30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

92. mál, hlunnindi

Frsm. minni hl. (Magnús Kristjánsson):

Jeg er fullkomlega sammála háttv. frsm. meiri hl. (JakM), að langar umræður um þetta mál hafi litla þýðingu, og það því fremur, sem jeg ætla, að búið sje að starfa svo rækilega um langan tíma að því að afla þessu máli fylgis á meðal þingmanna. En þrátt fyrir það, er það alls ekki sannað, að málið sje eins holt þjóðinni eins og háttv. frsm. meiri hl. vill halda fram. Má vera, að það sje hans sannfæring; ekki vil jeg draga það í efa, að svo sje. En jeg hefi þó álitið, að hann væri sá maður, sem vænta mætti að bæri nokkurt skyn á þessa hluti. Þess vegna undrar mig, að hann skuli halda því fram, að þessi nýja bankastofnun verði ekki til að spilla fyrir þeim bönkum, sem fyrir eru og gera þeim meira ógagn en gagn, og enn fremur þeim banka, sem bráðlega á að stofna. Í þessu landi veltur mest á því, að bankaviðskiftin út á við sjeu rekin á heilbrigðum grundvelli; en ef fulltrúar þjóðarinnar láta sjer í ljettu rúmi liggja, hvort staðið er í skilum, hvort heldur er af hálfu ríkisins eða einstakra manna, þá fer það að verða skiljanlegt, að þeir vilji óspart veita útlendu fje inn í landið. Ef ekkert þarf að hugsa um, hve nær kemur að skuldadögunum, þá mætti máske telja gott, að hver og einn fengi að krafsa saman sem mest lánsfje til eigin nota og vafasamra fyrirtækja. En jeg er aftur á móti sannfærður um, að það er hvorki holt eða heppilegt fyrir bankana eða þjóðina að stofna til meiri skulda við útlönd en orðið er. Því er haldið fram af flutningsmönnum þessa frv., að landsmenn fái með því greiðari aðgang að fje til verslunar og útgerðar. Má vera að svo sje, en það getur brugðið til beggja vona, hversu mikið gott mundi af því leiða, eins og nú er ástatt. Jeg skal geta þess, að jeg tel okkur ríða langmest á að grynna á skuldunum erlendis. Jeg hygg það sje flestum ljóst, að atvinnuvegirnir standa nú svo völtum fæti, að það er mjög hæpið, að menn geti farið að ráðast í kaup á nýjum og dýrum tækjum, t. d. til sjávarútvegs. En verði það ekki gert, þá er ekki þörf á auknu erlendu fje til útvegsins; jeg býst heldur ekki við, að það sje ætlunin. Enda eru söluhorfur á afurðunum þannig, að það er ekki nokkurt vit í að hvetja menn til aukinna framkvæmda á því sviði. Þetta vænti jeg, að háttv. frsm. meiri hl.(JakM) sjái og skilji við nánari athugun. Þá segja sumir, að nauðsyn sje á þessu fje til landbúnaðarins. En þó að þörfin sje þar brýnust og það gæti talist vel verjandi að taka erlent lánsfje handa honum, þá vita allir, að það er ekki til þess ætlast af forgöngumönnunum, að varið verði fje úr þessum banka til ræktunar landsins.

Á þá að verja því til verslunarrekstrar eingöngu ? Ef það er tilgangurinn, sem jeg geri ráð fyrir, þá verð jeg að segja, að jeg álít að gengið hafi verið altof langt í því á undanförnum árum að leggja fje í verslunarveltuna, enda er það vitanlegt, að miklu af því fje hefir verið varið illa og þjóðinni til tjóns. Jeg get því ekki orðið háttv. frsm. meiri hl. (JakM) samferða eða álitið þetta útlenda bankafje eins mikinn feng og hann virðist gera. Hann sagði, að hjer væri margt að gera og að nauðsynin væri auðsæ; en mjer nægði ekki þessi rökstuðningur hans.

Háttv. frsm. meiri hl. fullyrti, að þar sem nú störfuðu aðeins tveir ríkisbankar í landinu, þá væri nauðsynlegt og vel við eigandi að stofna þriðja bankann, sem einkabanka. Jeg get ekki fallist á, að þetta sje rjett. Jeg veit ekki, við hvaða lög það styðst, að Íslandsbanki sje ríkisbanki, og mótmæli því eindregið.

Jeg get ekki fallist á þá skoðun, að ríkinu beri skylda til að standa straum af þessum banka, og er auðvelt að sanna, að sú röksemdaleiðsla hv. frsm. meiri hl. getur ekki staðist.

Þá var eitt atriði enn í ræðu hv. frsm. meiri hl., sem raunar þýðir ekki að deila mikið um, en sýnir þó ljóslega skýrleikann í hugsun hans og röksemdum. Hann hjelt því nefnilega fram, að það væri alt annað, að bankinn hefði rjett til að taka á móti innlánsfje en að hann hefði sparisjóðsrjettindi. En jeg fæ ekki betur sjeð en að hjer sje einungis um orðamun að ræða. Hann sagði, að menn hefðu það ósjálfrátt á meðvitundinni, að munur væri á þessu. Þetta verð jeg að halda veigalitla röksemd, enda er ekki við því að búast, að maður, sem veit betur en hann segir, vilji hætta sjer út í þá torfæru að rökstyðja þetta nánar.

Þá vil jeg minnast á eitt atriði, sem hv. frsm. meiri hl. gat um við 1. umr. Mjer þótti ekki ástæða til að svara því þá, með því að jeg bjóst við, að málið mundi koma til 2. umr., eins og líka er komið á daginn. Hann var að tala um það, að sjer kæmi einkennilega fyrir sjónir, að menn væru að hreyfa mótmælum gegn svona þörfu máli, og fann ekki annað orð yfir það en að það væri flokkskredda, sem rjeði því. Þessu finst mjer víkja undarlega við, þar sem mjer er ekki annað kunnugt en að sumir hv. þm. þess flokks, sem sneiðina mun hafa átt, sjeu flm. frv. Er því ástæða til að fullyrða, að þessi ummæli sjeu gripin úr lausu lofti.

Við þetta sama tækifæri mintist hann enn á það, að landið gæti einskis mist í við það, þótt bankanum væri veitt skattfrelsi, og yrði það undir öllum kringumstæðum fremur til gagns en ógagns. Þessi ummæli geta ekki talist viðeigandi, nema þá ef vera kynni, að þau þættu frambærileg í málsinnleggi einhvers sniðugs málfærslumanns, en hjer á þessum stað er engin von til þess, að þau verði tekin sem góð og gild vara.

Næst vil jeg þá snúa mjer að tillögum meiri hl. nefndarinnar um tekjur ríkissjóðs af bankanum. Þó hún hafi bætt þau ákvæði nokkuð frá því, sem var upphaflega í frv. flm., þá verður þó tæplega sagt, að þau sjeu viðunanleg. Jeg hefði þó getað búist við, að hv. frsm. meiri hl. myndi eftir, hvaða skoðun hann hafði fyrir þremur árum síðan, er samskonar mál var til umræðu hjer í þinginu. Þá viðhafði hann ummæli, sem hann nú er horfinn frá. Vera má að breyttar kringumstæður rjettlæti þetta hverflyndi, en jeg fæ þó ekki sjeð í hverju það liggur.

Það stendur m. a. í nefndaráliti samskonar nefndar á þinginu 1920, að ekki sje nema sjálfsagt, að landsmenn sjálfir hafi öll yfirtök slíkrar bankastarfsemi. En langur vegur er frá, að með frv. sjálfu eða till. meiri hl. nefndarinnar sje því náð, sem þá var talið svo nauðsynlegt. Það hefði máske verið rjett af minni hl. að koma með brtt. við frv. þetta, sem færi í líka átt og nál. 1920. En skoðun mín er sú, að æskilegast sje, að málið nái alls ekki fram að ganga, enda hefðu brtt. orðið að vera svo gagnorðar, að lítið hefði orðið eftir af upphaflega frv.

Þá er það annað atriði í nál. 1920, sem sýnir, hversu mönnum hefir þá þótt nauðsynlegt, að sem tryggilegast væri um alla hnúta búið, þar sem kveðið er á um það, hvað gróði bankans megi vera mestur. Ekki eru sýnileg nein ákvæði um þetta í frv. núna. En vel má vera, að hv. 1. þm. Reykv. (JakM) taki við 3. umr. upp í frv. þau ákvæði, sem hann taldi óhjákvæmileg þá, og væri það auðvitað til mikilla bóta.

Þá er þriðja atriðið og ekki óverulegt, þar sem nefndin frá 1920, sem jeg hefi minst á, telur það sjálfsagt, að fyrirfram sje trygt, að meiri hluti hlutafjárins sje innlent. En í þessu frv. er öðru nær en það sje gert að skilyrði. Jeg vona, að hv. þm. skilji, að ekki sje ófyrirsynju þó á þetta sje minst nú, því þá var málið sótt af miklu kappi og það almenn ósk og vilji, að um þetta atriði væri sem tryggilegast búið.

Það er margt fleira í þessu nál. frá 1920, sem vert væri að minnast á, en jeg vil þó ekki tefja tímann með því núna. Frv., sem hjer liggur fyrir, virðist að öllu athuguðu hafa fyrst og fremst fyrir augum hagsmuni hluthafanna, en hag ríkissjóðs og almennings miklu ver borgið. Jeg get því til sönnunar bent á það, að sá arður, sem gert var ráð fyrir 1920 að rynni til ríkissjóðs, er miklu hærri en sá, sem þetta frv. ætlast til. Raunar er nokkuð úr þessu bætt með tillögum nefndarinnar, því hún hefir breytt ákvæðinu svo, að hann er þó ekki nema hjer um bil helmingi lægri nú en hann var þá áætlaður. Hefir nefndin með þessu sýnt virðingarverða viðleitni í þá átt að bæta nokkuð úr skák, en fer þó svo skamt í því, að það getur alls ekki talist nægilegt. En auðvitað er það á valdi þm. sjálfra að sýna, hversu lítilþægir þeir eru fyrir ríkisins hönd.

Jeg þykist nú hafa sýnt fram á, að það, sem um getur í nál. minni hlutans, hafi við nokkur rök að styðjast, og vil enn taka það fram, að það er óhugsandi, að stofnun líks banka og þessa geti á nokkurn hátt bjargað þjóðinni úr þeirri fjárhagskreppu, sem nú er. Það er fjarri sanni, að svo sje. Því ef við þyldum að taka frekari lán í útlöndum, þá er jeg sannfærður um það, að bankarnir hjer, að minsta kosti Landsbankinn, eru fullkomlega færir um að útvega það rekstrarfje, sem atvinnuvegirnir þurfa við. En það eru takmörk fyrir því, hvað mikil lán sje heppilegt að taka, því menn mega ekki loka augunum fyrir því, að einhverntíma dregur að skuldadögunum og að fyrir því verður að sjá, að greiðslur geti átt sjer stað á rjettum tíma. En þegar skynseminnar er gætt, er það sýnilegt, að okkur er ekki fært að leggja mikið aukið fje í atvinnuvegina nú sem stendur. því ekki er annað fyrirsjáanlegt, því miður, en að áframhaldandi tap verði á rekstri þeirra í framtíðinni. Þessi eina ástæða er í sjálfu sjer næg til þess, að jeg tel ekki eftirsóknarvert að fá þennan banka, einkum þar sem fullráðin er stofnun Ríkisveðbankans. Og jeg er svo bjartsýnn, að jeg tel vafalaust, að útvega mætti honum nokkurt veltufje, þó það ef til vill yrði ekki eins mikið og sumir kynnu að telja æskilegt.

Jeg skal svo ekki í bráðina orðlengja þetta meira, en get þó ekki látið hjá líða að geta þess, að mjer þykir vel farið, hversu mætir menn það eru, sem fyrirhugaðir eru í stjórn bankans, þar sem það er sýnilega úrval bænda og annara atvinnurekenda. Býst jeg líka við, að forgöngumönnum þessa fyrirtækis hafi ekki þótt það litlu skifta að fá t. d. bændur í stjórn fjelagsins. Hefir það eflaust átt að gefa fyrirtækinu viðfeldnari og þjóðlegri blæ.

Og svo þetta að lokum: Þó að maður hafi annars engan rjett til þess að spá málefninu nokkrum hrakspám, þá gæti jeg þó ímyndað mjer, að eins og fjármálaástandið er erlendis og ekki hvað síst í Noregi, þar sem mestra fjárframlaga er vænst, þá gæti brugðið til beggja vona, að handbært fje fáist til bankans, þegar á skal herða, enda skaðlaust þótt svo færi. Raunar er ekki hyggilegt að byggja vonir á slíku. Og allra síst mun þurfa að vænta þess, að bankinn, þótt hann komist á fót, muni geta bætt úr þörfum allra manna, og síst að hann geti læknað „spekulationsgræðgina“, sem þjáir svo marga menn nú á dögum, því hún virðist vera nokkum veginn takmarkalaus.