram, að alt öðruvísi standi á með þessar þjóðir en oss. Það, sem gerði, að þýskar vörur urðu svo ódýrar, var það, að Þjóðverjar hjeldu sem stórþjóð fast við þá venju að selja vörur sínar gegn innlendum gjaldeyri. Þar sem nú oftast líður langur tími milli sölu og endurgreiðslu, en markið fjell óðfluga, þá varð sú raunin á, að kaupendur vörunnar fengu það talsvert ódýrara en á horfðist, er þeir keyptu vöruna, og hana þar af leiðandi líka. En með oss er alt öðru máli að gegna. Hjá oss er það ekki venja að selja vörur vorar í innlendum gjaldeyri, heldur erlendum, og hefir lággengi krónunnar því ekki þessi áhrif hjá oss. Jeg skal hjer benda á það dæmi, þar sem leiðin á markaðinn er styst hjá oss. Það er ísfiskssalan. Það skal enginn telja mjer trú um, að vjer fáum færri sterlingspund fyrir hann, þótt pundið sje í kr. 28,50 en þótt það sje aðeins í 26 krónum. Hvað gengi hins erlenda gjaldeyris er hjer, hefir ekkert að segja í því tilliti. Sama á sjer stað um allar þær vörur hjá oss, sem seldar eru gegn erlendum gjaldeyri, en það eru flestar okkar afurðir. Þó skal jeg ekki neita því, að það geti komið fyrir, að lággengið geti haft nokkur áhrif í þessu tilliti. Það ljettir undir með framleiðendum og gerir þá færari um, ef þörf krefur, að lækka verð afurðanna. Ef t. d. togari þarf að nota helming aflafjár síns til erlends kostnaðar, en hinn helminginn til þess innlenda kostnaðar, þá verður hann ólíkt betur settur með hærri krónutöluna fyrir þann helming andvirðisins, sem hann flytur heim, ef krónan stendur lágt. Setjum svo, að 500 pund af 1000 pundum fari í erlendan kostnað. Það munar þá ekki svo litlu, hvort hlutaðeigandi togari fær kr. 28,50 fyrir hvert af þeim 500 pundum, sem eftir eru, eða aðeins 26 krónur. Á þessum mismun getur það oltið, hvort kleift er að halda útgerðinni áfram.

Svona er nú þessu farið. Það er viðurkent um allan heim sem sameiginlegt fyrirbrigði, að í lággengislöndunum eru atvinnuvegirnir í fullu fjöri og næg atvinna, en í hágengislöndunum aftur á móti megnt atvinnuleysi og vandræði að koma vörunum út á erlendum mörkuðum. Þótt lággengið orsaki lægra vöruverð, er alls ekki sagt, að það valdi framleiðslunni nokkru tjóni, heldur þvert á móti. Varan verður þá oftast eftirsóttari, en af því leiðir, að meira er framleitt, og getur þetta á þann hátt orðið til stórhags fyrir það þjóðfjelag og hjálpað til að bola keppinautana frá á erlendum mörkuðum. (JakM: Það getur nú líklega stundum orðið skammgóður vermir). Það er annað mál. Og til þess að afstaða mín hjer verði ekki misskilin, skal jeg einmitt fara nánar út í þetta.

Það má ekki vísvitandi halda verði erlends gjaldeyris lægra en hann er í raun og veru.

Mjer skildist, að hv. samþm. minn, 1. þm. Reykv. (JakM), segði, að bankaráð Íslandsbanka hefði beitt áhrifum sínum í þá átt í síðastliðnum septembermánuði, að verðið á sterlingspundinu hækkaði ekki í bankanum. Ef það hefir verið skakt skilið, þá óska jeg, að hann leiðrjetti það strax. Fyrst hann leiðrjettir það ekki, álít jeg það rjett skilið. Jeg áfelli engan fyrir það, sem gert var; ný fyrirbrigði sjást ekki fyrirfram. Það gat verið rjett að reyna að stöðva gengið, hefði það tekist. En eftir á má sjá, og er rjett að benda á til varnaðar, að það var rangt að halda pundsverðinu niðri með þvingun þann tímann, sem sala haustafurðanna stóð yfir, en hækka það svo á eftir. Það hefir í för með sjer, að framleiðendur útfluttu vörunnar eru sviftir nokkrum hluta af sínu vöruverði. Má benda á dæmið, sem hv. þm. (MK) tók af Sambandi íslenskra samvinnufjelaga, er úthlutar bændum sínu vöruverði með gengishagnaði. Þeir nota nú nokkurn hluta af gjaldeyrinum til vörukaupa erlendis, og sá hluti kemur hjer ekki til greina. En nokkur hluti mun hafa gengið til bankanna hjer, og því fengist fyrir sterlingspund kr. 25, 50, ef bankinn tekur 50 aura í kostnað.

En þeir áttu rjett á að fá hærra, líklega 28 kr., eftir því sem nú er á daginn komið. Þau afföll, sem af þessari ástæðu koma fram, verða ekki landsmönnum til nota, eins og jeg lýsti í gær; þau koma ekki fram í lækkuðu vöruverði, og lenda stundum beinlínis í braskarahöndum, eins og t. d. átti sjer stað um þá menn, sem keyptu pundin í bankanum fyrir lága verðið og seldu þau pósthúsinu fyrir hærra verð. Jeg hefi bent á þetta, af því að jeg veit ekki til, að frá því hafi verið skýrt opinberlega áður, og ekki til þess sjerstaklega að ámæla bankaráðinu fyrir gerða ráðstöfun, heldur til aðvörunar framvegis um það, að láta framleiðendur og útflytjendur fá sannvirði fyrir gjaldeyri sinn. En jeg er samdóma hv. þm. (JakM) um, að stefna beri að stöðvun gengisins. Öll skandinavísku löndin gera sjer enn þá von um að geta komið peningum sínum í „pari“; jeg fylgist með straumnum og vona, að við getum þetta líka. Eins og gengislækkunin örvar framleiðsluna og atvinnulífið, þá er á hinn bóginn hækkun gengisins sú erfiðasta braut, sem nokkur þjóð getur gengið. Má t. d. benda á, hvað það kostar Englendinga. Merkir fjármálamenn þar halda því fram, að þjóðin þoli ekki hækkunina eins öra og hún nú er, af því að það geri framleiðslu þjóðarinnar svo erfitt fyrir. Þessir erfiðleikar eru vitanlega mjög sterk hvöt til þess að halda sem mest í hemilinn á gengislækkuninni.

Læt jeg svo útrætt um þetta að sinni. Jeg hefi ekki mikið að athuga við ræðu hv. samþm. míns, 2. þm. Reykv. (JB). Hann viðurkendi, að atvinnurekendum væri hægra að greiða vexti og afborganir af stofnfjenu, ef gengismunurinn kæmi fram, en spurði, hvort það gerðist ekki á kostnað annara landsmanna. Jú, vitanlega kemur það fram á kostnað þeirra, sem eiga sparifje; eign þeirra lækkar eftir sama hlutfalli, og má það því skoðast sem skattur á eignamönnunum, lagður á til hagsmuna fyrir framleiðendur. Jeg tel varhugaverðast, að þær gengislækkanir, sem koma fram, fái ekki að njóta sín, og verst, ef það rjetta kemur ekki í ljós. Það lægi máske nær að minnast á orsakir gengislækkunarinnar en afleiðingar, þegar rætt er um tillögur til lagfæringar á genginu. Þá er það eitt stórt atriði, sem ekki má gleyma, sem mestu ræður um gengið, en það er verðlag innanlands á innlendum vörum. Sje það af einhverjum ástæðum óhæfilega hátt, þá eru peningarnir verðlitlir. Nú er það svo að segja einungis ein vörutegund, sem verslað er með innanlands hjá oss í stórum stíl, og það er vinnan. Milli gengismunar og vinnulauna er samband til samræmis því tvennu. Svo að þegar sterlingspundið lækkaði um 10%, hefir kaupið verið lækkað sem samsvarar þeim 10%. Jeg segi ekkert um, hvort það hafi verið rjettmætt eða ekki, en það hefir skeð á þennan hátt. En þetta er handhæg og kostnaðarlítil aðferð til kauplækkunar. Aðrar leiðir, svo sem verkbönn og stríð, eru kostnaðarsamar fyrir heildina. Það má ekki loka augunum fyrir því, að gengislækkunin hefir gert það að kostnaðarlausu, án þess að fella niður vinnu, hvort sem lækkunin var rjettmæt eða ekki.

Svo jeg snúi mjer að því, sem sagt hefir verið um afstöðu bankanna til þessa máls, þá þótti mjer bresta á hjá landsstjórninni, að hún hefir enn ekki gefið glögga skýrslu um það, sem gerst hefir. Það er ekkert leyndarmál; getur verið til hins lakara að dylja það að óþörfu, en gott að fá það skýrt. Jeg gæti að vísu gert það; hefi útvegað mjer gögn til þess, en slæ því á frest, af því að hv. deild er farin að þreytast á umræðunum. Þó vil jeg gera dálitla leiðrjettingu á því, sem jeg sagði í gær um verðið á sterlingspundunum. Þau hafa hækkað móts við gull um 10% á árinu 1922. Kr. 28,50 fyrir sterlingspund nú samsvara því kr. 26 í ársbyrjun 1922. En þá var gengi íslenskrar krónu 27 fyrir sterlingspund, svo að raunverulega hefir íslenska krónan hækkað á árinu 1922, en ekki lækkað.