12.05.1923
Efri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í D-deild Alþingistíðinda. (3464)

42. mál, ferðalög ráðherra

Jón Magnússon:

Jeg á ekki sök á því, þótt þingið lengist eitthvað. Árásir þær, sem nú hafa verið á mig gerðar, eru þannig vaxnar, að ekki verður hjá því komist að svara þeim með nokkuð langri ræðu. Jeg hefi fyrir löngu vitað, að þessi fyrirspurn, sem nú liggur fyrir, var beinlínis gerð í því skyni að bera saman kostnað við ferðir mínar sem ráðherra og kostnað við ferðir hæstv. atvrh. (KIJ) nú í sumar. Fyrverandi fjrh. (MagnJ) mun hafa gefið hv. 5. landsk. þm. (JJ) nauðsynlegar skýrslur um þessar ferðir. (JJ: ósatt). En þessi samanburður er algerlega rangur, sökum þess að helmingi ódýrara er að ferðast nú en var 1920. Hv. 5. landsk. þm. (JJ) hefir engu svarað um það, hví hann hefði ekki heldur tekið til samanburðar ferðakostnað forstjóra landsverslunarinnar. Hv. þm. segist í öðru orðinu ekki vera að efast um það, að ferðakostnaður hafi orðið þetta mikill, en svo grípur hann fram í fyrir hæstv. forsrh. (SE) og spyr um, hvort ráðherrar eigi að græða á ferðalögum. Þarna kemur hann upp um sitt sanna hugarfar. Þetta eru alveg sömu blekkingarnar og sami rógurinn hjer og í Tímanum. Hv. þm. er velkomið að reyna að koma málinu fyrir landsdóm; jeg er óhræddur við það. En mjer þykir spaugilegt, ef á næstu 7 þingum, sem við eigum vonandi eftir að sitja saman hjer í háttv. deild, ef við lifum báðir, verði sífelt rifrildi um liðinn tíma, sífeldur eldhúsdagur fyrir löngu fráfarna stjórn. En þetta er máske byrjunin á þeim nýja tíma, sem hv. þm. telur sig vera að innleiða.

Jeg ætla ekki að fara að verja mig fyrir þeim áburði hv. þm. og málgagns hans, Tímans, að jeg hafi notað mjer ráðherrastöðuna til þess að græða fje og að jeg hafi falsað reikninga. Jeg þykist vera of mikill maður til þess að verja mig gegn þeim áburði. Þetta er einungis ósæmileg, ósvífin árás frá þessum hv. þm. Allir, sem þekkja mig, munu vera þess fullvissir, að jeg hefi ekki notað mjer stöðu mína til þess að græða fje. Gekk fje mitt þvert á móti mjög til þurðar þau ár, er jeg var ráðherra.

Hv. þm. heldur því fram enn, að ómögulegt hafi verið að eyða 150 sterlingspundum í London á 12 dögum, eftir ein kostuðu 84 gíneur. Var þó erindreki vor, sem útvegaði húsnæðið, ekkert ósparsamur maður.

Hv. 5. landsk. þm. (JJ) hefir sýnt fádæma fávisku og vanþekkingu á atriðum, sem hverjum þingmanni ættu að vera kunn, þar sem hann talar um undirráðherra í dag, segir, að fjármálaráðherra hafi verið undirmaður minn. Þetta lýsir svo mikilli fákunnandi hjá hv. þm., að jeg get vart komið orðum að því; en þar sem alveg sama meinlokan hefir hvað eftir annað gert vart við sig í blaði því, sem er málgagn þessa hv. þm., þá þykir mjer rjett að gera fyrst dálitla almenna athugasemd, sem ætti reyndar að vera óþörf, en ekki er það eins og hjer hagar til. Þar sem ráðuneyti er skipað fleirum ráðherrum en einum, er alstaðar skift mjög greinilega störfunum milli ráðherranna, þannig, að hver þeirra hefir sína afmarkaða starfsgrein yfir að ráða og ber sjerstaka ráðherraábyrgð á því, sem gerist í þeirri starfsgrein. Hver ráðherranna hefir það, sem kallað er á slæmri íslensku sitt „fag“, er fagráðherra, nema þegar það kemur fyrir, að ráðherra er skipaður án þess að hafa nokkra starfsgrein („fag“), er eins og kallað er án „portefölje“, eins og t. d. forsætisráðherra getur verið. Aðalábyrgð forsætisráðherra á hinum ráðherrunum er sú, að hann velji ekki til neins fagsins neinn þann mann, sem ekki er forsvaranlegur, og að hann láti manninn fara, ef hann reynist óhæfur. En forsætisráðherra hefir ekki ábyrgð á hverju því verki, er hinir ráðherrarnir gera innan síns afmarkaða verkahrings. Þess vegna er það, að aðfinslum að gerðum ráðherra, hvers innan síns verkahrings, er af þingum og blöðum, annarsstaðar en hjer, beint til þess ráðherra, er í hlut á, en hvorki til ráðuneytisins í heild nje til forsætisráðherra, nema hann sje þá sá, er með fagið fer. Annað mál er það, að komið getur fyrir, að allir ráðherrar hafi ábyrgð á sama máli, og þó einkum forsætisráðherra. En þetta snertir ekki það atriði, er jeg er hjer um að tala. En eitt blað sjerstaklega, Tíminn, hefir síðastliðin 3 ár eða meira gert sitt til að rugla vitund almennings um þessi atriði. Hann hefir legið á því lúalagi að kenna mjer um allar þær aðgerðir hinna ráðherranna, sem honum hafa þótt aðfinsluverðar, þótt þær hafi flestallar verið svo greinilega innan þeirra valdsvæðis, að ekki gat komið til mála, að jeg blandaði mjer í það. Blaðið hefir þá venjulega sagt svona beint áfram: „þetta gerir Jón Magnússon“, eða þá, sem örsjaldan kemur fyrir, „þetta gerir stjórn Jóns Magnússonar“. Þetta hefir ekki gert mjer til, en það hefir verið skaðlegt fyrir stjórnmál þessa lands; það hefir eflaust ruglað mjög rjettarmeðvitund manna, og verið því hægra að gera þetta, sem þessi skipun (fleiri ráðherra) er nýrri hjer, og önnur blöð hafa þá heldur ekki gerst til að leiðrjetta þetta.

Og það, sem verra er, hæstv. forsrh. (SE) hefir gripið hjer í sama strenginn sem Tíminn. Jeg á þá við þá breytingu, sem gerð var fyrra ár á skiftingunni á störfum ráðherranna. Hann tekur frá fagráðherrunum valdið til að skipa embættismenn innan þeirrar stjórnargreinar, sem þeim er sjerstaklega falin, og dregur undir forsætisráðherra. Þessi ráðstöfun er mjög athugaverð, að jeg ekki segi meira, og ruglar ráðherraábyrgðina. Ef öðruvísi hefði staðið á hjer í þinginu í ár, þá mundi jeg hafa gert þann konungsúrskurð, sem um þetta var útgefinn, að sjerstöku umtalsefni.

Af þessu, sem nú hefi jeg sagt, er það bert, að árásir Tímans á mig, sjerstaklega um óhæfilega fjárstjórn í ráðherratíð minni, eru rangar og yfirleitt eru þær ósannindi og blekkingar. Jeg geri árásir Tímans hjer að umtalsefni, af því að hann er málgagn Framsóknarflokksins, þess flokksins, sem ber ábyrgð á núverandi stjórn, með öðrum orðum stjórnarflokksins. Þetta blað hefir nú lengst af þingtímanum í ár haft að aðalefni árásir á okkur Magnús Guðmundsson fyrir fjárstjórn landsins frá byrjun ársins 1920 til byrjunar ársins 1922.

Fjárstjórn landsins var vitanlega á þeim tíma í höndum Magnúsar Guðmundssonar, en jeg skal ekkert skorast undan meðábyrgð með honum, og jeg þori að fullyrða það, að einmitt á þessum tíma hefði ekki verið unt að finna neinn mann hjerlendan, er betur væri fallinn til þeirrar stjórnar en hann, og jeg get fullvissað hv. andstæðinga um það, að það er sammæli yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar, að hann hafi staðið prýðilega í stöðu sinni, þrátt fyrir afflutning Tímans. Það er tvímælalaust trú mikils þorra manna, að vjer eigum ekki annan mann líklegri til þess að koma fjárhag ríkissjóðs í lag heldur en hann, og það veit allur þingheimur, að fjárlögin (þar með fjáraukalögin) frá þessu þingi hefðu litið öðruvísi út, hefði hann verið enn fjármálaráðherra, og það veit líka allur þingheimur, að það var fyrir áhrif hans og undirbúning, að fjárlögin frá þinginu 1922 voru þau skynsamlegustu, sem lengi hafa verið sett. Og það má segja Framsóknarflokknum til hróss, að hann hefir viðurkent þetta, svo að ekki verður í móti mælt, því að sá flokkur vildi fyrir hvern mun fá hann til að ganga inn í hið nýja ráðuneyti, er jeg hafði fengið lausn, gekk meira að segja eftir honum með grasið í skónum (JJ: Ekki jeg), og það jafnvel áður en jeg hafði beðið um lausn, enda ljet í ljós þá ósk við þann, er myndaði hina nýju stjórn, að hann reyndi að fá hann til að halda áfram. Meira að segja ritstjóri Tímans ljet hina sömu ósk í ljós. Og svo er þessi sami ritstjóri svo ósvífinn að segja eitthvað á þessa leið: „Er það nú ekki eðlilegt, að Tíminn hafi frá byrjun ársins 1920 snúist á móti stjórn Jóns Magnússonar vegna fjárstjórnarinnar?“

Jeg vil nú setja fram aðra spurningu: Er hægt að hugsa sjer betur hreinræktaða blekking en þessa hjá Tímanum?

Magnús Guðmundsson hefir í hv. Nd. í svarað árásum Tímans lið fyrir lið og sýnt fram á með ómótmælanlegum rökum, að árásirnar á fjármálastjórnina eru ekkert annað en ósannindi og blekkingar.

Jeg nefni hjer eiginnafn hans, en ekki þingmannsnafn, því að hann svarar þar fyrir sína fjármálastjórn, en ekki þingmensku.

Magnús Guðmundsson hrekur fyrst ósannindi Tímans um það, að hann hafi gefið villandi skýrslu í byrjun þingsins 1922 um gjöld ríkissjóðs árin 1920 og 1921.

Honum farast svo orð:

„Blaðið heldur því fram, að jeg hafi gefið þinginu villandi skýrslur um útgjöld ríkissjóðs árin 1920 og 1921, og þegar jeg rak það ofan í blaðið og sýndi með rökum, hversu fjarri sanni þetta var, bætir það aðeins ofan á nýjum blekkingum og telur sig hafa sannað sitt mál með því, að tölur þær, er jeg gaf þinginu upp um útgjöldin, hafi ekki komið heim við tölur þær, er landsreikningarnir sýna. En þetta kemur mjer síst á óvart, því að jeg tók þetta fram í skýrslum mínum til þingsins 1921 og 1922, enda ættu allir að geta sjeð, að það er ómögulegt fyrir hvaða ráðherra sem er að segja í miðjum febrúar, hver útgjöld verða árið næsta á undan, þar sem það er ófrávíkjanleg regla að halda áfram útborgunum úr ríkissjóðnum tilheyrandi síðastliðnu ári þangað til í apríllok næsta ár á eftir. Allir sjá því, að það er gersamlega ómögulegt að segja í miðjum febrúar, hver gjöld koma á næstu mánuði. Mjer dettur heldur ekki í hug að halda, að ritstjórinn hafi ekki vitað þetta, og er því ekki í efa um, að hjer er um vísvitandi blekkingar að ræða, útreiknað eftir þeirri Jesúítasiðfræði, að tilgangurinn helgi meðalið og að altaf verði einhverjir til að trúa ósannindunum, þótt vísvitandi sjeu þau fram borin“.

Þá sannar hann það, að það hafi verið rjett, er hann sagði um hluta ríkissjóðs í enska láninu. Hann ætlaði ekki að taka af því nema 11/2 miljón handa ríkissjóði, en eftirmanni hans þótti hentugra að taka 1 miljón meira. þá segir M. G. enn fremur:

„Blaðið segir, að jeg hafi ekki þorað að láta þingið vita um hið raunverulega fjárhagsástand ríkisins og að jeg hafi falið það fyrir þinginu í fyrra, og þess vegna hafi jeg ekki lagt fyrir þingið fjáraukalagafrumvarp fyrir árið 1922, og þetta hefir verið símað út um alt land og tölublaðinu, sem hafði þennan prestslega sannleika ritstjórans að geyma, hefir verið stráð út yfir alt landið. En allir hv. þdm. vita vel, að þetta er uppspuni frá rótum, enda hefi jeg sannfrjett, að á flokksfundi í Framsóknarflokknum hafi því verið hreyft, að árásir þessar hafi verið rangar og mundu spilla fyrir honum, ef hið sanna kæmi í ljós. Í raun og veru þarf jeg ekki aðra vörn en þessa, að samflokksmenn blaðsins löðrunga það og afneita því, og að stjórn Tímans hefir fetað í mín fótspor um að leggja eigi fjáraukalög fyrir þingið fyrir yfirstandandi ár fyr en nú eftir áskorun. En benda vil jeg þó á það, að það hljóta að vera vísvitandi ósannindi, er blaðið segir, að jeg hafi viljað blekkja þingið, þar sem vitanlegt er, að landsreikningurinn fyrir 1920 lá fyrir þinginu í fyrra, að jeg gaf samskonar skýrslu fyrir 1921 og gefin var nú í þingbyrjun fyrir .1922, og a ð fjáraukalög fyrir 1922 eru alt annað en fjáraukalög fyrir árin 1920 og 1921, og get jeg ekki talið það annað en vísvitandi blekkingu að blanda þessu saman, enda vita flestir, að það er ómögulegt að leggja fyrir þingið í miðjum febrúar 1922 fjáraukalög um greiðslur tilheyrandi árinu 1921, þar sem greiðslur þessa síðastnefnda árs standa yfir til aprílloka 1922“.

Annars skal drepið lauslega á svör M. G. í einstökum liðum og bætt nokkru við frá sjálfum mjer um þá liði, er þykja koma meir til mín en aðrir.

Um kostnaðinn við stjórnarráðið, skrifstofukostnað, sýnir hann og sannar, að kostnaður þessi jókst samkvæmt lögunum (launalögunum), og að stjórn Tímans, þeirri, er tók við á þinginu 1922, hefir ekki tekist að draga úr þeim kostnaði.

Þá er um kostnaðinn við hagstofuna svipað að segja. Kostnaðurinn við hana jókst auk þess afarmikið vegna manntalsins 1920. Þetta vissu allir lifandi menn.

Þá nægir í bráðina að vísa til svars hans um kostnað við prentun stjórnartíðindanna og kostnað við skrifstofuhald bæjarfógeta og lögreglustjóra í Reykjavík, við Vífilsstaðahælið, og benda á spurning M. G. um, hvers vegna blaðið minnist ekki á aukinn kostnað við geðveikrahælið og holdsveikrahælið. Þá vil jeg enn benda á svar hans út af árásunum um kostnað við vegagerðir, og á hinn bóginn hól blaðsins um sparsemina. Hann segir svo:

„Annars hælir blaðið sparsemi að því er snertir 13. gr. fjárlaganna, og á það víst að vera plástur til þess að draga úr árásum þessa sprengvirðulega blaðs á Pjetur sáluga Jónsson, en heilindin í þessu sjást best, þegar það er athugað, að umframgreiðslurnar í þessari grein einni nema samkv. frv. stjórnarinnar hjer um bil jafnmiklu og í öllum hinum greinum fjárlaganna til samans, enda ekkert undarlegt við það, þar sem þar eru talin gjöld öll til póstmála, vega, strandferða, síma og vita“.

Enn skal vísað til svars M. G. um árásirnar fyrir það, að kvennaskólanum í Reykjavík var hjálpað til að halda áfram starfi sínu og bætt lítilsháttar við síra Jóh. L. L. Jóhannsson. Og svo um óvissu gjöldin, sem veittar voru til 20 þús. kr. hvort árið. Þar nefnir M. G. aðeins 9 liði, sem nema samtals meira en 260 þús. kr., og eru allir lögákveðnir, eða sama sem, og þetta er alt á árinu 1920. Svipað er um árið 1921.

Loks skal minna á svar hans um þvætting blaðsins um byssukaup vegna rússneska drengsins, tollaendurgreiðslu og tekjuhalla af bæjarsímanum í Reykjavík, tekjuskattsmálið og mála- í flutningsstarf hans.

Þá skal jeg lítillega athuga þá liði, sem vera mætti, að einhverjum kynni að finnast snerta mig nokkuð nánara. Tíminn ber það upp á mig, að jeg hafi tekið óleyfilega úr ríkissjóði risnufje í viðbót við það, sem lögheimilað var. Vitanlega var þessi viðbót og lögheimuluð, og það vissi ritstjóri Tímans auðvitað, en hann hefir haldið, að almenningur vissi það ekki, og vonað, að margir mundu verða til að trúa því, að jeg hefði tekið þetta úr ríkissjóði á líkan hátt sem er um húsaleiguna frægu. Annars er furðu vesalmannlegt hið sífelda nart í mig fyrir ágengni í fjársökum. Og jeg geri það með ógeði að vera að verja mig fyrir slíku. Jeg hjelt satt að segja, að það væri óhugsandi, að nokkur maður mundi bera mjer þetta á brýn, og jeg veit heldur ekki til þess, að það hafi gert neinir

aðrir en ritstjóri Tímans og hv. 5. landsk. þm. (JJ). En í sambandi við þennan áburð um risnufjeð, þá þykist jeg mega minna á það, að hin mesta dýrtíð, er nokkru sinni hefir komið yfir þetta land, kom í minni ráðherratíð, og þótt jeg hefði engan veginn þá risnu, sem vera bar, þá gengu þó eigur mínar mjög til þurðar þann tíma, er jeg var ráðherra, án þess jeg nokkumtíma inti í þá átt, að jeg óskaði neinnar viðbótar. Og eitthvað líta þeir þingmenn öðruvísi á þetta mál, sem nú era að bæta núverandi ráðherrum upp laun þeirra, þrátt fyrir það, að allur kostnaður þeirra hlýtur að vera svo miklu minni en hinna fyrri. Enginn skilji orð mín sem jeg sje að kvarta yfir þessu. Jeg hefi ekki orðið fyrir öðru en svo margir aðrir, sem eins hefir staðið á um bæði utanlands og innan, sjerstaklega utan, enda hefi jeg aldrei ætlað að gera stjórnmálastarfið mjer að atvinnu.

Þá er þessi óhæfilega eyðsla til krossanna. Ritstjórar Tímans og aðrar hrópstungur, og eflaust þeirra uppaustrarmenn, eru altaf að stagast á þessu máli og afflytja mig fyrir það, og er það furðulegt. Það er nú svo sjálfsagt, að blaðið skrökvi til um málið, að jeg hafi gert það, er jeg gerði í því máli, heimildarlaust frá þinginu, þótt það sje vitanlegt öllum mönnum, að það var gert eftir samþykki alls þorra þingmanna; móti vora 3 eða 4 atkvæði. En mjer þykir það furðulegt af tveim ástæðum. Í versta falli væri þetta saklaus hjegómi, — hjegómi, sem svo að segja allur heimur gerir sig sekan í. Í öðru lagi virðist afstaða núverandi stjórnar, sem Tíminn styður og Framsóknarflokkurinn hefir valið, vera alveg sú sama sem fyrverandi stjórnar að þessu leyti, og Tíminn finnur ekkert að þessu við hana. Það hlýtur því hver maður að sjá, að þetta er ekkert annað en blekking.

Þá er blaðið að tala um stjórnarráðskvistinn. Það er furða, að þetta mál skuli vera sett í samband við fjárlögin 1920 og 1921, þótt sú bygging sje frá 1917. En það sanna er um þá bygging, að bæði kvisturinn og útihúsið (íbúð dyravarðar) var bygt á hinum hentugasta tíma; varð því tiltölulega mjög ódýrt, og það, sem þótti ofreiknað, var endurborgað að fullu. Annars ætti það að vera útrætt mál eftir meira en 5 ár. Hin síðari aðgerðin var höfð svo umfangslítil sem frekast mátti verða, sparað að gera nokkuð, sem ekki var bráðnauðsynlegt til viðhalds.

Um kostnað við embætti lögreglustjóra og bæjarfógeta vísast til ræðu M. G. Aðeins skal því við bætt, að Gróusögurnar um það, að borgaðar hafi verið úr ríkissjóði 10 þús. kr. til þess að gera við skrifstofur lögreglustjóra, eru auðvitað ósannar. Annars veit jeg ekki betur en að fjárveitinganefndir beggja deilda hafi á hverju ári athugað kostnaðinn við þessi embætti sjerstaklega og kveðið á um hann.

Þá eru legátarnir. Nú er verið að finna að kostnaðinum við Lundúnalegátann, sem ávalt var mjög hóflegur. Allir, sem til þekkja, verða að játa, að erindrekinn í London var tiltölulega mjög ódýr. En meinið er fyrir Tímann, að stundum rífst hann út af því, að enginn erindreki sje hafður í London, stundum út af því, að hann hafi verið hafður þar. Sendiherrann í Kaupmannahöfn hefir Framsóknarflokkurinn lýst nauðsynlegan með því að hækka laun hans í fyrra, því að annars hefði hann ekki verið áfram og embættið hefði fallið niður.

Þá er erindrekinn í Miðjarðarhafslöndunum. Hann var þangað sendur eftir ósk þingsins, jeg held einróma, ekki síður að vilja Framsóknarmanna, og jeg tel manninn, er sendur var, hafa verið mjög vel fallinn til starfans fyrir margra hluta sakir. En það get jeg sagt hv. deild, að þeir eru býsna margir, bæði innan þings og utan, sem telja það óheppilega ráðið, að hann var ekki hafður þar áfram.

Þá hefir Tíminn hvað eftir annað borið mjer á brýn óhóflega eyðslu í kostnaði við mannahald við áfengisverslunina. Jeg á að hafa ráðið forstöðumanninn til þriggja ára fyrir afarhátt kaup og einhvern fjölda af mönnum. Sagan satt sögð er þannig: Þegar lögin um eftirlitsmann með lyfjabúðum og um áfengisverslun þá, sem þá var um að ræða, voru á döfinni, þá var hugsað um að fá ákveðinn mann, Christensen lyfsala, til að standa fyrir henni, og það hafði bæði þáverandi stjórn og þingið fyrir augum. En áður en til framkvæmda kæmi, kom yfirlýsing Spánverja um, að ekki fengist lægsti tollur hjá þeim á íslenskum saltfiski, ef ekki væri gerð sú undanþága á bannlögunum, sem kunn er orðin. Af því að jeg vissi ekki, hvernig það mál mundi fara á þinginu (1922), sagði jeg þessum lyfsala, að jeg treysti mjer ekki til að semja við hann til fullnustu fyr en þing kæmi saman. Ef til hefði komið, vildi hann ráða sig upp á 15000 kr. árslaun, eða þá talsvert lægri laun og ágóðahluta. Jeg sagði honum, að launin yrðu að vera föst, og enginn ágóðahluti, og kvaðst búast við, að launahæðin yrði ekki að ágreiningsefni. Hann vildi ekki eiga það á hættu að bíða Alþingis, en benti mjer á þann mann, er nú veitir áfengisverslun ríkisins forstöðu og að minni hyggju er mjög vel fallinn til þess starfa. Við hann samdi jeg til 6 mánaða, með sama kaupi, sem um var talað við hr. Christensen. Þá var ráðinn annar maður til aðstoðar honum, auðvitað til sama tíma. Þetta er öll sú ráðning, sem jeg gerði til þessa starfs, fyrir utan að tilnefna endurskoðanda, eins og lögin ákváðu; annar þeirra var ekki formlega til nefndur, en komið í tal.

Síðar, eftir að jeg hafði fyrir nokkru skilað af mjer stjórninni, mælti jeg með einum manni, sem tekinn var, og hefir sá maður reynst mjög vel í starfinu. Þetta er nú alt og sumt. Samt segir Tíminn ýmist, að óþarfa mannahaldið við áfengisverslunina sje mjer að kenna eða að miklu leyti mjer að kenna. Þegar jeg tala um óþarfa mannahald þar, þá eru það ekki mín orð, heldur Tímans. Jeg ætla engan dóm á það að leggja hjer og nú.

Ritstjóri Tímans segist kveða upp þungan dóm yfir fjárstjórn fyrv. ráðuneytis á grundvelli fjáraukalaganna 1920 og 1921. Þungan áfellisdóm hefir hv. fjárhagsnefnd Nd. kveðið upp yfir Tímanum í þessu máli. Þessi nefnd hefir felt dóm Tímans úr gildi, dæmt hann með öllu rangan og ómerkan. Í nefnd þessari sátu einnig flokksmenn Tímans, og það ekki þeir sístu. Heiður sje þeim fyrir að láta ekki flokksfylgi megna meira en sína eigin sannfæringu og vitund.

Það er í öðru sinni, sem þingið ómerkir orð Tímans og ummæli. Í fyrra fekk blaðið samskonar útreið. Það hafði haldið því fram, að það væri mjer að kenna, að lina varð á bannlögunum vegna samninganna við Spán. Samvinnunefndin í því máli (1922) ósannaði þetta.

Þegar jeg er nú að tala til Tímans, þá er það vitanlega ekki síður til hv. 5. landsk. þm. (JJ), sem jeg beini máli mínu, heldur en til ritstjórans. Og vil jeg þá bæta enn við fáeinum orðum. Í meir en þrjú ár hefir varla komið út það tölublað af Tímanum, að ekki hafi verið ósannar árásir á mig oft í mörgum greinum í sama blaði. Og um kosningarnar í fyrra sumar flóði nú út yfir. Samt þótti það ekki nóg. Sent var út um land rógburðarumburðarbrjef um mig til nokkurra manna, sem taldir voru tryggir fylgismenn Tímans, undirskrifað af Tryggva Þórhallssyni. Í brjefi þessu er ekki ráðist á neinn af öllum hinum mörgu frambjóðendum, nema mig. Til þess nú að sýna það, að það er ekki of mikið sagt, þótt jeg kalli þetta leyniskjal rógburðarbrjef, þá vil jeg með leyfi hæstv. forseta lesa upp svolítinn kafla úr því. Hann er svo:

„Efsti maðurinn á þeim lista, Jón Magnússon fyrverandi forsætisráðherra, er sá maður, sem á undanförnum árum hefir stjórnað landinu aðallega með hagsmuni fáeinna kaupsýslumanna í Reykjavík fyrir augum. Ráðstöfun enska lánsins er hans verk. Athafnir Íslandsbanka og hin afarmikla undanlátssemi við hann eru fyrst og fremst hans verk. Hann hefir a. m. k. síðustu árin algerlega stjórnað andstætt rjettlátum kröfum af hálfu samvinnumanna og bænda. Hann hefir verið einhver hinn allra eyðslusamasti stjórnandi, sem setið hefir við völd á Íslandi, og látið hverskonar óþarfa og prjál vera í fyrirrúmi fyrir öðru nytsamara. Hann reyndist mjög úrskurðarlaus um öll mál, ákaflega eftirlitslaus um alla lagaframkvæmd og eftirlit með embættismönnum og mjög deigur að gæta hagsmuna landsins út á við í einu og öllu.

Jeg ætla að leggja þennan dóm alveg ummælalaust undir hæstarjett alþjóðar, sem fyr eða síðar mun dæma milli mín og Tímaritstjóranna tveggja. En jeg vænti þess, að engan furði á því, þótt jeg noti tækifærið til að tala þessi fáu orð til þessara mótstöðumanna minna.