14.04.1923
Neðri deild: 42. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í D-deild Alþingistíðinda. (3398)

32. mál, landsspítali

Fyrirspyrjandi (Jón Baldvinsson):

Hæstv. forsrh. (SE) hefir nú viðurkent, að ekki muni vera hægt að reisa landsspítalann án þess að taka lán. Hann kveðst mjer samþykkur í því, að það sje eina leiðin. (Forsrh. SE: Jeg tek það fram, að jeg veit ekki, hvort einu sinni er hægt að fá það lán nú). Að hæstv. stjórn hefir ekki reynt þá leið, getur því ekki skilist á annan veg en þann, að hún vilji ekki fara inn á þá leið. Úr því búið er að eyða því fje, sem upphaflega var af þinginu 1919 ætlað til þessa fyrirtækis, þá ætti að afla nýs fjár nú. Að mínu áliti þolir þetta mál ekki lengri bið.

Hæstv. forsrh. (SE) kvaðst ekki vilja gefa önnur loforð en þau, sem hann treysti sjer til að efna. Það er líka rjett gert af honum. En jeg verð þá að lýsa því yfir, að jeg geri mjer minni vonir um framkvæmd þessa máls nú, eftir að jeg hefi heyrt undirtektir hæstv. forsætisráðherra, en áður. Jeg get ekki litið svo á, að hann kæri sig neitt sjerstaklega um framkvæmd þessa máls, úr því hann vill ekki nota þessa lánsheimild, sem stjórninni hefir verið veitt.