16.04.1923
Sameinað þing: 3. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í D-deild Alþingistíðinda. (3375)

132. mál, setning og veiting læknisembætta

Magnús Pjetursson:

það virðist vera óþarfi að tala um þessa tillögu, þegar stjórnin er búin að lýsa því yfir, að hún taki hana ekki til greina, þó að hún verði samþykt. En þetta er í rauninni svo alvarlegt mál, að þörf er að athuga það frekar.

Þetta mál er enginn nýr gestur hjer á Alþingi, því að 1917 var borið fram frumvarp, er gekk í svipaða átt og þessi tillaga, og er tilgangurinn alveg hinn sami eins og fara ætti að kjósa hjeraðslækna, þó að hv. flm. (HK) vilji reyna að smeygja tillögunni í gegn með því yfirskyni, að hún sje engin lög og að þessi sje ekki tilgangurinn.

En jeg vil nú spyrja hv. flm. (HK), hvað tillagan hafi í raun og veru að þýða, ef ekkert tillit á að taka til hennar og stjórnin þarf ekkert eftir henni að fara. Því að hv. þm. (HK) margtók það fram, að stjórnin gæti gert alt, er henni sýndist, í þessum efnum, þó að till. yrði að þingsályktun. Jeg skil því ekki þennan skollaleik, og hefði verið miklu einarðlegra fyrir hv. flm. að koma beinlínis með frv. um kosningu hjeraðslækna.

Annars er engin þörf að andmæla beinlínis ræðu hv. flm. (HK), því að hún gekk öll á móti tillögunni, en ekki með.

Þá las hv. flm. (HK) upp kafla úr brjefi formanns Læknafjelagsins til Alþingis. Skýrði hv. flm. einungis út brjef þetta, en andmælti því ekki, því að hann leiddi fram rök með því, en engin gegn því. Er því í sjálfu sjer óþarft að fara fleiri orðum um þessa tillögu, en þar sem hún getur orðið skaðleg fyrir þjóðfjelagið, ef hún verður samþykt og skipulag það kemst á, sem hún fer fram á, hlýt jeg að fara nokkrum fleiri orðum um hana.

Það mun enginn efi vera á, að meiningin með tillögu þessari er sú, að fá sem besta lækna í hvert einstakt hjerað. En jeg vil nú skjóta því til hv. þm., hvort þeir treysti almenningi til þess að dæma rjett um lækna.

Því hefir verið haldið fram, að þetta væri hliðstætt prestskosningu, en svo er alls ekki, því að prestarnir geta kynt sig með ræðum sínum, og geta því látið sóknarbörn sín nokkurn veginn vita, hvernig þeir eru starfi sínu vaxnir. En hvernig geta læknar látið sjá verk sín fyrir kjósendum? Jeg er hræddur um, að það gangi illa, því að hvernig eiga þeir að geta sýnt list sína t. d. í skurðlækningum, yfirsetukvennafræði o. fl.? Og hverjir ættu svo að útvega verkefnin og hverjir að dæma um þau? Allir hv. þm. hljóta því að sjá, að þetta er einungis skopleikur. Hjeraðsbúar geta ekki á þennan eða annan hátt skorið úr, hver læknir, af svo og svo mörgum umsækjendum, sje bestur.

Þá er annað atriði, sem jeg vil benda á, og einmitt sökum þess undrar mig, að slík tillaga sem þessi skuli komin frá hv. þm. Barð. (HK), þar sem í hans kjördæmi er mjög lítið læknishjerað, sem verið hefir læknislaust nú um tíma, einmitt fyrir þá sök, að það þykir mjög lítilfjörlegt. Því að þessu máli er þannig varið, að það spyrst æfinlega miklu minna til þeirra lækna, sem eru í litlum hjeruðum, heldur en hinna, sem eru í hinum betri hjeruðum og hafa auk þess sjúkrahús. Það myndi því venjulega lítill orðstír fylgja þeim úr litlu hjeruðunum út til kjósendanna, og væri því ekki hægt að búast við, að þeir yrðu kosnir síðar meir í önnur hjeruð. Gæti því vel farið svo, að margir læknar þyrðu alls ekki að fara í hin minni hjeruð, af ótta fyrir að losna þaðan aldrei aftur. Af þessu mundi því leiða, að smáu hjeruðin yrðu læknislaus, af því enginn fengist þangað. Er því ekki annað hægt að segja en tillaga þessi komi úr hörðustu átt, þar sem hún kemur frá hv. þm. Barð. (HK).

Þá var hv. flm. (HK) að vefengja það, sem formaður Læknafjelagsins, Guðmundur Hannesson, segir í brjefi sínu, að þá er óskað sje eftir einhverjum læknum, þá sjeu það æfinlega ungir læknar, sem óskað er eftir. En hv. flm. (HK) veit það, að það hafa komið fram slíkar óskir og koma oft fram enn þá. Og þá hefir æfinlega viljað svo til, að þær hafa verið um unga lækna, sem eðlilegt er, því að það er álitið, að þeir fylgist betur með í hinum nýjustu vísindum læknislistarinnar en hinir eldri, sem kunna að vera farnir að dofna, auk þess, sem þeir eru betri til ferðalaga en hinir eldri, sem farnir eru að stirðna.

Ef þetta yrði því samþykt, mætti búast við, að hinir gömlu læknar sætu heldur kyrrir í hjeruðum sínum heldur en leggja út í kosningaróður gegn stjettarbræðrum sínum. Er það því rjett, sem prófessorinn segir, að það yrðu einungis hinir lakari læknar, sem vildu leggja út í kosningabaráttu.

Þá gaf hv. þm. (HK) það í skyn, að læknastjettin væri hringur. En þessu verð jeg alveg að mótmæla, því jeg tel þetta mál snúa meira að landslýð en læknastjettinni.

Þá gat hv. þm. (HK) þess, að lítið gerði til, þó að mistök yrðu í vali læknanna hjá hjeruðunum, því að þau mistök kæmu mest niður á hjeruðunum sjálfum. En þá vil jeg benda hv. flm. á, að í tillögunni er ekki gert ráð fyrir öðru en að einfaldur meiri hluti ráði. Lenda mistökin þá ekki á minni hlutanum, sem altaf er töluverður, þegar um kosningar er að ræða? Jeg get ekki annað sjeð. Er því ærið hart fyrir minni hlutann að verða að beygja sig undir það, sem einungis lítill meiri hluti vill, auk þess, sem þeir menn, sem móti læknunum væru við kosningarnar, myndu ekki taka þeim mjög hlýlega, er þeir kæmu í hjeruðin.

Þá var hv. flm. (HK) að finna að því, að Guðmundur Hannesson teldi almenning ekki dómhæfan í þessum efnum. En jeg vil einmitt undirstrika það með prófessornum, að almenningur sje alls ekki dómhæfur í þessu máli, því að það þarf fleiri ár til þess að geta dæmt um, hvort einn læknir sje góður eða ljelegur.

Annars þótti mjer leiðinlegt, hve hörðum orðum hv. flm. (HK) fór um prófessorinn, sem ekki var viðstaddur, því að hann sagði meðal annars, að það væri ekki af vitsmunaskorti, að brjefið væri eins illa úr garði gert og hv. þm. vildi halda fram, heldur lægju þar til ýmsar misjafnar hvatir, sem hann þóttist ekki vilja nefna.

Eftir því, sem hv. flm. (HK) talaði fyrir tillögu sinni, gat mjer ekki skilist annað en hann blandaði samantvennu mjög ólíku, sem sje, hvernig velja ætti embættismann og hvernig reka ætti ónýtan embættismann. En jeg get ekki skilið, eftir þeim ástæðum, sem tillagan kom fram af, að hún hafi átt að ganga í þá átt, sem jeg fyr nefndi. Jeg veit líka ekki betur en menn sjeu siðferðilega skyldugir að kvarta yfir þeim embættismönnum, sem standa illa í stöðu sinni, og eins og hæstv. forsrh. (SE) tók fram, er stjórnin fús til að rannsaka slík mál og víkja hinum ónýtu embættismönnum frá, ef þurfa þykir. (HK: Heyr firn mikil!). Hefir þm. reynt, að svo sje ekki?

þá vildi hv. flm. (HK) reyna að lauma tillögunni í gegn með því að segja, að engar óskir myndu koma fram í þessu efni. En það liggur í augum uppi, að yrði þessi tillaga samþykt, þá myndu flest hjeruð koma með slíkar óskir, og Reykhólahjerað líka. (HK: Hvers vegna nefnir þm. Það sjerstaklega?). Af því að það hjerað hefir lengi verið læknislaust. Enda mundi verða að því róið af einstökum, ef til vill óhlutvöndum mönnum, er sæju sjer einhvern persónulegan hagnað af því.

Jeg veit ekki, hvað hv. flm. (HK) hefir átt við í ræðu sinni, þegar hann var að tala um, að það væri betra fyrir okkur að fara ekki langt út í þetta mál, því að þá myndi hann koma með þetta og þetta. En nú er búið að andmæla því, sem hann sagði. Vænti jeg því, að hann komi með það, sem hann hafði í hótunum og dylgjum um.

Annars held jeg, að hv. flm. gerði rjettast í því að taka tillöguna aftur, eftir að hafa fengið hina skýlausu yfirlýsingu hæstv. stjórnar um, að hún muni alls ekki fara eftir henni, þótt aldrei nema hún yrði samþykt.