30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

92. mál, hlunnindi

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller):

Hv. 2. þm. Reykv. (JB) var að árjetta ummæli sín frá fyrri ræðu sinni, sjerstaklega um ágóðann af starfsfje bankans, samanborið við, ef Landsbankinn hefði stærra starfssvið, sem svaraði hlutafje þessa nýja banka.

Hann vill halda því fram, að Landsbankinn geti útvegað sjer fje, sem þessu svarar, og með því aukið starfssvið sitt. Vil jeg ekki neita því, að hann geti það, og jeg vildi 1920, að hann gerði þetta, því að jeg áleit það rjett, eins og þá stóð á. En síðan eru liðin 3 ár, og enn hefir ekkert verið gert. Var þó samþykt þál., þar sem skorað var á stjórnina að athuga þetta og hvort ekki væri tiltækilegt að gera hann að hlutabanka, eins og tíðkast erlendis um samskonar banka.

En ekkert af þessu hefir verið gert og ekkert bólar á tilraunum í þessa átt. En sje það ekki ætlunin að gera bankann að hlutabanka um leið og starfsfje hans er aukið, tel jeg það mjög varhugavert, því að það er nauðsynlegt að setja takmörk fyrir aukningu starfsfjárins, ef það á alt að fást með föstu lánsfje. Er Íslandsbanki 1920 dæmi þessa. Lánsfje hans var of mikið, saman borið við það starfsfje, sem hann hafði. Verða ætíð að vera viss hlutföll þar á milli. En hlutafje er ekki lán: það er bankanna eigið fje, sem ekki er hægt að kippa út nje innkalla og smáfestist í þeim fyrirtækjum, er bankinn styður.

Auðvitað er það rjett, að arðurinn af því fje, sem erlendu hluthafarnir leggja í bankann, rennur út úr landinu, en arðurinn af starfi bankans rennur ekki allur út úr landinu, heldur njóta lántakendur mikils hluta hans, þótt óbeint sje.

Það er ekki rjett hjá hv. þm. (JB), að þessi heimild, sem þessu hlutafjelagi er gefin, sje sambærileg við einkaleyfi, sem gefin hafa verið einstökum mönnum til saltvinslu úr sjó. Þessi einkaleyfi eru framseljanleg, en þessi heimild er það ekki. Hjer er ákveðnu fjelagi veitt fyrirheit um hlunnindi, og það getur ekki framselt þau öðrum.

Háttv. þm. (JB) heldur, að útlenda fjeð eða eigendur þess komi til að ráða starfsemi bankans, en það er engin ástæða til að ætla slíkt, því að innlendum mönnum er trygður meiri hluti í stjórn hans, og það er aðalatriðið. En þó að svo væri, þá er augljóst, að hagur bankans og viðskiftamanna hans hlýtur altaf að fara að mestu leyti saman.

Þá hafði háttv. þm. á móti honum af því, að hann yrði ekki fasteignabanki. Það er rjett, að hann á ekki að verða það, en við það, að hann lánar fje til verslunar og útgerðar, losnar væntanlega fje hjá hinum bönkunum, ef þeir hafa nóg af því, eins og háttv. þm. heldur fram, svo að hægt verður að veita meiri fasteignalán úr þeim heldur en nú er hægt. Áhrifin verða því hin sömu sem bankinn veitti fasteignalán.

Annars er ekki að undra, þótt hv. þm. sje á móti bankanum, þar sem hann á að vera einkabanki, því að hann vill, eins og kunnugt er, að ríkið hafi allan bankarekstur í sínum höndum. Í því efni eigum við ekki samleið, og er því í raun og veru ástæðulaust fyrir okkur að rökræða þetta mál meira.