16.04.1923
Sameinað þing: 3. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í D-deild Alþingistíðinda. (3378)

132. mál, setning og veiting læknisembætta

Flm. (Hákon Kristófersson*):

Jeg skal vera stuttorður, en hv. þm. Str. (MP) og hæstv. forsrh. (SE) gáfu mjer tilefni til andsvara.

Hæstv. forsrh. (SE) sagði, að því er mjer skildist, að jeg hefði ámælt próf. Guðm. Hannessyni í ræðu minni. Það mun nú ekki hafa verið að marki, og síst meira en hann ámælir okkur flm. Í brjefi sínu. Er með þessu líka svarað órökstuddum sleggjudómum hv. þm. Str. (MP).

Hv. þm. Str. (MP) sagði, að hjer væri um alvarlegt mál að ræða, sem þyrfti að mótmæla. Jeg ásaka það ekki, þótt menn mótmæli þessu, en aðdróttunum og órökstuddum svigurmælum mótmæli jeg harðlega.

Hann sagði, að hjer mundi eitthvað annað liggja á bak við en upp væri látið. Er ekki ótítt, að þessi hv. þm. (MP) komi með svona dylgjur að órannsökuðu máli og telji, að alt annað vaki fyrir mönnum en þeir sjálfir hafa lýst yfir.

Hann spurði, hvaða þýðingu till. hefði, þar sem stjórnin ætti ekki að fara eftir henni. Jeg hefi aldrei sagt, að hún ætti ekki að gera það, en hitt sagði jeg, að oft mundu engar óskir koma fram um þetta, en þótt þær kæmu, þá gæti stjórnin auðvitað lagst á móti þeim, en þá yrði hún að bera fulla ábyrgð á því.

Þá sagði hv. þm. Str. (MP), að móti þessari till. minni hefði jeg best talað sjálfur, og getur það vel verið, að jeg hafi ekki hagað orðum mínum sem best, enda er jeg eigi eins snjall ræðumaður og hv. þm. Str. (MP). En ef svo var, hví fór þá hv. þm. Str. að mæla á móti tillögunni? Hví ljet hann eigi þar við sitja, ef jeg hafði þegar spilt mínum málstað? Eða sjer hann ekki, að hann með þessu slær sig á munninn, og fær þannig geig af sínum eigin vopnum?

Þá gat sami hv. þm. (MP) um það, að við hefðum heldur átt að koma fram með frv. um að breyta lögunum í þessa átt. Um þetta erum við flm. till. alveg sjálfráðir, en þar sem nú er liðið á síðari hluta þingtímans, þá stend jeg fast á þessu, enda ekki við búinn að svara því, hvort jeg hefði verið slíku frv. fylgjandi að svo stöddu, og er jeg heldur ekki viss um, að það hefði fengið framgang að þessu sinni.

Hv. þm. Str. (MP) taldi almenning ekki dómhæfan um lækna, og læknakjörið væri ekki sambærilegt við kosningu presta, sem þó gætu áður látið sóknarmenn til sín heyra, og þannig gefið þeim tækifæri til að mynda sjer skoðun um þá. Mjer er spurn, láta nú ekki læknar til sín heyra og afla þeir sjer eigi álits með verkum sínum? það er alment viðurkent, að einmitt fyrir frábæran dugnað sem læknir er það orðið, að hv. þm. Str. sjálfur er orðinn bæjarlæknir í Reykjavík. Því slæ jeg því föstu, að einmitt þessi sami heiðursmaður hafi látið til sín heyra með verkum sínum og að það hafi verið það, sem gerði það að verkum, að hann var tekinn fram yfir aðra í þessa stöðu. Jeg geri heldur ekki ráð fyrir, að þetta verði til þess að hlaða undir þá, sem ófyrirleitnir eru, eins og hv. þm. Str. (MP) segir, og má því till. vel ganga fram þess vegna. Jeg hefi miklu fremur búist við því gagnstæða.

Hann sagði, að það væri verið að leika kopleik með því að bera þessa till. fram, og furðaði sig á því, að þm. Barð. skyldi verða til þess, þar sem í mínu kjördæmi væru 1–2 hjeruð læknislaus.

Þessum orðum hv. þm. Str. (MP) vil jeg svara með því, að jeg geri einmitt ekki ráð fyrir því, að það verði verra fyrir þessi hjeruð að fá sjer lækni, ef till. verður samþykt. Hitt atriðið, að menn vilji síður fara í litlu hjeruðin, þar sem undir högg sje að sækja til kjósenda, er heldur ekki rjett, þar sem þetta er engin kosning, heldur aðeins ábending, sem stjórnin því aðeins tekur til greina, ef rök eru fyrir henni, að áliti stjórnarinnar. Og því mótmæli jeg, að þetta verði til að ala upp ófyrirleitni umsækjenda. Það eru alls ekki sömu eiginleikarnir, það að vera duglegur að ýta sjer áfram og koma ár sinni vel fyrir borð, og ófyrirleitni. Hv. þm. Str. (MP) er að minni hyggju og margra annara duglegur að ýta sjer áfram, en hitt dettur engum í hug að segja um hann, að hann sje ófyrirleitinn. Þykja mjer því allkynleg þessi ummæli hv. þm. Str.

Þá kem jeg að því, að með þessu fyrirkomulagi geti minni hluti við lækniskosningu orðið beittur rangindum. Þá vil jeg segja, að hitt er enn þá verra, að einn eða tveir menn beiti alla hjeraðsbúa rangindum; t. d. ef óreglumanni er veitt hjerað og menn þar vilja alls j ekki taka við honum, ef þeir væru sjálfráðir. En eftir áliti hv. þm. Str. (MP) er það óheyrilegt, að hjeraðsbúar láti uppi álit sitt í þessum málum.

Þá mótmæli jeg því sem algerlega ósönnum áburði, að jeg hafi farið með dylgjur í garð Guðm. Hannessonar prófessors. Hv. þm. munu geta um þetta borið með mjer, að þetta eru rangindi og útúrsnúningur hjá hv. þm. Str.

Enn fremur sagði sami hv. þm., að jeg blandaði því saman, að reka embættismenn úr embættum og að hægt væri að losna við óhæfa lækna. Þetta eru og útúrsnúningar, sem jeg hefi ekki sagt, þótt jeg dræpi á þetta atriði. Þetta, að hjeraðsbúar geti rekið af höndum sjer óhæfa lækna, er að svara út í hött. Það má einlægt slá slíku fram; allir munu geta sjeð, hversu auðvelt það er nú, og enda seint að byrgja brunninn, þegar barnið er dottið ofan í hann.

Viðvíkjandi þeim ummælum hv. þm. Str. (MP), að jeg og meðflm. minn (JJ) værum að lauma þessari till. í gegnum þingið, verð jeg að segja það, að mig stórfurðar á því, að jafnæfður þingmaður og hv. þm. Str. (MP) er skuli leyfa sjer að koma fram með jafnóþingleg ummæli. Jeg er ekki svo grunnhygginn, þótt jeg sje eigi jafnvitur maður og hv. þm. Str. er, að jeg skilji eigi, hversu óþinglegar þessar aðdróttanir eru, eða að jeg haldi, að hægt mundi vera að hegða sjer þannig gagnvart hv. þm., að lauma einhverju máli í gegn.

Enn sagði hv. þm. Str. (MP), að best mundi vera fyrir mig að framkvæma þær hótanir, sem jeg hafi haft í frammi. Jeg viðurkenni alls ekki að hafa komið fram með hótanir, og hann hefði því ekki þurft að segja þetta, og tel jeg það ómaklega mælt. En hitt var rjett, sem hann gat til, þótt hann þyrði eigi að nefna Reykhólahjerað í því sambandi, að það er í ráði að setja þar mann, sem við ekki viljum hafa, og úr því hv. þm. Str. biður um það, skal jeg verða við þessari ósk hans. Jeg efast um, að jafnvel hann sjálfur telji þá ráðstöfun heilbrigðisstjórnarinnar forsvaranlega, ef hún nær að ganga fram, og hjer vil jeg láta taka fastara á móti til að forðast það, að þar verði settur maður, sem við ekki erum bættari með. Þó að menn með þessu verði að mæla á móti mönnum, sem máske þurfi þessarar atvinnu með, er það þó gert vegna þess, að það er knýjandi nauðsyn.

Hv. meðflytjandi minn (JJ) í þessu máli hefir þegar talað um það á breiðari grundvelli en jeg hefi gert, og þarf jeg því ekki að reifa málið frekara. Læt jeg svo hv. þm. Str. sjálfráðan um það, hvað hann segir hjer eftir, og má hann vel, ef hann telur sjer það betur sæmandi, koma með fleiri aðdróttanir til mín þess vegna.

*) þm. (HK) hefir ekki yfirlesið ræðuna.