27.04.1923
Efri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í D-deild Alþingistíðinda. (3482)

81. mál, skipting á veltufé, tapi og uppgjöfum bankanna milli atvinnuvega og héraða

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Það er langt liðið síðan fyrirspurn þessi kom fram. Af því, sem mjer hefir skilist á hæstv. atvrh., sem nú er einnig fjrh., að aðiljar þeir, sem áttu að gefa upplýsingarnar, væru ekki viðbúnir að gefa ítarleg svör, þá finst mjer ekki ástæða til að fara svo nákvæmlega út í málið og ella hefði orðið. Það nægir að benda á þann tvenna tilgang, sem fyrirspurnin felur í sjer. Fyrst að fá vitneskju um, hvernig bankarnir skifta fje sínu milli atvinnuveganna. Sjávarútvegurinn hefir hingað til hlotið mestan hluta veltufjárins. Útvegurinn notar nú nýtísku vjelar og nýtísku skipulag á öllu, sem að sjó lýtur; það er fjárfrekt, enda hefir langmest af. veltufje bankanna horfið þessa leið. Öðru máli er að gegna með jarðræktina; hún er enn þá utangarðs hjá þjóðinni. Landbúnaðinn vantar vetufje til aukinnar jarðræktar og býla. En í stað þess hefir fólkið flúið sveitirnar, og enn þá er straumurinn til kaupstaðanna. Ef fengist glögg skýrsla yfir, hvernig vetufjeð skiftist, þá væri grundvöllurinn fenginn fyrir kröfum sveitanna um rjettátari skiftingu en hingað til.

Þess vegna er þessi þáttur fyrirspurnarinnar, hve mikið hver atvinnuvegur og einstök hjeruð hafi fengið af veltufjenu, nauðsynlegur fróðleikur fyrir þing og stjórn. Og þótt ekki komi ljós svör nú, þá vænti jeg, að þau muni síðar koma.

Þá er hinn þátturinn, hvernig tapið skiftist milli atvinnuveganna og hjeraðanna. Um það vita menn ekki neitt annað en það, að sjerstaklega annar bankinn hefir tapað stórfje; sumt hefir hann gefið upp nú þegar og sumt fær hann vitanlega aldrei borgað, þótt það sje enn þá fært sem eign. Við þessari spurningu á þjóðin heimtingu á að fá svar. Það hefir verið reynt að halda því fram hjer á Alþingi, að þegar stóratvinnurekendur lendi í fjárþröng, þá eigi þjóðin að hlaupa í skörðin. Þá eru tekin stórlán með okurkjörum og þeim fleygt inn í vafasamar lánsstofnanir, sem síðar eiga að ala gjaldþrotsmennina. En á hverjum bitnar þetta? Hver borgar brúsann? það gerir þjóðin, sumpart með háum vöxtum og sumpart með landssjóðsgjöldum. Jeg álít, að ástand síðustu missira hafi sýnt, að það er þörf á því að hafa annað eftirlit með lánsstofnunum og atvinnuvegunum en verið hefir. Það er óskaplegt að láta einstaka menn og stjettir ausa peningum úr lánsstofnununum út í sjóinn fyrir óstjórn og fyrirhyggjuleysi, og láta þetta síðan bitna á öllum almenningi. Jeg get hugsað, að þeir, sem ekki vilja vita neitt um tryggingar fyrir enska láninu, vilji ekkert um þetta vita. En jeg er ekki einn í þeirra tölu. Og þótt ekki fáist fullnægjandi svör nú, mun eigi verða lint á kröfum um fulla vitneskju, fyr en hún er fengin. Það hefir víðar verið farið ógætilega í þessum efnum en hjer. Jeg skal nefna dæmi. Í gær bárust fjesýslumönnum hjer skeyti um það, að 2 bankar í Noregi hefðu stöðvast. Annar þeirra hafði þó fengið mikla hjálp og var álitinn úr hættu. En búist er við, að bankar þessir komist af stað aftur með hjálp ríkisins. Þá skal jeg koma með dæmi, sem sýnir, að hræðslan við að láta vita um slíka hluti er ekki alstaðar jafnrík og hjer. Einn af stærstu bönkunum í Danmörku er Andelsbanken í Kaupmannahöfn. Hann var stofnaður 1914 og hefir 80 útibú víðs vegar um Danmörku. Þessi banki hefir vaxið hraðar en nokkur annar banki í Danmörku, en þó hefir síst á það skort, að aðsúgur hafi verið gerður að honum. Það hefir oft undanfarin ár verið ráðist á hann af miklum móði, venjulega skömmu áður en reikningar hans koma út. En þá hafa árásirnar þagnað, því að það hefir jafnan sýnt sig, að bankinn stóð sig vel. Nú fyrir í skömmu gerðist „kritikin“ hávær. Bankastjórnin baðst þá eftir rannsókn á í hag bankans, og kom þá í ljós, að hann var ágætlega stæður og allur grunur var ástæðulaus. Þetta sýnir, að erlendis eru menn ekki hræddir við að spyrja eða svara. En hjer vilja menn láta skakkaföllin gleymast án rannsóknar eða eftirlits. Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta nú; jeg geri athugasemd seinna, ef svo fer, sem mig grunar, að stjórnin geti ekki gefið fullnaðarsvar nú.