22.03.1923
Neðri deild: 26. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

21. mál, ríkisskuldabréf

Frsm. (Jakob Möller):

Það er ekki svo að skilja, að nefndin geri frv. að nokkru kappsmáli, en telur það hins vegar vera heppilegt og sjer ekkert á móti því, að það sje samþykt, og er hún að þessu leyti alveg ósammála háttv. samþm. mínum. 3. þm. Reykv. (JÞ). Jeg vil fyrst minna hann á, að þetta er ekki eins mikið stórmál og hann virðist ganga út frá. Lögin eru aðeins sett með tilliti til þeirra smálána, sem taka skal frá ári til árs og heimild er til, og því fer fjarri, að þau fari í þá átt að stofna til óvarlegri fjármálastjórnar en verið hefir. Það er einmitt með þessum lögum, að takmörk eru sett fyrir lántökum og hvernig þeim skuli háttað. Afborganirnar eru óákveðnar, og hv. 1. þm. Reykv. hjelt því fram, að þær yrðu svo þungar, að nærri stappaði, að þær myndu verða óviðráðanlegar. En þá er því að svara, að það er fyrst og fremst engin hætta á, að svo mikið seljist af brjefum þessum, og auk þess mundi stjórnin altaf geta fengið heimild til þess að taka lán upp í afborganirnar. Með stærri lán yrði eðlilega altaf leitað til útlanda, og þá eftir sjerstökum lántökuheimildum. Ætlun nefndarinnar var sú að fá skapaðan markað fyrir íslensk ríkisskuldabrjef, en með því einu móti, að þau verði jafnan fáanleg, venjast menn á að kaupa þau smátt og smátt, og miklu síður með lántökum eins og þeirri 1919–20. Stærri lántökur venja menn yfirleitt ekki á að kaupa þau.

Að öðru leyti hefir hæstv. fjrh. (MagnJ) svarað flestu. t. d. um vaxtakjörin, að taka megi lán með 4%, annars ekki. Það kemur öllum saman um, að lægri geti vextirnir ekki orðið, og því ætti þetta atriði að vera skaðlaust, því fremur sem þessu ætti að ræga breyta á hverju þingi, og ef brýn þörf væri, ætti stjórnin að geta skapað sjer sjerstaka heimild til þess. Hvað það snertir, að brjefin sjeu óútgengilegri fyrir þá sök, að þau eru óinnleysanleg fyrstu 25 árin, þá kann svo að þykja fyrst í stað. En þó sumum virðist það óheppilegt, þá kann öðrum að virðast það kostur, að þau sjeu til ákveðins tíma, t. d. þegar um sjóði væri að ræða. Hinn árlegi útdráttur brjefanna gefur kaupendum heldur enga verulega tryggingu, því sú upphæð nemur svo tiltölulega litlu, og hending, sem ræður, hvers hlutur kemur upp. Er því vafasamt, hvort tímaákvörðunin í frv. getur talist ókostur. Vjer gerum ráð fyrir, að eftirleiðis verði mönnum hjer eins og annarsstaðar gert hægra fyrir að eignast brjefin, og verði þau þá látin ganga kaupum og sölum, þannig, að þótt einhver þyrfti á fjenu að halda, sem hann hefði sett fast í bankavaxtabrjefum, þá gæti hann selt það öðrum.

Nefndin komst því, að öllu athuguðu, að þeirri niðurstöðu, að þetta væri engan veginn varhugavert, heldur miklu fremur trygging fyrir því, að varlegar yrði farið af hendi stjórnarinnar með þær heimildir, sem hún hefir til lántöku. Og því leggur hún til, að frv. nái fram að ganga.