12.05.1923
Efri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í D-deild Alþingistíðinda. (3460)

42. mál, ferðalög ráðherra

Jón Magnússon:

Jeg minnist þess frá stúdentsárum mínum, að við fyrirlestra eins háskólakennara í lögum var mjer samtíða stúdent einn, sem var góður námsmaður, en talsvert upp með sjer. Hann var altaf að spyrja lærimeistarann um hitt og þetta. Svo mikil brögð voru að því, að lærimeistaranum tók að leiðast spurningar hans — því að maðurinn spurði ekki af fróðleiksfýsn, heldur af löngun til að gera sig merkilegan —, og eitt sinn svaraði lærimeistarinn honum á þá leið, að eitt fífl gæti spurt um meira en 7 vitringar gætu svarað. Þetta flaug mjer í hug, þegar jeg mintist fyrirspurna hv. 5. landsk. þm. (JJ), svo lítið viturlegar eru þær allar.

Hv. þm. hefir leyfi til að spyrja stjórnina um alþjóðleg málefni, svo sem fyrir er mælt í stjórnarskránni. Nú veit jeg ekki — um það verður hæstv. stjórn að dæma —, hvort telja verður alþjóðleg málefni fyrirspurnir um fremur lítilfjörlega reikninga, sem ekki einungis hafa verið rannsakaðir af yfirskoðunarmönnum, heldur einnig hefir verið löngu kvittað fyrir af Alþingi. En svo er um alla reikninga fram að 1920, og nú nýlega hefir verið kvittað fyrir reikningana frá 1920 og 1921. Hv. þm. (JJ) átti kost á að ræða um reikninga mína fyrir árin 1920 og 1921, hefði hann treyst sjer til að gera það þegar við átti, þegar fjáraukalögin fyrir þau ár voru til umræðu. En hann treysti sjer ekki út í umræður um þau fjáraukalög, þó að þá væri nægur tími og tækifæri. Hjer hefir hv. þm. engan rjett til að spyrja mig, og hæstv. stjórn hefir ekki ástæðu til að svara fyrir fyrverandi stjórn.

Það skaust út úr hv. þm. (JJ), að þetta þyrfti að rannsaka. Það er velkomið, en þá átti hann að fara alt aðra leið. Hann gat fengið að vita alt þetta með því að líta í landsreikningana, og jeg tel hæstv. stjórn mjög leiðitama, er hún vill svara jafnheimskulegum spurningum, er hver og einn getur svarað sjer sjálfur. En sem sagt, hv. þm. átti kost á að athuga ferðakostnað á árunum 1920 og 1921, hefði hann viljað gera það við rjett tækifæri, en dýrasta ferðin er einmitt farin 1920. Hefi jeg fyrir mitt leyti ekkert á móti því að skýra nokkuð frá þeirri ferð.

Vorið 1920 var stöðvaður kolaútflutningur frá Englandi til annara en bandamanna. Þarf jeg tæplega að lýsa því, hverjar afleiðingar það hefði haft fyrir landið og fiskiveiðar vorar, ef kolaflutningur frá Englandi hefði tepst um langan tíma og vjer orðið kolalausir. Jeg þurfti þá að fara til Kaupmannahafnar og lagði leið mína um London, til þess að fá að vita, hvort nokkur von væri til þess, að úr þessu yrði greitt. Erindreki vor í London var að reyna að fá ívilnun, en fekk sama svar sem aðrir. Það er alveg ótrúlegt, hve Bretar neituðu jafnvel æðstu stjórnendum um lítilsháttar kolasendingar. Það var, að jeg ætla, snemma í aprílmánuði, að jeg fór af skipinu í Leith og hjelt til London. Símaði jeg áður en jeg fór hjeðan að heiman til erindrekans og bað hann að útvega mjer herbergi í gistihúsi. Jeg dvaldi svo um 12 daga þar í borginni og hafði tal af utanríkisráðuneytinu. Býst jeg við, að hv. 5. landsk. þm. (JJ), sem er talsvert kunnugur erlendis, muni vita, að það er ekki altaf fjarskalega fljótgert. London var þá miðdepill alls heimsins, og var þar saman kominn fjöldi manna, sem reyndu einnig að ná tali af helstu ráðamönnum ríkisins. Loks fekk jeg þó sæmileg svör, og vjer biðum ekki mikinn skaða af kolateppunni.

Svo að menn geti gert sjer dálitla hugmynd um, hve dýr dvöl mín í Englandi hlaut að verða, skal jeg geta þess, að erindreki vor í London kvaðst hafa reynt að útvega mjer herbergi á 14 stöðum, en þar var alt fult. Loks gat hann fengið herbergi í gistihúsi, hotel Ritz, sem er afardýrt. Í þessu gistihúsi borgaði jeg 7 guineur (eða um 180 kr.) á dag fyrir herbergi, og geta menn sjeð nokkuð af því, hve kostnaðarsöm slík ferðalög eru.

Þetta, sem jeg nefndi, var aðalerindi mitt til London. Annað erindið var það, að jeg ætlaði, sem jeg gerði, að gera ráðstafanir til þess, að erindrekinn þar hætti störfum og færi heim. Auðvitað fekk jeg skammir í Tímanum fyrir að kveðja erindrekann heim. Síðan var jeg skammaður í sama blaði fyrir erindreka landsins; voru þeir þá kallaðir legátar. (JJ: Ekki erindrekinn í London). Jú, jeg var líka skammaður fyrir kostnaðinn við hann, en hv. þm. (JJ) mun að líkindum ekki lesa Tímann.

Þó að ferð mín væri ekki til þess gerð í fyrstu, notaði jeg dvöl mína í London til þess að útvega Landsbankanum dálítið viðskiftalán. Var það byrjunin til þess, að vjer komumst inn á enska markaðinn með lántökur, sem margir menn telja mikils virði.

Þegar jeg hafði lokið þessum erindum, ætlaði jeg að fara til Kaupmannahafnar um Parkestone og Esbjerg, en þá var skollið á sjómannaverkfall í Danmörku, og varð jeg því að fara um Newcastle, Björgvin og landveg þaðan um Svíþjóð til Kaupmannahafnar. Man jeg ekki glögglega, hve löng sú ferð var, enda vil jeg ekki gera svo lítið úr mjer að telja dagana. En jeg býst við, að þessi ferð öll, til London og Hafnar, hafi tekið álíka langan tíma og ferð, sem annar maður fór árið eftir, forstjóri landsverslunar, sem menn telja sparsaman mann. Hann mun hafa farið nokkurn veginn um sömu eða jafnmörg lönd, og kostaði ferð hans um 7000 kr., eða talsvert á 7. þúsund. Ef gætt er að kostnaðinum við að ferðast 1920 og 1921, þolir þetta vel samanburð, en jeg veit ekki til, að nokkur hafi álasað þessum manni fyrir það, hve dýr ferð hans varð.

Auðvitað má segja, að þessar ferðir hefðu getað verið eitthvað ódýrari. En þegar þess er gætt, að jeg þurfti að eiga tal við og taka á móti mönnum, sem góðu eru vanir, í herbergjum mínum, hljóta menn að skilja, að jeg gat ekki búið á ljelegum stað, enda gat erindrekinn ekki útvegað mjer annað. En til samanburðar á ferðakostnaði 1920 og þar á undan og 1921, vil jeg geta þess, að herbergi, sem kostuðu áður 70 kr. á dag, kostuðu mig ekki nema 30 kr. síðast á árinu 1921. Árin á undan var stundum svo erfitt að fá gistingu, að menn urðu að borga dýrum dómum fyrir að fá að liggja í baðkerum. Hv. fyrirspyrjandi (JJ) veit þetta fullvel, því að hann hefir sjálfur ferðast mikið, enda spyr hann ekki svo af því, að hann viti ekki, heldur af framhleypni einni. Jeg ætla því, að mjer sje auðvelt að forsvara þennan ferðakostnað, hvað sem hrópstungur Tímans segja.

Þar sem jeg er farinn að tala um ferðalög, skal jeg geta þess, að jeg fór til Englands í ársbyrjun 1922. Jeg hefi heyrt, að einhver af uppaustursmönnum Tímans hafi verið að reikna þann ferðakostnað út í tollum. Það er satt, að jeg fór þessa ferð í engum ríkiserindum. Jeg hafði lokið störfum mínum í Kaupmannahöfn um áramótin og þurfti að bíða eftir Gullfossi í 10 daga eða svo. þessa bið notaði jeg til að skreppa til Suður-Englands til þess að heimsækja venslafólk mitt. Jeg reiknaði því þá dagana, sem jeg var á ferð þessari, þangað til jeg kom í Gullfoss í Leith, aðeins með þeirri fjárhæð, sem jeg hefði þurft að nota, ef jeg hefði verið kyr í Kaupmannahöfn þangað til Gullfoss fór þaðan, en ekki útlagðan kostnað, sem var miklu meiri.

Um árangurinn af öðrum ferðum getur hv. þm. (JJ) ekki dottið í hug, að jeg fari að skrifta fyrir honum. Mun jeg svo láta máli mínu lokið að sinni.