12.05.1923
Neðri deild: 62. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í D-deild Alþingistíðinda. (3451)

147. mál, skólamál

Fyrirspyrjandi (Magnús Kristjánsson):

Þessi fyrirspurn er í tveim liðum, en þar sem um samskonar málefni er að ræða í báðum, þá ætla jeg með leyfi hæstv. forseta að ræða þá samhliða. Vík jeg þá fyrst að fyrri liðnum.

Jeg veit, að margir af hv. þm. muni vera þessu máli kunnir, og vil jeg því ekki eyða löngum tíma í það að rekja sögu þess. Jeg vil þó geta þess, að þetta mál hefir verið á dagskrá hjer síðan um síðustu aldamót. Höfðu menn þá þegar gert sjer grein fyrir því, hve mikla þýðingu slík stofnun sem þessi fyrirhugaði skóli hefði til að þroska hæfileika kvenfólksins, svo því yrði auðveldara að inna vel af hendi hin afar þýðingarmiklu störf, sem framtíðar heill heimilanna og þjóðfjelagsins í heild veltur svo mjög á. Er vart hægt að segja, að mjög mikið hafi verið gert til þess fyr eða síðar, og væri því full þörf á því, að þessi húsmæðraskóli kæmist sem fyrst á laggirnar.

Á þinginu 1917 kom fram áskorun frá nálega 2000 konum á Norðurlandi, þess efnis, að málinu yrði hrundið í framkvæmd. Það hafði þá legið fyrir þinginu áður, án þess að nokkur árangur yrði af því. Líklega hefir það einkum tafið fyrir málinu, að deilur höfðu risið um það, hvar á Norðurlandi skólinn skyldi reistur. Þegar hjer var komið, var sá ágreiningur niður fallinn að mestu og menn höfðu komið sjer saman um, að skólinn skyldi reistur í Eyjafirði. Var svo frv., sem jeg bar fram, þessa efnis, samþykt á þingi árið 1917. Því var ekki nema eðlilegt, að það vekti fögnuð hjá konunum, er það vitnaðist að þingið hefði afgreitt lög um þetta. En sá fögnuður reyndist ástæðulítill, því nú hefir sú raunin orðið á, að stjórnir þær, sem síðan hafa setið að völdum, hafa ekki sjeð sjer fært að gera neitt verulegt í málinu. Geri jeg ráð fyrir, að það hafi, eins og svo oft áður, þegar um framkvæmdir nauðsynjamála er að ræða, verið barið við þessari venjulegu ástæðu, nefnilega fjárskortinum. En hann er þá ekki nægileg afsökun, því það gefur að skilja, að talsverður undirbúningur þurfti að fara fram áður en veruleg fjárframlög kæmu til sögunnar. Það er þetta, sem jeg get ekki komist hjá að láta í ljós, að málinu hefir verið alt of lítið sint af hálfu stjórnarinnar. Og jeg leitaði þessa tækifæris nú, til að ræða það við hæstv. stjórn, í því skyni að fá hana til að gera ráðstafanir þessu viðvíkjandi þegar á þessu sumri. Eins og sjá má af lögunum, þá er það tilætlunin, að hjeraðsbúar leggi fram 1/3 stofnkostnaðar. Veit jeg fyrir víst, að einhver úrræði yrðu með að útvega það fje. Byggi jeg þá von mína á því, að málið hefir komið til umr. bæði í bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar og í sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu, og báðir þessir aðiljar hafa tekið vel í að sinna því, þegar þar að kæmi. Nú eru það tilmæli mín til hæstv. stjórnar, að hún setji sig í samband við rjetta hlutaðeigendur, til þess að fá vissu um þetta, sem jeg hefi nú getið um. Því næst tel jeg æskilegt, að hún láti húsagerðarmeistara gera uppdrætti af húsinu og áætlun um byggingarkostnað. Í lögunum er nægilega greinilega tiltekið um fyrirkomulagið, til þess, að hægt sje að ljúka þessu undirbúningsstarfi án frekari dráttar en þegar hefir átt sjer stað. Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þennan lið, en aðeins taka það fram af nýju, að þar sem fyrir þinginu liggur áskorunum þetta mál frá nálega 2000 konum, þá er auðsætt, að hjer er ekki um neitt hjegómamál að ræða, heldur hreyfing, sem er svo öflug og rjettmæt, að henni verður að sinna þegar í stað. Jeg geri að vísu ráð fyrir, að kostnaðaratriðið muni vaxa mörgum í augum. En að því er það snertir, þá vil jeg benda á það, að á þeim árum, sem byggingarefni hjer var í lægstu verði, var gerð lausleg áætlun um byggingarkostnað þessa skólahúss, og varð niðurstaðan sú, að hann mundi verða um 45 þúsund krónur. Þótt nú þrefalda yrði þessa upphæð, færi byggingarkostnaðurinn nú þó varla yfir 150 þúsund krónur. Og ef um nokkra verulega lækkun á byggingarkostnaði yrði að ræða, þá er ekki víst, að hann færi mikið fram úr 100 þúsundum. Þar sem nú bæjar- og sveitarfjelögin ætla að leggja fram 1/3 kostnaðar, þá tel jeg ríkissjóðnum ekki ofvaxið að leggja fram 2/3 kostnaðarins.

Eins og kunnugt er, er tekið fram í lögunum 26. okt. 1917, að þessi stofnun skuli reist, þegar fje verði veitt til hennar í fjárlögum. En svo var á þinginu 1919 samþykt ákvæði um það, að flýta skyldi byggingunni, og var stjórninni gefin heimild til lántöku í því skyni. Er því vart hægt að sjá, að hjer standi á öðru en áhuga stjórnarinnar á málinu. — Skal jeg svo láta útrætt um þetta, en snúa mjer að seinni liðnum.

Það gildir það sama um þetta mál og hitt, að nauðsynin er mikil. Og því hefir einnig verið vel tekið, því á þinginu 1920 voru afgreidd lög um kenslu í mótorvjelfræði, frá 18. maí það ár. En framkvæmdirnar hafa engar orðið enn sem komið er. Býst jeg þó við, að öllum, sem nokkurt skyn bera á sjávarútveg og siglingar, sje það fullljóst, að slík stofnun sem þessi muni nauðsynleg eins og stýrimannaskólinn og vjelstjóraskólinn. Tel jeg, að það verði varla varið, ef lengur dregst, að þessi deild sje stofnuð. Að vísu er mjer kunnugt um, að húsnæðisskorti er barið hjer við. En sú viðbára verður vart haldgóð til lengdar, því ekki þarf svo ýkjamikið húsrúm til þessa. Og þegar manni verður litið hjer út um gluggann og sjer þessar háreistu hallir gnæfa við himin, þá verður manni að spyrja, til hvers húsrúm eins og það, sem Landsbankinn hefir verið að láta byggja, verði betur notað en í þessu skyni.

Jeg ætla svo ekki að fjölyrða meira um þetta að sinni. Jeg vænti þess, að hæstv. forsrh. (SE) veiti þessu máli góðar undirtektir og taki það til alvarlegrar athugunar á þessu sumri, svo að þessi vjelfræðiskóli geti tekið til starfa sem allra fyrst. Eins er um húsmæðraskólann á Akureyri. Það er ósk mín, að byrjað verði að reisa hann sumarið 1924. Og það er meira en ósk mín, það er eindregin krafa alls þorra manna og kvenna á Norðurlandi.