23.03.1923
Neðri deild: 27. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

92. mál, hlunnindi

Magnús Kristjánsson:

Það mun rjett hjá hv. flm. (JakM), að frv. þetta, sem hjer liggur fyrir, sje skylt frv. frá 1920, en um hitt, að það frv. hafi haft mikið fylgi, tel jeg vafasamara. Að minsta kosti minnist jeg þess ekki, að það fylgi kæmi í ljós. Gæti jeg trúað því, að líkt færi um fylgi þessa frv., að það reyndist tæplega nægilegt.

Jeg geri ráð fyrir því, að það þyki varla þörf á því, og að engu leyti æskilegt, að veita nýjum, erlendum hlutabanka leyfi til að taka á móti sparisjóðsfje og innlánsfje landsmanna. Er þetta ein ástæða þess, að jeg get ekki orðið frv. þessu fylgjandi.

Hv. flm. frv. leiðrjetti prentvillu, að því er hann sagði, í 1. gr. frv. Skal jeg ekki um það dæma. hvort um prentvillu hefir verið að ræða eða hv. aðstandendur frv. hafa sjeð sig um hönd, en hvort sem heldur er, þú mun það hafa verið hyggilegast, því að ef það hefði staðið, álít jeg að fella hefði átt frv. frá 2. umr. En úr því, að þetta hefir verið leiðrjett, — af hvaða ástæðu sem er, — skal jeg ekki fara út í það, en snúa mjer að öðrum ástæðum, sem eru gegn frv.

Verður mjer þá fyrst fyrir að líta til þeirrar reynslu, sem við höfum fengið af þeim erlenda hlutabanka, er við nú höfum og hliðstæður er þessum fyrirhugaða banka hvað grundvöll og fjárframlög snertir. Jeg held, að sú reynsla hafi fært okkur heim sanninn um það, hve mikill fengur það var fyrir okkur að fá það útlenda fje, hugsa jeg, að það sje almenn skoðun, að það fje sje nú orðið alldýrkeypt, þegar tillit er tekið til allra þeirra kvaða, sem því fylgdu, og afleiðinga þeirra. Verð jeg að minnast á þetta, þótt af skiljanlegum ástæðum sje ekki hægt að fara langt inn á þetta mál nú við 1. umr. Það er mín sannfæring, að slíkum rekstri sje best komið hjá þjóðbankanum. því ella lendir hagnaðurinn hjá öðrum en landinu. Er jeg því algerlega mótfallinn því, að útlendir hlutabankar fái gróðann af slíkum starfsrekstri. En þá vík jeg að því, sem jeg tel mestu hættuna í þessu máli. Og það er það, að þegar þessir bankar hafa lánað mikið fje út, bæði einstökum mönnum og fyrirtækjum, og svo kemur það fyrir, sem reynslan hefir sýnt, að hagurinn hnignar, þá verður endirinn sá, að bankinn leitar á náðir löggjafarvaldsins um styrk og ýms hlunnindi. Hefir nú, að mínu áliti, of langt verið gengið í því að styðja útlendan hlutabanka með hlunnindum, að ýmsu leyti á kostnað og ábyrgð þjóðfjelagsins.

Bankastarfsemin grípur inn í líf svo margra einstaklinga, að þeir, sem hafa orðið fyrir því láni, eða óláni, að komast í skuldir við stofnunina eða á annan hátt eru háðir henni, þeir beita áhrifum sínum til þess að hún verði styrkt og vernduð af því opinbera. Þeir gera það ekki einungis af hlífð við hluthafana, heldur og af ótta fyrir því, að stofnunin gangi annars of hart að þeim við innheimtu skuldanna. Búast má við óhollum afleiðingum af þessu. einmitt vegna ótta viðskiftamannanna við kröfur hennar. Þetta hefir nokkuð komið í ljós við reynslu á starfsemi Íslandsbanka; og hætt er við, að búast megi við því sama um þessa stofnun og aðrar líkar, sem upp kynnu að koma í landinu.

Jeg get geymt að ræða þetta frekar þangað til málið kemur aftur fyrir deildina.

Hvað sem líður þeim ágóða, sem kynni að leiða af þessari stofnun, þó að hún að einhverju leyti kynni að verða talin sem fyrirtæki innlendra manna, þá tel jeg það ekki afar þýðingarmikið atriði að fá þetta fje inn í landið nú. Ein miljón krónur er ekki stórfje eins og nú er ástatt, og þó að hún kæmi inn í landið, mundu innlendir menn varla hafa hagsmuni af því, heldur mundu útlendingar njóta þess. Norðmenn — eigendur hlutafjárins — nota það líklega að mestu í sínar þarfir. Það hefir gengið svo, að þeir útlendingar, sem hjer hafa starfað að atvinnurekstri, hafa fengið fje til sinna þarfa hjer á landi í bönkunum, en greitt það aftur inn í viðskiftareikning þeirra í erlendum bönkum með útlendum gjaldeyri. Þetta veitir bönkunum allmikla hagsmuni nú, sem mundu að mestu hverfa, þegar viðskifti útlendinga minka við þá. vegna hinnar nýju stofnunar.

Margt fleira mætti segja um málið, þó að jeg láti nú staðar numið. Jeg tók eftir því, að hv. flm. (JakM) vildi vísa frv. til fjhn., en hygg, að mönnum virðist mínar undirtektir eigi gera það fýsilegt, og sýnist því, ef til vill, ástæða til að vísa því heldur til einhverrar annarar nefndar, sem væri því hlyntari. Með þessu vil jeg ekki segja, að mín áhrif ráði svo miklu í nefndinni, en þó gæti verið, að þau mundu tefja það, ef nefndin klofnaði. Málinu mundi því haganlegra að ganga til annarar nefndar.