09.05.1923
Neðri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í D-deild Alþingistíðinda. (3434)

62. mál, steinolíueinkasalan

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg get verið stuttorður að þessu sinni. Hæstv. atvrh. (KIJ) hefir misheyrt, ef hann heldur, að jeg hafi haldið því fram, að steinolían væri óhæfilega dýr; það sagði jeg ekki, en jeg sagði, að álagningin væri of mikil, og við það stend jeg. Jeg fæ ekki sjeð, að ástæða sje til, að ríkið leggi háan skatt á þær vörur, sem nauðsynlegastar eru sjávarútveginum, og enn síður tel jeg það viðeigandi, ef það á að verða, eins og hæstv. atvrh. (KIJ) heldur fram, aðallega tekjugrein fyrir ríkissjóð. Hann segir „ef samningarnir reynist vel“. Jeg býst við, að þeir reynist eins og til þeirra hefir verið stofnað, nema það sje þetta, að það megi ná enn meiri tekjum af þessu í ríkissjóð. Lögin heimila nú aðeins 4 kr. af tunnu.

Það hefir mjer vitanlega engum dottið í hug, að ekki væri hægt að fá olíu til landsins í frjálsri verslun. Stjórnin hlaut og að vita það, sem allir vissu, að kaupmenn gátu pantað olíu, og jeg veit t. d., að hráolíu hefir verið hægt að fá langtum ódýrari en hjá landsversluninni, ríkiseinkasölunni. (MK: Hve nær og hvaðan?). Jeg get sýnt hv. þm. Ak. (MK) skilríki fyrir því síðar, ef hann vill. Það, að jeg vilji helst hafa steinolíufjelagið hjer fyrir millilið, nær ekki neinni átt, og jeg hefi heldur aldrei leitast við að afla því fjelagi hlunninda. Hitt er annað mál, að þegar gera skal samninga, er það eðlilegast, að víða sje leitað tilboða, ef svo á að semja við þá, sem lægst verð bjóða á sömu vörutegund. Þetta fjelag var nú hjer og hafði verslað hjer, og því hefði það vel mátt koma til greina og átt að eiga kost á að koma með tilboð.

Betri samningar næst, segir hæstv. atvrh. (KIJ). Jeg vil nú óska, að ef haldið verður áfram á þessari braut, þá verði samningar allir birtir sem allra fyrst. Jeg vona því, að þýðing þessa samnings verði og bráðlega til sýnis hjer á skrifstofunni, því eins og jeg tók fram í fyrri ræðu minni í dag, er þess þörf, er margir þm. skilja ekki ensku.