12.05.1923
Neðri deild: 62. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í D-deild Alþingistíðinda. (3453)

147. mál, skólamál

Fyrirspyrjandi (Magnús Kristjánsson):

Jeg get að sumu leyti unað við svör hæstv. forsrh. (SE). Jeg bjóst við, að það mundi kveða við þetta gamla og alkunna orðatiltæki: „Silfur og gull á jeg ekki, en það sem jeg hefi, það gef jeg þjer“. Þetta virðist mjer aðalatriðin í svari hans.

Það, sem hæstv. forsrh. (SE) telur sig hafa, er góður vilji og viðleitni til þess að hrinda málinu áleiðis. Vænti jeg að hafa skilið hann rjett að þessu leyti, og því megi vænta árangurs af þessum góða vilja og viðleitni hans.

Um kostnað við þessi fyrirtæki ræði jeg ekki frekar, og hve nær efni fæst með viðunanlegum kjörum, getur einatt orðið álitamál. Hver sú stjórn, sem hefir dug og gæfu til, mun ákveða það í samráði við sjerfróða menn í þeim greinum. Jeg hygg, að verð á efni sje nú að þokast í viðunanlegra horf, en álít þó, að ekki geti komið til mála að vænta þess, að það verði fyrst um sinn eins ódýrt eins og það var fyrir stríðið, og ekki hægt að vita, hve mikillar lækkunar má vænta, og ætti ekki að draga þetta þess vegna.

Jeg get ekki fallist á það, að skólahús á Eiðum gangi fyrir þessum skólum, sem jeg hefi spurt um. Sama gildir og um skóla að Staðarfelli, en þó ætti hann að geta tekið til starfa áður langt líður, enda er þar og til nokkurt fje, sem flýtir fyrir því að koma honum á stofn.

Þar sem hæstv. forsrh. (SE) hefir nú lofað að láta húsagerðarmeistara ríkisins gera uppdrætti og kostnaðaráætlun að húsmæðraskólanum á Akureyri mjög bráðlega, þá tel jeg æskilegast, að staðurinn verði einnig ákveðinn þegar á þessu sumri.

Um mótorskólann sje jeg ekki, að þurfi að ræða frekar að sinni. Jeg þykist þess fullviss, að skólastjórinn hafi áhuga á þessu máli og að hæstv. forsætisráðherra (SE) takist að hrinda því vel á veg til fljótra framkvæmda.

Að kennara vanti, veit jeg eigi, hvort sje allskostar rjett. Að minsta kosti er hjer fullfær maður til þess, þar sem er Ólafur Sveinsson vjelfræðingur, sem líklega hefði tekið þetta að sjer, ef málið hefði verið nægilega undirbúið. Þó tel jeg sjálfsagt, að þessi ungi og efnilegi maður, sem hæstv. forsrh. (SE) gat um, fái tækifæri til að fullnuma sig í þessum fræðum. Vænti jeg þess, að hæstv. forsrh. (SE) muni nú gera þessi mál að sínum áhugamálum, og því muni drátturinn á framkvæmdum eigi verða langur hjer eftir.