23.03.1923
Neðri deild: 27. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

92. mál, hlunnindi

Flm. (Jakob Möller):

Vjer flm. þessa frv. flytjum það eftir tilmælum þeirra manna, sem getið er í 1. gr. þess, að tekist hafi á hendur að koma á fót bankastofnun þeirri, er hlunnindanna er leitað fyrir.

Frv. er samið af þessum mönnum, og ber að skoða það sem tilboð eða samningsgrundvöll af þeirra hálfu.

Vjer flm. eigum að sjálfsögðu óbundin atkv. um einstök atriði þess.

Frv. er sniðið eftir samskonar frv., sem lagt var fyrir Alþingi 1920, þó þannig, að upp í það hafa verið teknar í aðalatriðum þær breytingar, sem fjárhagsnefndir beggja deilda 1920 höfðu orðið ásáttar um að leggja til, að gerðar yrðu á því, ef til þess hefði komið, að það hefði orðið afgreitt. Jeg skal geta þess hjer, að ein prentvilla hefir, því miður, slæðst inn í d-lið 1. gr. frv. Þar stendur, að 15% af hlutafjenu skuli lagt til varasjóðs, en á auðvitað að vera 15% af ársarðinum. Bið jeg hv. deild að athuga þetta.

En þó að vjer flm. hefðum kosið að gera einhverja breytingu á frv., þá var það í raun og veru ástæðulítið, því það á að sjálfsögðu að vera hlutverk þeirrar nefndar, er um málið fær að fjalla, að gera á því þær breytingar, sem nauðsynlegar kunna að vera.

Það er ekki ástæða til þess, og það á heldur ekki við, að fara út í einstök atriði frv. að þessu sinni. Það, sem sjerstaklega ber að athuga á þessu stigi málsins, er aðeins það aðalatriði, hvort nokkur þörf sje slíkrar bankastofnunar, sem hjer er um að ræða. Og jeg hygg, að flestir hv. þingdm. verði mjer sammála um, að þeirri spurningu sje fljótsvarað. Það vita allir, að bankar landsins hafa veltufje af svo skornum skamti, að hin mestu vandkvæði hafa af hlotist, og þau vandkvæði há mjög öllum viðskiftum og framkvæmdum í landinu. Í svipinn verður ekkert um það fullyrt, hvort fiskiútgerð á í hönd farandi vertíð verður rekin með fullu fjöri eða hún lamast að meira eða minna leyti sökum veltufjárskorts. — Viðskiftavelta landsins hefir margfaldast síðasta áratug, en starfsfje bankanna staðið í stað, eða því sem næst. Á síðustu árum hafa bankarnir og atvinnurekendur landsins orðið fyrir allmiklu tjóni, svo að veltufjeð hefir fyrir þá sök minkað að mikltun mun.

Viðskiftavelta og atvinnuvegir landsins krefjast þó litlu eða engu minna veltufjár nú en á mestu veltiárunum, og margfalt meira en fyrir einum áratug síðan. Það er því auðsjeð, að brýn nauðsyn er á því að auka veltufjeð frá því, sem nú er. En til þess eru aðeins tvær leiðir. Annaðhvort að útvega bönkum þeim, sem nú eru starfandi, meira fast starfsfje með hlutafjáraukningu eða föstum lánum, eða þá að koma á fót nýjum banka. Eins og nú er ástatt, mun aðeins ein leið til þess að auka starfsfje bankanna, sem sje lántaka á ábyrgð ríkissjóðs. Jeg hygg þó, að það úrræði fái lítinn byr hjer, og ef bæta á úr veltufjárskortinum, þá sje jeg því ekki, að til þess sje nema ein leið, að greiða sem best fyrir nýrri bankastofnun, sem gæti fengið megnið af starfsfje sínu erlendis sem hlutafje og viðskiftalán.

Jeg og aðrir flm. þessa frv. lítum því svo á, að hjer sje um hið mesta nauðsynjamál að ræða, og hikum ekki við það að ráða hv. deild til þess að greiða sem best fyrir því.

Þó að um það sje að ræða að veita nýjum banka hlunnindi, þá má ekki einblína á það, hve mikils þau hlunnindi sjeu verð fyrir þá, sem þeirra eiga að njóta. heldur verður að meta það jafnhliða, hvað fæst í aðra hönd.

Og jeg legg áherslu á það, að þessi hlunnindi, sem um er að ræða, koma fyrst og fremst landsmönnum sjálfum til góðs, ef það fæst fyrir þau, að bætt verði úr veltufjárskorti þeim, er atvinnuvegir landsins eiga nú við að búa. Hins vegar eru þessi hlunnindi þegar veitt öðrum banka um jafnlangan tíma og ætlast er til, að hinn fyrirhugaði nýi banki njóti þeirra. En geti sá banki, sem fyrir er, fundið einhver ráð til að fullnægja veltufjárþörfinni, þá fengi ríkið þó ekkert meira fyrir hlunnindin með því móti. Er því í raun og veru litlu til kostað.

Að svo komnu sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið, en vænti þess, að frv. verði, að þessari umr. endaðri, vísað til fjhn.