30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

92. mál, hlunnindi

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller):

Það ætti ekki að þurfa að hafa langar umræður um þetta mál nú. eins og síldarfrv., sem seinast var fjallað um, þó að sumir telji þetta ef til vill mikilvægara. Þetta mál er búið að liggja svo lengi fyrir þinginu, að þm. eru vafalaust búnir að mynda sjer ákveðnar skoðanir á því, og er þá þýðingarlítið að halda um það langar ræður.

Jeg vil aðeins geta þess, sem vakir fyrir meiri hl. nefndarinnar, er vill að frv. verði samþykt. Meiri hl. álítur ávinning fyrir landið, að þessi banki verði stofnaður, því að þjóðin ætti þá kost á meiru af erlendum gjaldeyri. Í öðru lagi er því svo varið, að báðir bankarnir, sem hjer eru fyrir, eru í raun og veru ríkisbankar, og líta margir svo á, að nauðsynlegt sje að koma hjer upp einkabanka líka.

Af því að þeir bankar, sem hjer eru fyrir, njóta ekki einungis sömu hlunninda og farið er fram á handa þessum nýja banka. heldur miklu meiri, sem fólgið er í lánum og ábyrgðum frá ríkinu, þá er ekki hægt að hugsa sjer, að neinir sjái sjer fært að stofna hjer banka, nema hann fái líka einhver hlunnindi. Að öðrum kosti gæti hann ekki staðist samkepnina. Bankinn verður því ekki stofnaður nema hin umbeðnu hlunnindi fáist.

Nefndin hefir þó álitið fært að gera nokkrar breytingar á frv.

Í fyrsta lagi, að bankanum verði ekki veitt regluleg sparisjóðsrjettindi, enda telur meiri hl. nefndarinnar, að það skifti ekki svo miklu máli, hvort hann hefir þau eða ekki. Hitt er aftur á móti alstaðar venja, að bankar veiti móttöku innlánsfje, enda þótt það sje ekki sparisjóðsfje, og það er þessum banka ætlað að gera. Háttv. minni hl. telur þetta lítilsverða breytingu, því að bankinn fái þá innlán, sem jafngildi sparisjóðsrjettindum. En þetta er ekki rjett, því ávalt er talin vera meiri trygging fyrir því fje, sem er í sparisjóði, heldur en því, sem lagt er inn sem innlán. Menn munu því yfirleitt leggja fje sitt inn í sparisjóð Landsbankans heldur en í þennan banka.

Í öðru lagi taldi nefndin rjett að hækka skattgjaldið til ríkissjóðs af hreinum arði bankans. þegar búið er að draga frá það, sem ákveðið er til varasjóðs o. fl., eins og sjest á þskj. 448. Þetta munar allverulegu frá því, sem upphaflega var hugsað.

Annars sjest það glögt, hver nauðsyn er á þessari nýju bankastofnun, þegar athugað er, hversu viðskiftavelta landsins hefir aukist; er ljóslega sýnt fram á þetta í nefndaráliti nefndarinnar frá 1920. Frá því að Landsbankinn var stofnaður til 1904, er Íslandsbanki var stofnaður. þrefaldaðist útflutningurinn, en síðan hefir hann fimmfaldast. Þar við bætist, að fjárkröggur hjer heima fyrir og erlendis gera stórum erfiðara fyrir um lánstraust bankanna, þó að ekki verði annað sagt en að þeir njóti sæmilegs trausts. En ef skortur er veltufjár til atvinnuveganna, verður að afla viðbótarinnar annaðhvort með því að auka fast starfsfje bankanna eða með auknum lánum. Á þingi 1920 var því beint til stjórnarinnar að athuga, hvort ekki væri fært að auka starfsfje Landsbankans með hlutafje. Hefir ekkert verið gert í þá átt, og hygg jeg að ekki verði gert. Um að auka hlutafje Íslandsbanka verður varla að ræða í náinni framtíð. Það er því ekki sjáanleg nema ein leið til að afla atvinnuvegunum meira rekstrarfjár, sem sje að stofna nýjan banka. Því að jafnvel þó að hægt væri að afla bönkunum, sem fyrir eru, meira lánstrausts, þá er sú leið mjög varhugaverð að byggja alt of mikið á því. Höfum við fengið að kenna á því áður.

Meiri hl. nefndarinnar er því fylgjandi þessum heimildarlögum, er gera ljettara fyrir um stofnun þriðja bankans; fyrst og fremst af því að hann eykur rekstrarfje í landinu, og tryggir í öðru lagi lánstraust þess.

Háttv. minni hl. nefndarinnar hefir skrifað langt nefndarálit, og í því er fátt nýtt eða verulegt, sem ástæða er til að minnast á. Hann talar um, að við viljum fara með bankana eins og verslanir, sem þrífist nú líkt og kýrnar forðum á Egyptalandi. Þetta er að skjóta yfir markið. Hjer eru nú starfandi aðeins 2 bankar, og þó að við bættist sá þriðji, getur það ekki leitt til hættulegrar samkepni. Hinn væntanlegi ríkisveðbanki hefir sitt sjerstaka svið, alveg óskylt starfsviði venjulegra viðskiftabanka.

Þá getur hann um væntanlegan samvinnubanka. Það skyldi gleðja mig, ef hann yrði stofnaður; en mjer er bara ekki ljóst, hvaðan hann ætti að geta fengið veltufje og hvernig hann getur bætt úr gjaldeyrisþörfinni. Jeg geri líka ráð fyrir, að honum muni ætlað sjerstakt verksvið; hann mun hafa sína sjerstöku stuðningsmenn, og þá um leið ákveðna viðskiftavini. Þessi nýi banki getur því ekki spilt fyrir stofnun samvinnubanka.

Þá gerir háttv. minni hl. mikið úr þeim hlunnindum, sem bankinn eigi að fá. Jeg dreg enga dul á það, að þau eru töluverð; annars væri ekki hægt að stofna bankann, og ef hlunnindin væru ekki óhjákvæmileg, hefði þetta frv. ekki fram komið; þá hefði bankastofnunin ekki verið lögð undir atkvæði háttv. þm. Ak. (MK). nje annara háttv. þm., og hann ekki þurft að skifta sjer af honum. Það er meiningin að veita nýja bankanum sem líkasta aðstöðu og hinir bankarnir njóta gagnvart bæjarfjelaginu og ríkissjóði. En hins vegar missir hvorki ríkissjóður nje bæjarsjóður neins í, þó að bankanum sje slept undan skattgreiðslum, því yrði það ekki gert, fengi hvorugur sjóðurinn þó tekjur af honum, því að hann yrði þá alls ekki stofnaður.

Jeg get tekið undir það með háttv. minni hl., að ekki megi veita bankanum hlunnindin fyrri en hlutafjeð er innborgað; enda liggur það í hlutarjns eðli, að slíkt verður ekki gert.