13.03.1923
Neðri deild: 19. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í D-deild Alþingistíðinda. (3365)

53. mál, sjómælingar

Þórarinn Jónsson:

Mjer var ókunnugt um framkvæmdir hæstv. atvrh. í þessu máli og hefði ekki komið fram með till., ef jeg hefði vitað um þær. Þrátt fyrir það vil jeg þó sýna, að það, sem brtt. mín fer fram á, hefir mikla þýðingu fyrir siglingar kringum landið. Á þinginu í fyrra bárum við hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) fram þessa till., eftir tilmælum skipstjórans á Goðafossi.

Til þess að komast inn á Miðfjörð, þegar komið er austan fyrir, þarf að sigla vestur undir Grímsey við Steingrímsfjörð, og það verður þó heldur ekki komist inn á Miðfjörð nema í fjallabjörtu, svo að sjáist til miða í landi. Þetta tekur strandferðaskipin um 2 tíma siglingu, hjá því sem að komast inn með Vatnsnesinu vestanverðu; en sú leið hefir ekki verið mæld upp og er talin skerjótt. Og eins er það, þegar þokur liggja á flóanum, er það venjulega vestan til á honum, meðfram Ströndum. T. d. lá Goðafoss í 3 daga teptur fyrir þoku 1921, og sást þá altaf austan frá við þokubrúnina. Alla þessa daga hefði hann komist austari leiðina, hefði hún verið mæld upp.

Þetta hefir mikil áhrif á allar samgöngur, tefur skipin og eykur farþegum mjög óþægindi. En vegna þess kostnaðar, sem hæstv. atvrh. sagði, að þessar mælingar hefðu í för með sjer, vil jeg ekki ýta undir framkvæmdir að sinni. Aðeins vil jeg taka það fram, að allir skipstjórar, sem þarna þekkja til, álíta þessa skipaleið vel færa, og væri því til stórra bóta, að hún yrði mæld upp. Mætti líka framkvæma þetta á fleiri árum. Byrja þar, sem þörfin væri mest og ódýrara væri, eins og mun vera ástæðan með þessa mælingu.