24.03.1923
Neðri deild: 28. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

92. mál, hlunnindi

Flm. (Jakob Möller):

Jeg ætla að byrja með því að taka það fram, að jeg býst ekki við, að geta gefið neinar þær upplýsingar í þessu máli, sem breytt fái áliti háttv. samþm. míns. 2. þm. Reykv. (JB). Jeg geri nefnilega ekki ráð fyrir því, að það hefði nein áhrif á hans skoðun, hversu góðar upplýsingar sem jeg kæmi með, því það er vitanlegt, að afstaða hans er fyrirfram ákveðin. Mætti mönnum þó koma það undarlega fyrir sjónir, því ætla mætti, að þeim mönnum, sem hann er aðallega fulltrúi fyrir, þætti ekki lítils um vert að fá fje inn í landið til þeirra fyrirtækja, sem þeir hafa aðallega atvinnu við. Hann ætti þó að vita um, hvernig ástatt er um togarana, sem liggja núna inni í höfn, sökum þess, að þeir fá ekki fje til rekstrar. Honum ætti þó ekki að þykja einskisvert að fá því breytt. Annars býst jeg ekki við því, að hann sjái þetta ekki, heldur standi flokkskredda að baki, sem jeg leiði minn hest frá að kveða niður. En sumar mótbárur hans falla saman við athuganir hv. þm. Ak. (MK), þótt hann annars tæki aðra afstöðu til málsins, og er ekki úr vegi að fara nokkuð út í þau atriði.

Sameiginlegt með báðum þessum hv. þm. er það, að þeim finst sá agnúi vera á frv., að bæjarfjelag og ríkissjóður missi tekna við það. En þetta er sýnilega rangt, því væri bankinn ekki stofnaður, þá er vitanlegt, að ríkissjóður og bæjarfjelag fá engar tekjur af honum, og er því ekkert að missa. En eins og frv. ber með sjer, þá fær bæjarsjóður og ríkissjóður tekjur af bankanum, ef vel gengur; auk þess sem hann hlýtur að veita ýmsum mönnum atvinnu, sem að sjálfsögðu greiða gjöld til ríkis og bæjar. Og vitanlega á bankinn sjálfur að greiða fasteignaskatta; það er aðeins útsvarið til bæjar, sem hann er undanþeginn, og tekjuskatturinn til ríkissjóðs takmarkaður. Háttv. þm. Ak. (MK) talaði á þann veg, að halda mætti, að hann þekti allar bankastofnanir að illu einu, og gat hann þess, að margir óskuðu að Íslandsbanki hefði aldrei verið stofnaður. Það má vel vera, að sumum sje svo farið, en ýmislegt mundi þó líta öðruvísi út hjer, ef hann hefði aldrei komist á fót. Og þótt peningatap hefði þá ef til vill ekki orðið hjá einstökum mönnum, þá er þess vel að gæta, að það hefði aðeins verið vegna þess, að ekki hefði verið svo í haginn búið fyrir menn, að þeir gætu ráðist í neitt. En öllum fyrirtækjum fylgir nokkur áhætta; sú hætta er altaf til staðar, en án þess að hætta einhverju verða engar framfarir, heldur tóm kyrstaða um aldur og æfi. Og megi ekki stofna nýjan banka fyrir þessar sakir, þá væri alveg eins mikil skynsemi í því að hætta allri útgerð, vegna þess að manntjón og skiptapar geta af því hlotist. Sú hætta er altaf við hendina og verður varla umflúin. Það er sorglegt, en hjá því verður ekki komist.

Háttv. þm. Ak. (MK) talaði líka um það, að þessum banka væri aðallega ætlað að starfa að norskum viðskiftum og þau viðskifti væru tekin af hinum bönkunum og hefðu verið sjerstaklega hagstæð fyrir þá, sökum þess, að norskir útgerðarmenn hefðu lagt fje inn í bankana til útgerðarinnar að sumrinu. Það er satt, að það átti sjer stað, en hins vegar er ótímabært að tala um það nú, þegar útgerðin er að mestu leyti að komast í hendur innlendra manna, eins og líka á að verða. En þar af leiðir, að eftirleiðis þurfa íslenskir útgerðarmenn að afla sjer rekstrarfjár hjer, en fá það ekki í Noregi. Þörfin hefir því aukist við breytinguna. Hitt er það, að síldveiðarnar hljóta altaf að skapa mikil viðskifti við Noreg, og ekki nema eðlilegt að þessi nýi banki tæki að sjer mikið af þeim. Og það væri ekki nema hagræði að því fyrir hina bankana og gerði þeim auðveldara að standa straum af því, sem þá er eftir. Og eitt er víst, ef áhætta fylgir öllum bankarekstri, eins og hv. þm. Ak. (MK) leggur svo mikla áherslu á, þá verður þeirri áhættu dreift á fleiri hendur, eftir því sem bankarnir verða fleiri.

Annars get jeg þakkað háttv. þm. Ak. fyrir undirtektir hans í þessu máli. Yfirleitt var hann því ekki sjerstaklega mótfallinn, þótt hann hins vegar bæri í brjósti óttann um áhættuna, sem af þessu fyrirtæki geti stafað, og bjóst við í því sambandi, að fyrir gæti komið, að bankinn yrði síðar að leita á náðir ríkisins á sama hátt og Íslandsbanki. En hjer er öðru máli að gegna, þar sem Íslandsbanki er aðalseðlabanki landsins.

Háttv. samþm. minn (JB) hreyfði ýmsum mótbárum. Hann spurði um það, hvað bankanum yrði ætlað að starfa. Það er ekki sjerstaklega til tekið, en auðvitað er honum ætlað að annast venjuleg bankaviðskifti, sjerstaklega útgerð, en fasteignaveðbanki býst jeg ekki við að hann verði. Og hvað svo sem hann tæki fyrir, þá mundi hann altaf ljetta á hinum bönkunum. Þeir myndu þá t. d. frekar hafa fje aflögu til fasteignalána. Hvað því viðvíkur, að hjer sje engin þörf á viðskiftabanka, þá liggur í augum opið, að það er sagt út í loftið. Háttv. þm. (JB) talaði einnig um hlunnindin, sem þessum nýja banka væri ætlað að njóta, og vitnaði til Íslandsbanka. En hann mintist þó ekki á seðlaútgáfurjettinn, sem sá banki hefir, en þessum nýja banka ekki hins vegar ætlað að njóta hlunnindanna lengur en Íslandsbanki hefir seðlaútgáfurjettinn.

Hvað viðvíkur sparisjóðsfjenu og áætluninni við það, þá er slíkt umtal engin ný bóla. En það er samt tómur orðaleikur. Sparisjóðsfje mundi bankinn altaf fá, annaðhvort beint eða óbeint. Meira að segja er engin ástæða til að halda, að bankinn fengi ekki sparisjóðsfje, þótt hann fengi ekki heimildina, sem frv. fer fram á: aðeins mundi það verða undir öðru nafni. Og hvað trygging þessa snertir, þá er það ekki ver trygt í þessum fyrirhugaða banka en gert er ráð fyrir í sparisjóðslögunum. Því auðvitað er það ekki aðeins trygt með þeim 10% af sparisjóðsfjenu, sem bankinn skal, samkvæmt frv., hafa utan við veltuna í auðseldum verðbrjefum, heldur er það trygt með öllu hlutafje bankans. Sami háttv. þm. talaði um undantekningu frá þrennum lögum, er frv. hefði í för með sjer. En þetta er misskilningur, og þó afsakanlegur Frá hlutafjelagalögunum, þarf enga undanþágu. Í þeim lögum er hvergi gert ráð fyrir því, að meiri hluti hlutafjárins sje innlent, enda ómögulegt að hafa eftirlit með því. Með tekjuskattslögin er það sama að segja, því hjer er aðeins farið fram á nokkra ívilnun í tekjuskatti um stuttan tíma. Og þó svo væri, að bankinn ætti að sleppa við skattinn algerlega, þá væri engin ástæða til þess að vera á móti frv. þess vegna. Því um tvent er að velja. Ef engin hlunnindi væru veitt, yrði enginn banki stofnaður, og væri þá um engar tekjur af honum að ræða; og sama er um útsvarið að segja, en hins vegar bersýnilegur gróði að því fyrir bæjarfjelagið, ef hann væri stofnaður.

Þá var að því fundið, að ríkið sjálft eða ríkisstjórnin hefði ekkert eftirlit með bankanum og engin afskifti af honum. En samanburður í því efni við Íslandsbanka á hjer ekki við, þar sem hann er seðlabanki en hinn „prívat“-banki. Og mjer vitanlega standa slíkir bankar hvergi undir eftirliti ríkisstjórnanna. En vitanlega verður bankinn þó að sjálfsögðu háður því almenna bankaeftirliti, sem hjer kann að verða lögskipað, að minsta kosti samkvæmd sparisjóðslögunum, ef hann fær sparisjóðsrjettindi.

Jeg held líka, að það væri að öðru leyti eftirsóknarvert og æskilegt að fá hjer þriðja bankann, sem óháður væri öllum pólitískum áhrifum. Það mundi vafalaust hafa góð áhrif á bankaviðskifti í landinu, sem hingað til hafa verið nokkuð einokunarkend, eða í þá áttina, ef svo má segja. Það væri að minsta kosti gott að fá meiri samkepni. Jeg veit að vísu, að þetta fellur ekki saman við skoðanir háttv. samþingismanns míns (JB), en það þarf nú ekki að vera verra fyrir það. Yfirleitt er jeg talsvert hissa á þeirri niðurstöðu, sem hann komst að að lokum. Því forsendurnar, að svo miklu leyti, sem þær voru nokkrar, voru smávægilegar eða fjarri lagi, svo að yfirleitt má segja, að röksemdafærsluna fyrir niðurstöðunni hafi vantað, og þá fer nú að fara glansinn af niðurstöðunni sjálfri.