02.03.1923
Efri deild: 8. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (3508)

3. mál, hjúalög

Sigurður Jónsson:

Jeg ætla mjer ekki að blanda mjer inn í deilur þær, sem hjer hafa risið, en aðeins leita hjá hv. nefnd upplýsinga um það, hvort það fólk, sem vinnur í sveitum vor, sumar og haust, er hjú eða ekki. Mjer finst vanta í frv. þetta skilgreining á því, hvað til þess útheimtist, að verkmaður, sem dvelur lengri eða skemri tíma í sama stað, geti kallast hjú, frekar en kaupamaður, því það ætla jeg að sje nauðsynlegt í svona löggjöf. Setjum nú svo, og þess munu dæmi, að í einum hrepp hjer sunnanlands sjeu 30–40 stúlkur um mesta annatímann, vorið og sumarið, en svo verði aðeins ein eftir yfir veturinn. Á að skoða hana sem hjú, og hvað væru þá hinar? Hjá okkur til sveita er sá maður ekki álitinn hjú, sem ræður sig um stuttan tíma upp á viss daglaun eða vikulaun. Því er gott að fá það skýrt ákveðið, hvað álíta beri hjú. Við erum ekki að grenslast eftir, hvar slíkt fólk á lögheimili, en jeg skil ekki, að það geti átt lögheimili á einum stað, en verið hjú á öðrum stað.

Það hefir verið margtekið fram hjer, að hjúatilsk. hefir nú gilt um 60 ár, án þess að breytingar væru gerðar á henni. Þetta bendir til þess, að um þetta efni þarf ekki margbrotin lög. Þetta er aðeins verslun með vinnu, og þeir, sem vilja sem minst höft á frjálsri verslun, ættu ekki að gera þessa grein verslunarinnar haftameiri en hún hefir áður verið. Jeg hefi ráðið mörg hjú um dagana, og mín grundvallarregla hefir verið sú, að jeg hefi ekki ákveðið neitt vist kaup, heldur sagt: Þið skuluð fá kaup eins og gengur og gerist hjer um slóðir, og það hefir altaf farið vel. Þetta er eins og hver önnur viðskifti og háð sama lögmáli. Eftir frumvarpinu, eins og það liggur nú fyrir, skilst mjer, að sami maðurinn geti verið hjú á fjórum stöðum á sama almanaksári. Þegar svo stendur á, hygg jeg, að af því mundi leiða rugling og rjettaróvissu í ýmsu tilliti.