09.05.1923
Neðri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í D-deild Alþingistíðinda. (3425)

62. mál, steinolíueinkasalan

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Þessi fyrirspurn, sem hjer er komin fram, er í 3 liðum: Hvers vegna ríkisstjórnin hafi yfir höfuð tekið einkasölu á steinolíu í sínar hendur, hvernig kaupsamningum hennar sje háttað og svo hvernig hún hafi hugsað sjer að haga flutningnum á olíunni til landsins.

Vegna afstöðu minnar til málsins verð jeg með nokkrum orðum að skýra frá í aðdraganda málsins, áður en jeg svara þessum spurningum.

Þar er þá fyrst frá að segja, að árin 1911–12 var skipuð milliþinganefnd til þess að athuga fjármál landsins, og hafði jeg þann heiður að vera formaður þeirrar nefndar. Eitt af því, sem nefndin tók til yfirvegunar, var, hvort ekki í myndi ráðlegt, til að afla ríkissjóðnum tekna, að landið tæki einkasölu á ýmsum vörutegundum, einkanlega á steinolíu, kolum og tóbaki. Að því er steinolíuna snertir, sneri nefndin sjer til nokkurra firma í Ameríku, með fyrirspurn um það, hvort þau væru fús á að taka að sjer einkasölu á steinolíu. Kom aldrei neitt svar frá 2 af þessum firmum, en 2 sendu svör, en svo ófullkomin, að ekkert varð á þeim bygt. Nefndin sneri sjer líka til D. D. P. A., sem þá hafði í rauninni einkasölu hjer á landi á olíu, en samningar gátu ekki tekist við það fjelag. Það leit því ekki út fyrir, að árennilegt væri að halda áfram á þessari braut, en þó samdi milliþinganefndin frv. til laga um heimild fyrir ráðherra til að gera samning við eitthvert öflugt erlent firma um einkasölu á steinolíu um tiltekið árabil, alt að 20 árum. Var frv. Þetta svo lagt fyrir þingið 1912, en var felt með rökstuddri dagskrá. En jafnharðan á því sama þingi kom þá fram frv. frá þrem þm. í Nd., þeim Jóni heitnum Ólafssyni, Eggert Pálssyni og Bjarna Jónssyni frá Vogi, þess efnis, að stjórninni skyldi heimilað að kaupa af erlendum firmum eins mikla steinolíu og nægja þætti, og selja svo kaupmönnum hjer og kaupfjelögum. Við þetta frv. kom Björn Kristjánsson fram með þá einkennilegu brtt., að Landsbankanum væri veitt einkasöluheimild á þessari vörutegund, en sú tillaga náði þó ekki fram að ganga, en frv. varð að lögum. En það var ekki einasta, að samþykt væri heimild í þessa átt, heldur kom einnig fram till. til þál. í báðum deildum, um það að skora á stjórnina að undirbúa og leggja fyrir næsta Alþingi frv. til laga um einkasölu, helst landseinkasölu, á steinolíu, og voru þær samþyktar í einu hljóði. Hver var nú ástæðan til þessa ákafa í þinginu að ná allri verslun með steinolíu undir landið? Jú, hún var sú, að steinolíufjelagið danska var þá búið að ná steinolíuversluninni undir sig og þótti ilt viðureignar. Ljet það t. d. viðskiftamenn sína skuldbinda sig til að versla við það eingöngu fyrir lengri tíma, og þá alveg nýlega hafði það hækkað steinolíutunnuna um 5 kr., sem þá þóttu miklir peningar, og mæltist það afarilla fyrir. Jeg skal ekki fara lengra út í að rekja þá sögu, að minsta kosti ekki að svo stöddu, en víst er um það, að allir á því þingi vora sammála um það, að betra væri, að ríkið tæki einkasölu á olíunni en að svo búið stæði lengur, og það jafnvel þingmenn, sem í „principinu“ vora á móti einkasölu. Það fór um mig eins og oft vill verða, að hverjum þykir sinn fugl fagur. Þótti mjer samþykta frv. miklu lakara en frv. nefndarinnar. Eins var um Hannes Hafstein, sem þá var ráðherra í seinna sinnið og hafði átt sæti í milliþinganefndinni. Hann lagðist á móti því, en það var þó samþykt engu að síður. Var því ekki að furða, þótt hann ljeti sjer ekkert óðslega að koma þessum lögum fram. Hann reyndi þó fyrir sjer að ná samböndum gegnum Danmörku, en tókst ekki. Fiskifjelag Íslands var þá nýstofnað, og eðlilega kraftlítið; það bauðst til að taka að sjer einkasöluna. Kvaðst það hafa náð sambandi við ágætt firma Ameríku. En stjórnin treysti því ekki til að taka þetta að sjer. Hannes Hafstein gaf svo skýrslu um aðgerðir sínar í málinu á þinginu 1913, og býst jeg við, að hv. þdm. hafi sjeð þá skýrslu. Var það í það eftirminnilega sinn, sem andstæðingar hans viku allir af fundi meðan hann gaf skýrsluna. Svo kom stríðið, og lá svo málið í þagnargildi næstu árin. En á þinginu 1916–17 komu Benedikt Sveinsson og Jörundur Brynjólfsson fram með frv. til laga um heimild handa landsstjórninni til innflutnings á allri steinolíu til landsins. Var það borið fram í því augnamiði að tryggja landinu næga steinolíu á þeim erfiðu tímum, er þá stóðu yfir. Var frv. vísað til fjárhagsnefndar, og kom hún fram með till. um að skora á stjórnina að rannsaka málið og leggja það svo fyrir næsta þing. Mun þetta einkum hafa stafað af því, að frv. kom svo seint fram á þinginu, að ekki hefði unnist tími til að afgreiða málið að fullu. Var þessi áskorun fjárhagsnefndar samþykt einróma af þinginu.

Á þinginu 1917 lagði svo stjórnin frv. fram, samkvæmt „ítrekuðum óskum“ Alþingis, eins og stóð í greinargerðinni. Björn Kristjánsson, sem þá var ráðherra, bar frv. fram og tók það þá skýrt fram, að landið ætti að reka þessa verslun aðeins í stórsölu og ekki ætti að byrja fyr en nægileg trygging væri fyrir, að birgðir fengjust. Hann lagði ríka áherslu á það, að stjórnin stæði í beinu sambandi við olíuframleiðendur, milliliðalaust. Loks tók hann það fram, að þessi lög ættu að standa lengi. Frsm. var 1. þm. Skagf. (MG). Tók hann í sama strenginn, kvað einokun vera fyrir hvort sem er, og lagði sjerstaklega áherslu á, að ekki væri einasta, að olían yrði ódýrari með þessu móti, heldur gæfi þetta ríkissjóðnum talsverðar tekjur. Sagði hann jafnframt á þá leið, að það væri á valdi stjórnarinnar, hve nær hún færði sjer þessa heimild í nyt; best myndi þó, að hún gerði það sem fyrst. Voru flestir eða allir þm. þá á sama máli um þetta. Tilgangurinn með lögunum var því þrenskonar: Að tryggja landinu jafnan nægar birgðir af steinolíu, að fá olíuna ódýrari milliliðalaust, og loks að auka með þessu tekjur ríkissjóðsins að nokkru leyti.

Þegar nú allur þessi gangur málsins er athugaður, og þess sjerstaklega gætt, að jeg er frumhöfundur, eða einn þeirra, að einkasölulögum um steinolíu, þá finst mjer mönnum hljóti að vera það sæmilega ljóst, að jeg hafi frá mínu sjónarmiði haft góðar og gildar ástæður til að byrja á framkvæmd laganna, og að mönnum muni skiljast, að mjer hafi ekki verið það mjög óljúft að taka í mínar hendur framkvæmd jafnmikilsverðs máls og með allan þorra þings og þjóðar á bak við mig, er lögin vorn samin.

Líklega hefði þessari einkasölu þegar verið komið á árið 1920, ef ekki hefði þá staðið svo á, að um þær mundir var aldraður maður atvinnumálaráðherra, í sem var farinn að bila að heilsu, og mun hann ekki hafa treyst sjer til þess að standa í þeim stórræðum, sem óneitanlega fylgja framkvæmd laganna.

Hv. 1. þm. Reykv. (JakM) vildi eigi halda því fram, sem ýmsir þó hafa gert, annaðhvort af flónsku eða þá gegn betri vitund, að hjer hefði aðeins verið um ófriðarráðstöfun að ræða. Það er síður en að svo sje; í umræðunum á þingi í 1917 er hvergi minst á það einu einasta orði, heldur er þar margtekið fram, að landið skuli nú þegar taka að sjer verslunina og halda henni lengi.

En hv. þm. (JakM) heldur því hins í vegar fram, að tímarnir sjeu nú svo breyttir, að ástæðan til laganna sje horfin. Þetta get jeg alls ekki fallist á. Jeg er þvert á móti fullviss um það, að ef landsverslunin hætti nú að reka þessa verslun, þá yrði bráðlega að breyta til aftur, sökum einokunar einstakra manna á vörunni. Auðvitað má segja í það, að ekki þurfi samt að vera um einokun að ræða og að landsverslunin eigi að geta kept við steinolíufjelagið um verslunina. En hvað verður þá um tekjurnar í ríkissjóðinn? Og það var þá ein aðalástæðan til laganna.

Háttv. fyrirspyrjandi (JakM) vildi í halda því fram, að yfirlýstur vilji þingsins í fyrra væri á móti einkasölunni. Sú yfirlýsing hefir þá að minsta kosti flogið framhjá eyrum mínum. Jeg neita því alveg, að þingið hafi látið nokkum slíkan vilja í ljós; þvert á móti má segja, að það gagnstæða hafi komið fram, sje um j nokkurn vilja þá að ræða.

Þá gat hv. fyrirspyrjandi (JakM) um það, að jeg hefði lýst yfir því í fyrra, í að jeg myndi ekki taka upp einokun á neinum vörum nema þær yrðu einokaðar af öðrum, og hefði jeg því gengið þar á bak orða minna. En hv. þm. (JakM) verður að gæta þess, að þá verslaði landið bæði með tóbak og steinolíu, sem yfirlýst var af öllu þinginu, að það vildi að haldið yrði áfram verslun með, og átti jeg því ekki við þær vörutegundir, nje gat átt, heldur aðallega korn og kol, sem fram var kominn yfirlýstur vilji þingsins um, að ekki ætti að láta landið versla áfram með. Má best sjá þetta af till. viðskiftamálanefndarinnar á þinginu í fyrra. Það er og alkunnugt, að landsverslunin óskaði á síðasta sumri eftir leyfi til að fá að flytja inn kolafarm, en jeg neitaði, af því að jeg vissi um vilja þingsins í því efni. Yfirlýsing mín á því ekki við og gat ekki átt við tóbak og steinolíu. Jeg neita því algerlega, að hafa gengið á bak orða minna; þvert á móti. Jeg hefi haldið þau alveg.

Annars verð jeg að halda því fram, að í till. bæði meiri hluta og minni hluta samvinnunefndar viðskiftamálanna í fyrra felist ótvíræð bending til stjórnarinnar um að taka einmitt upp einkasöluásteinolíu, og að það sje einmitt til yfirlýstur vilji þingsins í þá átt, en ekki hið gagnstæða. Skal jeg þessu til stuðnings lesa upp nokkur orð úr báðum till. í till. minni hluta nefndarinnar stendur þetta fyrst:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að beina starfsemi landsverslunarinnar aðallega í þá átt:“ —, og svo undir c-lið:

„Að halda áfram sölu á tóbaki og steinolíu, og sje reikningsskilum fyrir einkasöluvörum haldið út af fyrir sig“

Og í niðurlagi greinargerðarinnar (þskj. 270) stendur:

„Einkasölu ríkisins á tóbaki og steinolíu, ef til kemur“ o. s. frv. Hjer er beinlínis gert ráð fyrir, að stjórnin taki að sjer einkasölu á steinolíu, og því er hvergi mótmælt, heldur segir í till. meiri hluta nefndarinnar, í greinargerðinni (þskj. 269), að landsverslunin fari með sölu á tóbaki og steinolíu, eftir því sem þörf gerist og ríkisstjórnin telur æskilegt.

Meiri hluti viðskiftamálanefndar leggur það með öðrum orðum alveg í vald stjórnarinnar, hvort og hve nær hún vill taka upp einkasölu á steinolíu. Með þessum tilvitnunum hefi jeg alveg hrakið það, að yfirlýsing mín í fyrra hafi verið, eða einu sinni getað verið, bundin við steinolíu, og að jeg því hafi breytt gegn henni í nokkru.

Að svo stöddu mun jeg láta 1. lið fyrirspurnarinnar svarað með þessum orðum.

Þá spyr hv. fyrirspyrjandi (JakM) um það, hvernig samningum þeim sje háttað, er stjórnin hafi gert um steinolíukaup til landsins. Jeg get þar gefið hv. þm. þær upplýsingar, að stjórnin hefir gert samning við fjelag nokkurt í London, sem heitir British Petroleums Company, og skuldbundið sig fyrir ákveðinn tíma að kaupa alla sína steinolíu af því. Er tiltekið í samningunum um kaupverðið, flutningskostnað o. fl. En jeg efast um, að heppilegt sje, að jeg skýri hjer ítarlega frá þessum samningi, af þeim ástæðum, að eftir þau 3 ár, sem hann gildir fyrir, verður að sjálfsögðu leitað nýrra tilboða um sölu á steinolíu, og gæti þá verið verra, að menn hefðu hann til samanburðar. Mun jeg því láta þennan samning af hendi við skrifstofustjóra Alþingis, og eiga hv. þm. kost á að sjá hann þar. Fjelagið á að setja tryggingu fyrir uppfyllingu samningsins. Gat þar verið um tvennskonar tryggingu að ræða. Að ákveðin fjárupphæð yrði sett föst til tryggingar annaðhvort í erlendum eða innlendum banka. Jeg kaus heldur, að það yrði sett í banka hjer á landi, og lofaði fjelagið að setja hjer í Landsbankann 5 þúsund sterlingspund, eða þá ella tryggingu frá enskum banka fyrir 20 þús. pundum. Óskaði það heldur eftir, að tryggingin yrði á þann hátt, því þótt það hafi mikið fje til umráða, þá er það ekkert fíkið í að hafa hjer 5 þúsund pund aðgerðalaus. Jeg kaus samt heldur, að tryggingunni yrði svona hagað, en hefi þó loforð um það, að hin tryggingaraðferðin skuli tekin upp, ef þingið kysi það heldur. Eins og jeg gat um áðan, þá gildir þessi samningur fyrir 3 ár, og skal honum sagt upp með eins árs fyrirvara.

Að því er snertir flutninginn á steinolíunni, þá skal jeg geta þess, að landsverslunin hafði áður verslað með steinolíu, og var hún þá flutt hingað frá Leith eða Sunderland. En síðan samningur var gerður, þótti haganlegra að fá hana beina leið frá London, og verður flutningsgjaldið minna á þann hátt. Verður það sem næst 7–8 krónur á tunnu, miðað við, hve langan tíma ferðin tæki, og með það fyrir augum, að skipið hefði jafnan sæmilegt flutningsgjald. Vegna þess hefir landsverslunin því sjeð sjer fært að láta flytja steinolíuna á ýmsar hafnir út um land fyrir sama verð og hingað. Auðvitað er það nokkurt spursmál, hvort ekki væri hagkvæmara að taka olíuna frá Ameríku. En sú hefir orðið raunin á, að flutningurinn með stórum „tank“skipum, alt að 8–10 þús. tonna, að viðbættu farmgjaldi frá Englandi hingað, verður ekki hærri en flutningur í tunnuskipunum beint frá Ameríku. En þau skip, sem við höfum, eru of lítil til þeirra ferðalaga, að minsta kosti um nokkurn tíma ársins, og er því óvíst, að þetta myndi reynast nokkuð heppilegra.

Jeg skal að endingu taka það fram, að árið 1921 gerði landsverslunin ítarlegar tilraunir til að fá tilboð frá ýmsum steinolíufjelögum í Ameríku, en árangurslaust. Að lokum komst hún þó í samband við þetta ágæta fjelag, og býst jeg ekki við öðru en það reynist vel.

Að endingu vil jeg geta þess, að ef þetta svar mitt, einkum um flutning olíunnar, þykir ekki nægilega ítarlegt, þá mun hv. þm. Ak. (MK), sem er nákunnugt um málið, gefa nánari upplýsingar.

Sje jeg svo ekki að svo stöddu ástæðu til að fara lengra inn á málið, en er reiðubúinn að bæta við síðar, ef mjer hefir láðst að geta um eitthvað málinu viðvíkjandi, sem þýðingu hefir.