09.05.1923
Neðri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í D-deild Alþingistíðinda. (3435)

62. mál, steinolíueinkasalan

Fyrirspyrjandi (Jakob Möller):

Jeg hefi ekki, að jeg held, hagað orðum mínum þannig, að jeg þyrfti að fá margar hnútur fyrir að vilja hlaða undir steinolíufjelagið hjer, og jeg veit til þess, að það hefir átt betri málsvara annarsstaðar en þar sem jeg er.

Jeg hefi verið fylgjandi ríkiseinkasölu á steinolíu, ef ekki væri hægt að versla með hana í frjálsri samkeppni, og sú afstaða mín stafaði einmitt af því, hvernig steinolíufjelagið notaði sjer afstöðu sína hjer á landi fyrr meir, er það var að neyða menn til að binda viðskifti sín við það eitt. Nú er þetta breytt þannig, að frjáls verslun er vel kleif, og því er afstaða mín til þessa máls breytt samkvæmt því, og stendur það, eins og augljóst er, ekki að neinu leyti í sambandi við hagsmuni steinolíufjelagsins.

Mjer var kunnugt um það nokkru fyrir þingbyrjun í fyrra, að í ráði var að bera fram á því þingi tillögu um, að ríkið tæki að sjer einkasölu á steinolíu, en að það var ekki gert, staðhæfi jeg að hafi verið af því einu, að þeir, sem vildu fá þetta fram, sáu sjer ekki fært að koma því í gegn á því þingi. En þetta, að færa sjer í nyt afstöðu stjórnarinnar til þessa máls og koma þessu þannig fram í trássi við þingið, aðeins nokkrum dögum áður en það átti að koma saman, tel jeg vera algerlega ótilhlýðilegt, bæði af þeim fáu mönnum, er knúðu það fram, og af stjórninni, að ljá þeim eyra. Hæstv. atvrh. (KIJ) hefir skýrt frá því í dag, að til sín hafi komið þingmenn og aðrir og hvatt sig til þessa. Hve margir þeir þingmenn hafi verið, ljet hann ósagt, en hvort sem þeir hafa verið fleiri eða færri, þá skiftir það engu. Hann átti að spyrja þingið, en ekki einstaka þingmenn. Hann kveðst ekki hafa gert það af ótta við þingið, að skella einkasölunni á fáum dögum fyrir þing. Ef hann hefði óttast þingið, mundi hann ekki hafa gert það. Nei, hann hefir óttast meira þessa einstöku þingmenn, og líklega hefir hann þóst sjá boðana á bæði borð, og því tekið það ráðið, er honum sýndist vænna, að trássast við vilja þingsins, en hlýðnast þeim einstöku.

Hæstv. atvrh. (KIJ) furðar sig á því, að jeg skuli halda því fram, að aðeins 2 þingmenn sjeu fylgjandi einkasölu, þar sem þetta sje þó flokksmál Framsóknarflokksins. Jeg staðhæfi, að það sjeu aðeins 2 þingmenn eða svo á þingi fylgjandi einkasölustefnunni, en Framsóknarflokkurinn mótfallinn henni. Stefnuskrá flokksins hefir verið birt opinberlega í blaði hans, og þar er þetta skýrt tekið fram. Það mun að vísu og tekið þar fram, að flokkurinn sje fylgjandi einkasölu á steinolíu, en jeg hygg, að það sje aðallega fyrir þá sök, að flokknum sje ekki orðin ljós sú breyting, sem á er orðin, eða þá e. t. v. fyrir ráðríki þeirra fáu manna í flokknum, sem fylgjandi eru einkasölustefnunni yfirleitt.

Hv. samþm. minn, 2. þm. Reykv. (JB), syngur ríkisverslun mikið lof; það er og eðlilegt; afstaða hans til þessa máls er alkunn. Jeg hefi orðið rækilega var við það, að þeir, sem halda fram ríkiseinkasölu, álíta, að ríkið ætti ekki að þurfa að sprengja vöruverðið upp, og í sjálfu sjer væri þetta eigi ólíklegt. En ef nú hv. samþm. minn (JB) vill athuga reikninga landsverslunarinnar, mun hann sjá, að hagnaðurinn af steinolíuversluninni hefir orðið um 130–140 þús. kr. undanfarin tvö ár, og hvað er það annað en að „sprengja upp“ verðið? það má þá svara því til, að þessi gróði lendi allur hjá ríkissjóði. En undanfarið hefir steinolíufjelaginu verið gefið tækifæri til að græða annað eins og líklega meira. Hvers vegna þarf nú að sprengja svona upp verðið á steinolíunni og hví setti landsverslunin það ekki niður í staðinn? Jeg get ekki svarað því, og jeg geri ráð fyrir, að hann geti það ekki heldur. En hvers er að vænta af einkasölu, þegar þannig er farið að í frjálsri samkeppni? Því er svarað, að kosturinn sje sá, að með einkasölu fari þó allur arðurinn í ríkissjóð. En þetta dæmi af steinolíuversluninni sýnir, að einstaklingar leggi líka of mikið á í frjálsri samkeppni. En með einkasölu er einstökum atvinnurekendum gert ókleift að afla sjer vörunnar sjálfir á erlendum markaði, þar sem þeir gætu fengið hana ódýrari. Á þann hátt geta þeir og neytt kaupmenn til að setja niður verðið. Þetta er kostur hinnar frjálsu samkeppni, auk þess sem hún tryggir mönnum betri vörur.

Hv. samþm. minn (JB) hefir áður viðurkent þessa yfirburði frjálsrar samkeppni, og hann ætti að halda sjer við það framvegis.

Þá spurði hann enn fremur, hvers vegna okkur hefði þá ekki dottið í hug að nema úr gildi heimildarlögin frá 1917. En jeg vil benda hv. þm. (JB) á það, að óráðlegt gat verið að fella heimildina niður, þó hún væri ekki notuð, meðan ekki var full reynsla fengin á því, hvernig landsversluninni tækist að keppa við steinolíufjelagið. En meðan samkeppnin gat átt sjer stað og ekki sýndi sig, að nein hætta stafaði af ofríki steinolíufjelagsins, þá var engin ástæða til að nota heimildina, enda var engin ástæða til að halda, að það yrði gert eftir þeim yfirlýsingum, sem stjórnin hafði gefið. Jeg hefi svo í raun og veru ekki meira að segja um þetta, en vildi þó að lokum minnast á þá athugasemd hv. þm. Barð. (HK), að stjórnin hefði tekið til þessa bragðs til hagræðis landinu og til að sporna við óhæflegum yfirgangi. Þetta er algerlega út í bláinn sagt, enda hefir ekki einu sinni hæstv. stjórn látið sjer til hugar koma að afsaka framkomu sína með því, að nokkur yfirvofandi hætta hefði verið búin af steinolíufjelaginu. Og hvað það hafi verið til mikils hagræðis fyrir landið, þá er því að svara, að um það getur orðið deilt. Og jeg býst við, að þeim mönnum, sem standa með reikninga í höndunum, er sýna, að þeir gátu fengið olíu frá útlöndum í smákaupum, tunnu og tunnu jafnvel, lægra verði en landsverslunin hefir gefið þeim kost á, þá þyki þeim hagræðið af þessari ráðstöfun harla lítið.