05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í D-deild Alþingistíðinda. (3444)

108. mál, ullariðnaðarmálið

Fyrirspyrjandi (Eiríkur Einarsson):

Þegar jeg bar fram þessa fyrirspurn á þskj. 209, vænti jeg þess, að henni mundi svarað fyr en raun er á orðin. Mjer hefði þótt æskilegt, að þingið hefði fengið skýrslu um störf ullariðnaðarnefndarinnar og tillögur hæstv. stjórnar áður en rætt yrði um fjárlögin. En nú er svo áliðið þingsins, að jeg geri ekki ráð fyrir miklum fjárveitingum til þessara framkvæmda að svo komnu. En þó að mist sje af þessum tilgangi, að fá andsvör hæstv. stjórnar nógu snemma, álít jeg betra, þó að seint sje, að hv. deild fái að vita, hvað gert hefir verið og hvað stjórnin hygst að gera við tillögur nefndarinnar. Tel jeg æskilegt, að þingmenn fái vitneskju um þetta nú þegar, svo að þeir geti áttað sig á málinu og gefið skýr og ákveðin svör um tillögur nefndarinnar og stjórnarinnar, þegar þeir koma heim í kjördæmi sín. En það getur aftur orðið til þess, að þjóðin geri sjer betur grein fyrir heppilegum leiðum fyrir t. d. næsta þing en vera myndi, ef engu væri hreyft.