14.05.1923
Sameinað þing: 8. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1987 í B-deild Alþingistíðinda. (3497)

Þinglausnir

forseti (MK):

Jeg vona, að það þyki ekki tiltökumál, þótt mig langi til að segja nokkur orð að skilnaði við þetta tækifæri.

Við stöndum nú á nokkurskonar vegamótum, þar sem nýtt kjörtímabil fer í hönd og kosningar standa fyrir dyrum. Það getur líklega enginn með vissu sagt um, hve margir okkar muni eiga afturkvæmt hingað í þingmannasætin. Þess vegna væri ekki ólíklegt, að alvöru- og samúðartilfinningar gerðu venju fremur vart við sig hjá okkur, sem nú erum að skilja. Að minsta kosti er það svo um mig, að mjer eru miklu ríkari í huga hinar mörgu ánægjustundir, sem jeg hefi haft af samvinnunni við flesta hinna hv. þingmanna, heldur en ágreiningsefnin. Það er eins og þau hafi sjálfkrafa dregið sig í hlje og þykist engan tilverurjett hafa á þessari stundu.

Jeg geri ráð fyrir, að okkur geti öllum komið saman um það, að störfin, sem við höfum verið að vinna hjer á þingi, sjeu bæði vandasöm og vanþakklát, og að dómarnir, sem við fáum, sjeu æðioft örgustu sleggjudómar.

Það ber oft við, að ýmsir gasprarar, sem þykjast hafa vit á landsmálum, eru að reyna að telja mönnum trú um, að síðasta þingið í hvert skifti sje það versta, sem nokkurn tíma hafi verið háð; en raunar hefir þessu verið haldið fram mjög lengi, eða síðan þingið var endurreist. Af þessu má sjá, að ef slík afturför ætti sjer í raun og veru stað, þá sannaðist það hjer mjög átakanlega, að lengi getur vont versnað. En þessu er auðvitað einkum haldið fram bæði af föllnum og væntanlegum keppinautum þeirra manna, sem á þingi sitja í hvert skifti, til þess að rýra álit þeirra, og því ekkert mark takandi á því.

Kosningabaráttan, sem nú fer í hönd, verður eflaust nokkuð hörð og snýst líklega að nokkru leyti um það, hvort hollara muni þjóðinni til frambúðar, að hin takmarkalausa samkeppni á öllum sviðum verði eindregið studd og vernduð af löggjafarvaldinu, eða hitt, að fremur verði hlynt að samvinnustefnunni, sem hefir það markmið að reyna að bæta kjör sem allra flestra, en þó einkum þeirra, sem minni háttar eru og erfiðast eiga uppdráttar.

En hvernig sem skipast um framtíðarstefnur og málefni, þá vænti jeg þess, að við allir sjeum einhuga um að reyna af fremsta megni að halda uppi heiðri þingsins, sem verður að skoðast sem fjöregg þjóðarinnar, sem allir ættu að láta sjer ant um að vernda. Hins vegar er ekki nema sjálfsagt, að einstakir þingmenn verði að sætta sig við gagnrýni og óhlutdræga dóma.

Það er álit mitt, að ef þingið verður ekki ver mönnum skipað framvegis en það er nú, þá sje þjóðin ekki öllum heillum horfin.

Að endingu óska jeg öllum þeim háttv. þingmönnum, sem hjeðan eru að hverfa, góðrar ferðar og ánægjulegrar heimkomu.

Þá stóð upp forsætisráðherra, Sigurður Eggerz, og las upp konungsumboð sjer til handa til þess að segja Alþingi slitið.

Samkvæmt því umboði lýsti forsætisráðherra yfir því í nafni konungs, að þessu þrítugasta og fimta löggjafarþingi Íslendinga væri slitið.

Stóð þá upp Jóhannes Jóhannesson,

þm. Seyðf., og mælti:

Lengi lifi konungur vor, Kristján hinn tíundi!

Tóku þingmenn undir þau orð með níföldu húrrahrópi.

Var síðan af þingi gengið.