16.04.1923
Sameinað þing: 3. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í D-deild Alþingistíðinda. (3376)

132. mál, setning og veiting læknisembætta

Jónas Jónsson:

Jeg tel mjer skylt að segja hjer nokkur orð sem meðflutningsmaður þessarar tillögu. En áður en jeg vík að aðalefninu, vil jeg snúa mjer að því, er þegar er fram komið í umræðunum, og þá fyrst að því, er hæstv. forsrh. (SE) sagði, að hann myndi ekki fara eftir tillögu þessari, þótt hún yrði samþykt. Hv. þm. Str. (MP) greip fluguna á lofti og taldi tilverurjett tillögunnar þar með fallinn. En jeg vil nú benda þeim háu herrum á það, að þótt aldrei nema þessi stjórn telji sig ekki þurfa að fara eftir vilja þingsins, þá er þar með ekki sagt, að næsta stjórn telji sig ekki skylda til þess. Er því engin ástæða til að taka tillöguna aftur, þar sem vel má vera, að næsta stjórn fari eftir henni. Og þar sem líf hverrar stjórnar er háð vilja þingmeirihlutans, getur fyr en varir komið til framkvæmda, að slíkri ósk yrði hlýtt möglunarlaust.

Tilgangur tillögu þessarar er afareinfaldur. Má segja, að farið sje fram á tvent, eitt jákvætt og annað neikvætt atriði. Það, sem fyrst er farið fram á, er, að ef eitthvert læknishjerað óskar sjerstaklega eftir einum af umsækjendum, þá veiti stjórnin honum. Þetta getur kallast hið jákvæða í tillögunni. En eftir bendingu mjög merks manns, sem alls ekki er samþykkur hinu jákvæða í tillögunni, höfum við bætt við síðara atriðinu, því, að ef aðeins er einn umsækjandi um eitthvert hjerað, þá geti hjeraðsbúar neitað honum, ef þeir vilja hann ekki og vilja heldur vera læknislausir eða hafa þjónustu nágrannalæknis. Þetta er hin neikvæða hlið tillögunnar.

Jeg er ekki samdóma hv. þm. Str. (MP), að kjósendur í öllum hjeruðum mundu að jafnaði nota sjer þennan ábendingarrjett. Það er auðvitað ekki unt að sanna þetta fyrirfram, en jeg vil benda á, að hingað til hafa hjeraðsbúar sjaldan látið til sín taka um þessi mál, þó að komið hafi það fyrir. Jeg skal nefna eitt dæmi, og tek það fram, að jeg fer hjer eftir minni, en ekki neinni opinberri skýrslu, að núverandi læknir á Sauðárkróki sótti eitt sinn um hjerað norðanlands, og munu um 3/5 hlutar atkvæðisbærra manna í hjeraðinu hafa sent stjórninni áskorun um, að þeim manni yrði veitt embættið. Stjórnin sinti ekki þessum óskum, en mjer er óhætt að fullyrða, að af þessu spratt megn óánægja meðal hjeraðsbúa, og þetta varð ekki til gæfu þeim lækni, er varð hlutskarpari. Í öðru lagi hefir það komið fyrir á stöku stað, að menn hafa verið óánægðir með þann lækni, er þeir áttu við að búa, og borið sig upp við stjórnina, en hafa þá rekið sig á þann harða klett valdsins, að óskum þeirra hefir ekki verið sint. Þó get jeg fullyrt, að yfirmaður læknastjettarinnar hefir einstöku sinnum litið svo á — jeg greini ekki nánar í tíð hvaða landlæknis — að heppilegra væri að fara eftir óskum hjeraðsbúa í embættaveitingum heldur en öðrum reglum.

Efni till. gerir hjeraðsbúum kleift að koma fram óskum sínum með tvennu móti. Þeir eiga kost á að tryggja sjer víðkunna úrvalslækna, þegar svo ber undir, og hins vegar geta þeir bandað við mönnum, er þeir telja óhæfa í embættið. Venjulega mundu menn ekki láta til sín taka um þessi mál, en ef þeir ættu kost á sjerstaklega landskunnum lækni, mundu þeir nota sjer þennan rjett sinn til að mæla með honum, og eins mundu þeir nota heimild sína til mótmæla, ef neyða ætti þá til að taka við sjerstaklega óálitlegum lækni.

Mál þetta er ekki nýtilkomið hjer á þingi í vetur, þó að það hafi ekki komið fyr til umræðu. Þegar þing kom saman, var laust læknishjerað á Norðurlandi (Austur-Húnavatnssýsla), er sjerstaklega stóð á um. Það er alkunna, að hjeraðsbúar í þessu hjeraði hafa um langan tíma verið mjög óánægðir með þá læknishjálp, er þeir hafa notið hjá fleirum læknum en einum. Hjeraðsbúar höfðu gert ráðstafanir til að losna við lækni sinn, meðal annars höfðu þeir keypt íbúðarhús hans af honum með hærra verði heldur en fengist hefði fyrir það á frjálsum markaði og trygt sjer annan lækni, er þeir fulltreystu. Þessi læknir er ungur maður, en þegar til þess kom, að hjeraðið var auglýst, sóttu aðrir læknar og sumir mun eldri en þessi maður. Það leit því út fyrir, ef fylgt yrði venjulegum veitingarreglum, að hjeraðsbúar yrðu sviftir þessum manni, er þeir hafa svo mikla trú á. í þessu hjeraði, svo sem víðar annarsstaðar, eru menn ekki sammála um ýmsa hluti, stjórnmál, verslunarmál o. s. frv., en þó að Austur-Húnvetningar hafi mismunandi skoðanir í öllum þjóðmálum, er því nær enginn skoðanamunur þar um þetta mál. Menn vildu fá þennan lækni, er þeir treystu og trúðu fyrir lífi sínu og höfðu trygt sjer. Á fyrstu dögum þingsins í vetur var því tilbúin tillaga svipaðs efnis sem þessi, og fylgdu henni sumir flutningsmenn, sem ekki eru flm. þessarar tillögu. Því var hagað svo til, að tillaga þessi var látin bíða, en jeg hygg, að hún hafi haft sín áhrif, ef ekki á hæstv. stjórn, þá á landlækni. Jeg hygg óhætt að fullyrða, að hann hafi þóst hafa betri aðstöðu að leggja það til, að þessum unga manni yrði veitt hjeraðið, því að hann vissi, að helmingur þingmanna eða meira vildu ekki hlíta aldursreglunni, eins og þarna stóð á, og talið var víst, að tillagan mundi verða samþykt þá, hvernig sem nú fer um gengi hennar.

Jeg skal taka það fram til leiðbeiningar þeim hv. þm., er ætla, að hjer sje um dægurflugu að ræða, að þótt tillaga þessi verði feld í dag, þá mun málið varla hverfa af dagskrá. En fyrir mjer er þetta framtíðarmál, og þó að jeg verði í minni hluta í dag, mun jeg sætta mig við það, en mjer þykir ótrúlegt, að sú verði raunin á til lengdar.

Hjer á landi eru í rauninni 3 aðiljar, er standa að veitingu læknishjeraða. Einn er viðurkendur aðili, annar er að ryðja sjer til rúms og hefir þegar fengið allmikla fótfestu, og enn er hinn þriðji, sem er að byrja að láta til sín heyra. Fyrsti aðilinn er stjórnin, eða dómsmálaráðherra, og landlæknir. Hjá þeim er veitingarvaldið lögum samkvæmt. En á síðustu árum hefir bólað á því meir og meir, að læknastjett landsins lætur þetta mál til sín taka, og er brjef formanns Læknafjelagsins, er kaflar hafa verið lesnir úr í dag, ljós vottur þess. Það hefir komið fyrir, að þessi fjelagsskapur hefir staðið á öndverðum meiði við landlækni, hinn sjerfróða ráðunaut stjórnarinnar, og jeg hygg, að jeg fari ekki rangt með, að straumurinn fer í þá átt að draga veitingarvaldið í raun og veru úr höndum landlæknis til Læknafjelagsins. Fjelagið telur málið svo skylt sjer, að talsvert af hinu raunverulega valdi, ef ekki hinu formlega, er komið í hendur þess. Því hefir verið hreyft með læknum í riti, að draga veitingu landlæknisembættisins undir fjelagið, annaðhvort með þeim hætti, að læknar kysu beinlínis yfirmann stjettar sinnar, eða á þann veg, að stjórn Læknafjelagsins og kennararnir í læknadeild háskólans rjeðu veitingu embættisins að miklu leyti. Jeg vil því benda á, að stefna samtíðarinnar virðist vera að draga veitingarvaldið úr höndum þeirra, sem hafa það formlega og lögum samkvæmt, og koma því undir stjettina sjálfa.

Loks kemur þriðji aðilinn, eða þriðja stjettin, eins og í stjórnarbyltingunni frönsku. Þá var spurt: „Hvað er þriðja stjett? Ekkert. Hvað á hún að vera? Alt“. Við flutningsmenn ætlum okkur ekki svo mikið með till. þessari, en það er rjett, að með henni er dálítið stefnt í þá átt, að almenningur hafi einhver áhrif á veitingu læknishjeraða. Jeg er hræddur um, að verði þessi tillaga feld, eða ef lengi situr að völdum stjórn, sem neitar að taka hana til greina, þó að samþykt verði, þá fari kröfur landsmanna að verða svo háværar, að samþykkja yrði lög um kosningu lækna. Það er ekki rjett að segja, að hjer sje verið að fara fram á læknakosningu. Hjer er aðeins vísir til þess, en áframhaldið verður eftir því, hvort læknastjettin er einhuga um að meina almenningi allan íhlutunarrjett um þetta mál. Það er gömul reynsla, að við mótstöðuna eykst aðsóknaraflið. Jeg hygg, að stjórnin mundi halda lengur formlegu og raunverulegu veitingarvaldi, ef þeir, sem læknana eiga að nota, mættu bera fram óskir sínar, þegar sjerstaklega stendur á, og þær væru teknar til greina að einhverju leyti.

Mönnum er skiljanlegt, hvers vegna formaður Læknafjelagsins hefir sent Alþingi þetta mótmælabrjef. Ástæðan er sú, að hjer eru 2 biðlar um sömu heimasætuna. Annars vegar er Læknafjelagið, sem sækist eftir því valdi, sem tillagan vill að nokkru leyti gefa hjeraðsbúum. Frá sjónarmiði Læknafjelagsins er þetta æskilegt, en þrátt fyrir það er ekki ástæða fyrir okkur að hopa fyrir öðru en rjettum rökum. Það er líka afsakanlegt og eðlilegt, að hæstv. forsrh. (SE) skuli taka svo óliðlega undir tillöguna. Því er ekki að neita, að hún gengur í þá átt að skapa sjerstakt vald við hlið stjórnarinnar. Enginn valdhafi vill góðfúslega una því að sleppa valdi, sem honum hefir verið trúað fyrir. Mótmæli þessara aðilja geta því ekki haft áhrif á úrslit málsins. þau eru eðlileg frá mannlegu sjónarmiði, en hafa ekkert sjerstakt gildi.

Jeg skal þá fyrst víkja að þeirri meginreglu, er jeg ætla, að stjórnin byggi veitingar læknishjeraða oftast á og Læknafjelagið mundi að öllum líkindum taka mikið tillit til, ef það ætti að hafa veruleg áhrif á veitingarnar. Það er aldursreglan, eða anciennitetsprincipið. Þar liggur sú hugsun að baki, að starfsmenn þjóðfjelagsins eigi að hækka í tigninni smátt og smátt, eftir embættisaldri. Ungur læknir á að byrja í útkjálkahjeraði, þar sem starfið er erfitt, en aukatekjur rýrar. Síðan, þegar aldurinn færist yfir hann, á hann að fá betra embætti, komast í hjerað, sem er hægara yfirsóknar og tekjumeira, og hækka þannig í stjettinni. Hjer kemur ekkert til greina, nema aldur mannsins, ef ekki eru svo mikil lýti á ráði hans, að víkja þurfi honum úr embætti, sem sjaldan ber við. Í þessum efnum er farið gersamlega öðruvísi að en á öðrum sviðum, í atvinnurekstri fjelaga og einstakra manna. Þetta eru leifar frá öðru tímabili, sem fyrir löngu er liðið hjá í sögunni, einveldistímanum. Þessi stefna hefir verið brotin niður í daglegu lífi og á stjórnmálasviðinu. Hjer á landi lifir hún þó enn þá í veitingum tvennskonar embætta, lögfræðinga- og læknaembætta. Þó er hjer þannig ástatt, að mótstaðan gegn þessu er að verða meiri og meiri, sem jeg mun færa rök að og ljóslega sjest af þeim mikla ugg, sem tillaga þessi hefir skotið í brjóst Læknafjelagsins og fleiri manna.

Jeg skal nú sýna fram á, hvernig aldursstefnan hefir horfið t. d. í verslunarheiminum. Það á sjer ekki lengur stað í nokkru verslunar- eða iðnaðarfyrirtæki, að fyrst og fremst sje farið eftir starfsaldri, þar er eingöngu farið eftir dugnaði. Þar er ekki að því spurt, hve lengi menn hafi verið að læra, hve miklu þeir hafi kostað til náms, eða hve lengi þeir hafi fengist við starfið, heldur að hinu, hvort auðið sje að fá duglegasta manninn. Duglegasti maðurinn er því tekinn, og það er ekki fjarri nútímagróðamönnum að láta hina eldri starfsmenn þá fara, án tillits til aldurs. Straumur þjóðarandans er að færa þessa stefnu inn á embættasviðið, og því er uggur í þeim, er standa að aldursstefnunni.

Jeg vil leyfa mjer að benda á eitt dæmi og skal forðast að nefna nöfn. Fyrir nokkrum árum átti að veita lögfræðingsembætti. Um það sóttu 2 lögfræðingar, báðir nokkuð ungir, höfðu tekið próf um líkt leyti, svo að aldursmunur var lítill. Annar þessara manna var þó mikill drykkjumaður. Hann hafði skömmu áður ferðast mikinn hluta dagleiðar með þeim hætti, að hann fór á bak töskuhesti sínum, en ljet hnakkhestinn lausan. Móti honum sótti einn af gáfuðustu og best mentu lögfræðingum landsins. Svo sem jeg gat um, var aðeins fárra vikna munur á prófaldri þessara manna. Stjórnin leit nú svo á, að henni bæri að fylgja aldursstefnunni, og veitti þeim manni embættið, er var eldri að prófaldri, en stóð hinum að baki í öllu og enginn atvinnurekandi hefði litið við, ef hann hefði átt að velja á milli þessara manna til einhvers starfs.

Ef menn hugsa til svipaðra dæma, er þeir þekkja, hygg jeg, að þeir muni ekki verða hissa, þó að nú sje komið svo langt, að almenningur vilji hafa einhvern íhlutunarrjett um lækna sína. Menn vilja ekki láta tilviljun, nokkurra vikna mun á prófaldri, ráða um skipun embættanna. Að minsta kosti vilja menn hafa rjett til mótmæla, þegar svo ber undir, og að stjórninni haldist ekki uppi að virða þau mótmæli að vettugi.

Þetta er þá aldursstefnan, eins og hún horfir við stjórninni og ráðunautum hennar. Mjer kemur ekki til hugar að segja, að allar veitingar sjeu eins og þessi, er jeg tók sem dæmi. Mjög oft mun stjórnin velja bestu mennina í embættin. En undantekningar hafa komið og koma fyrir, og við þær er tillagan miðuð.

Þá skal jeg aftur snúa mjer að hinum aðiljanum, Læknafjelaginu. Stjórn þess hefir ritað brjef til mótmæla tillögunni, og hlýtur það að vera sprottið af því, að hún búist við, að brjefið geti haft áhrif á atkvæðagreiðslu þingmanna. Því geta þeir þingmenn, sem mótfallnir eru þessari stefnu, ekki annað en fært rök fyrir máli sínu.

Að ein stjett ráði því, hvernig menn hækka í embættum innan hennar — en að því er stefnt, ef Læknafjelagið á að ráða um veitingar læknishjeraða — er að vísu ekki óþekt fyrirbrigði. Það er alþekt stefna í nálega öllum iðnaðarlöndum, og er erlendis nefnd syndikalismi. Sú stefna gengur í þá átt, að hver stjett sje einskonar lýðveldi í þjóðfjelaginu, er ræður málum sínum og kaupgjaldi að nokkru leyti. Þjóðfjelagið yrði á þennan hátt bygt upp af mörgum hópum, sem væru að miklu leyti sjálfstæðir og fullvalda. Jeg geri þó ráð fyrir, að Læknafjelag Íslands skoði sig ekki sem grein af þessum meiði, og að flestum fjelögum þess muni ef til vill vera ókunn sú hagfræði, er liggur til grundvallar fyrir þessu. En þessi stefna hefir gert vart við sig hjer á landi í öðrum greinum. Mönnum er enn í minni, að símamenn tóku sig til í vetur og lýstu vantrausti á yfirmanni sínum. Fjelag símamanna hefir nú að allmiklu leyti náð tökum á veitingarvaldinu innan stjettar sinnar. Símamannafjelagið og Læknafjelagið sækja fram hliðstætt eftir sömu braut.

Það má bæta því við, að brjef formanns Læknafjelagsins endar á setningu, sem varla er unt að skilja öðruvísi en sem hótun um, að Læknafjelagið muni láta hart mæta hörðu, ef þjóðin vill hlutast til um embættaveitingar á annan veg en fjelagið óskar. Þar er hinn sami andi sem í hinu allfræga brjefi, er símamenn sendu landssímastjóra. Þeir, sem vita, hvernig launalögin voru knúin fram á þingi 1919, geta búist við, að hjer kunni að fylgja nokkurt harðræði. En þjóðin verður að vita, hver á að hafa þetta vald. Það þarf að koma í ljós, hvort það er stjórnin eða læknastjettin, sem á að ráða þessu, eða hvort þjóðin sjálf vill taka það vald í sínar hendur.

Jeg hygg, að það stafaði lítill voði af því, þótt fólkið rjeði veitingu einhverra læknisembættanna. Er það kunnugt, að í einum fjelagsskap hjer, kaupfjelagsskapnum, hafa kaupfjelagsstjórarnir verið ráðnir með aðeins 6 mánaða uppsagnarfresti, og hafa þó flestir þeirra setið jafnlengi og þeir vildu. Eru nú um 50 kaupfjelagsstjórar ráðnir svona. Það kemur að vísu fyrir, að þeim er sagt upp, ef þeir reynast óhæfir til starfans. En það mun sjaldan reynast nein áhætta fyrir þá, sem eru meðalmenn eða þar fyrir ofan, að treysta á lund fólksins í þessu efni.

Þannig fara samvinnumenn að. En andstæðingar þeirra, samkeppnismennirnir, fara nákvæmlega eins að, er þeir velja menn til starfs við atvinnufyrirtæki sín. Þeir fara eftir dugnaði og hæfileikum, en ekki eftir aldri.

Vil jeg þá aftur víkja nokkrum orðum að sjálfu meginmálinu.

Till. okkar vill fyrst og fremst bæta nokkuð úr ágöllum aldursstefnunnar, gera fólki mögulegt að koma fram óskum sínum um það, að fá einhvern vissan lækni, sem það hefir trú og álit á, og einnig að losna við lækni, sem þrengja á upp á það. Í báðum þessum tilfellum viljum við lofa fólkinu að láta rödd sína heyrast, til leiðbeiningar stjórnarvöldunum. Er hjer svo hóglega á stað farið, að segja má með fullum sanni, að hjer sje enn verið heilli öld á eftir, ef starfsmannaval þjóðfjelagsins er borið saman við mannaráðningu fjelaga og einstakra atvinnurekenda. En þó finst mörgum þetta stór bylting.

Þjóðin getur gripið til tveggja úrræða, ef Læknafjelagið heldur í verki við hótun sína. Fyrst að koma á kosningu lækna og í öðru lagi að láta valið ekki í hvert sinn ná nema til nokkurra ákveðinna ára.

Þjóðin er alment seinþreytt til vandræða, en svo kann að fara, að hótun komi gegn hótun, einkum ef valdhafar þessa máls taka illa í það.

Þá vil jeg víkja að hv. þm. Str. (MP). Jeg held, að það sje ekki hægt að gera mikið úr því, að læknar úr erfiðum útkjálkahjeruðum sjeu undir núverandi skipulagi látnir njóta mikils þjettis, þegar þeir eru hnignir að aldri. Í Fljótsdalshjeraði er til læknir miðaldra, með bæklaðan fót af meiðsli, sem hann fjekk í embættisferð einni. Auk þess er þetta svo erfitt hjerað, að læknirinn þarf oft að fara á skíðum 8–10 klst. ferð. Sanngjarnt hefði því verið að láta þennan mann hafa eitthvert ljettara hjerað, en þó hefir það ekki enn verið gert.

Þá gat hann um það, og sama er tekið fram í brjefi Læknafjelagsins, að hlutdrægni kynni að ráða, ef fólkið ætti að kjósa læknana. En ekki er heldur trygt nú, að hún ráði ekki. Munu flestir mjer sammála um það, að mikið hafi að segja hjá veitingarvaldinu pólitiskar skoðanir, frændsemi o. fl.

Jeg veit, að hlutdrægni getur komið fyrir, ef fólkið á að ráða. Eitt tilfelli er kunnugt, þar sem barist var á móti lækni alveg óverðskuldað. En mistök fólksins mundu tæpast verða svo tíð sem þau nú eru hjá veitingarvaldinu, og bæta mundi það fyrir, að veitingarvaldið hefði ráðgefandi vald við að styðjast.

Hv. þm. (MP) taldi samþykt þáltill. gagnslausa, þar sem stjórnin hefði lýst því yfir, að hún mundi ekki taka hana til greina. En það er svo um allar fundarályktanir, að það er engin lagaskylda að taka þær til greina, en sjeu þær gerðar árlega og öfluglega framfluttar, þorir engin stjórn að ganga á móti þeim til lengdar. Þetta er því engin ástæða gegn þáltill.

Þá mintist hann á, hve ómögulegt það væri að kjósa lækna, og reyndi að gera það hlægilegt. Hjer er nú fyrst að athuga, að um enga kosning er að ræða. En minna vil jeg á það, að „praktiserandi“ læknar treysta á dóm fólksins. Reynist hann svo rjettur, að jeg held, að fullkomnari dómstóll í því efni gefist ekki.

Jeg vil benda á það, að Guðm. Hannesson, höfundur brjefsins frá Læknafjelaginu, er best dæmi sjálfur til að hrekja prjedikun hans í brjefi Læknafjelagsins. Hann kom ungur til Akureyrar og varð fljótt frægur um land alt fyrir lækningar sínar. Á hverju bygðist sú frægð? Á því, hversu snjall hann var í þessari grein. Forðum daga voru það lækningar Krists, sem sköpuðu honum mesta samtímavíðfrægð og vinsældir. Fólkið skildi þær betur en hinar djúpsæu, ódauðlegu siðgæðiskenningar hans. Maðurinn, sem hann læknaði og sagði til: „Statt upp, tak klæði þín og gakk“, bar nafn hans út og þakkaði heilsugjöfina. Það er alger meinloka, að almenningur geti ekki dæmt um, hvort læknarnir eru góðir eða ekki. „Fer orð og flýgur“, segir gamalt máltæki, og það á við hjer. Læknarnir eiga að gæta lífsins; því er þeim meiri gaumur gefinn en jafnvel nokkrum öðrum.

Það eru fleiri en Lúðvík 14., sem ekki vildi horfa á kirkjugarðinn vegna þess, að hann minti á dauðann. Fólkið elskar í lífið meira en nokkuð annað og góða lækna meira en aðra kunnáttumenn, af því að þeim er trúað til að gæta þessarar dýru eignar.

Þá er því haldið fram sem ástæðu gegn þáltill., að litlu hjeruðin verði læknislaus, ef þessi siður er upp tekinn. Þau eru það nú. Það eina, sem getur hjálpað því, að þessi hjeruð hafi lækna, er það að launa þeim betur. Margir lækna okkar eru erlendis; þá getum við fengið, aðeins ef við borgum þeim vel.

Hv. þm. Str. (MP) er, eins og Guðm. í Hannesson, líka sönnun gegn því, sem hann nú heldur fram. Hann er sjálfur nýorðinn bæjarlæknir í Reykjavík, en var þó áður læknir í útkjálkahjeraði, Strandasýslu. En hann komst hingað með eðlilegum hætti, sökum þess, að hann var álitinn góður læknir.

Þá kom hann fram með þau mótmæli, að fólkið vildi einungis yngstu læknana. Hvers vegna vill fólkið þá? Er það vitleysa? Nei, fólkið álítur þá fulla af yngstu og nýjustu þekkingum og duglegasta til ferðalaga. En hvernig á þá að fara með þá gömlu? Þeir verða að hafa ofan af fyrir sjer sem þeir best geta. Sjeu þeir hæfileikamenn og árvakir í starfi sínu, munu þeir trauðlega hafa mikið að óttast. Tökum sem dæmi hjeraðslækninn í Skagafjarðarsýslu. Hann er orðinn miðaldra maður, en hann er altaf að sigla, stundum til fjarlægra landa, til að fylgjast með framförum læknavísindanna, og hann er elskaður og virtur af öllum hjeraðsbúum.

Hver mundi bíða hallann af því, að tekið væri aðeins tillit til dugnaðarins og hæfileikanna, og hver á að bíða þennan halla?

Ónytjungarnir, vandræðamennirnir, mundu bíða halla, en þjóðin græða, og jeg held, að engum geti blandast hugur um, að þetta sje það eðlilegasta og rjettlátasta.

Þá mintist hann á hina pólitisku hlið þessa máls. Læknarnir mundu ekki vilja eiga þátt í kosningabaráttu hver gegn öðrum, og að þeir ófyrirleitnu mundu vinna mest á. Það sitja nú nokkrir læknar hjer á þingi, sem orðið hafa að ganga í gegnum hinn pólitiska eld, þar á meðal hv. þm. Str. (MP). Hafa þeir sannað með þessu, að þeir þora vel að ganga í gegnum þess kyns eldraunir. Sýnist ekki erfiðara fyrir þá að halda hlut sínum í læknakosningum en þingkosningum.

En einkennilegt er að heyra það bæði frá hv. þm. (MP) og Guðm. Hannessyni, að þeir skuli halda því fram, að þeir ófyrirleitnu vinni æ kosningar. Er þetta nokkuð beiskt fyrir okkur alþingismennina, sem hjer sitjum fyrir náð meiri hlutans, og virðist kenning hv. þm. styðja skoðun Helga Pjeturss um hið „helvíska úrval“.

Nú sækja iðulega 8–10 læknar um sama læknishjeraðið; ber ekki á öðru en að þeir hafi fullan hug til þess að reyna að rífa brauðið hver frá munninum á öðrum. Hví skyldu þeir þá ekki geta barist bæði til fjár og landa, þótt um kosningu væri að ræða?

Þáltill. þessi er góð og sjálfsagt af læknum að styðja hana. Mun hún ein, ef fram gengur, geta aftrað því, að gripið verði fastara í strenginn, og ættu því allir að styðja hana, sem óska friðvænlegrar framþróunar í þessum efnum.