27.04.1923
Efri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í D-deild Alþingistíðinda. (3484)

81. mál, skipting á veltufé, tapi og uppgjöfum bankanna milli atvinnuvega og héraða

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Það fór sem mig varði, að það var ekki hægt að fá nú slíkt svar, sem fyrirspurnin gerði ráð fyrir. Jeg skal taka það fram, að jeg álít stjórnina ekki vítaverða, en bankarnir hafa alls ekki komið fram sem skyldi, er þeir draga svona lengi að senda jafneinföld svör. Jeg tel þetta eftir atvikum sæmilega lausn á málinu, þar sem hæstv. stjórn treystir sjer til að geta á næsta þingi gefið þingheimi glögga skýrslu um þetta mál. Vænti jeg, að bönkunum verði ekki vegna tómlætis leyft að skjóta sjer undan að gefa skýrslur þær, sem þeir eru skyldir að láta yfirboðurum sínum í tje.