30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

92. mál, hlunnindi

Frsm. minni hl. (Magnús Kristjánsson):

Jeg ætlaði mjer ekki að lengja umr. meira, en af því að jeg sje, að mönnum er ósárt um að lengja þær, vil jeg gera nokkrar athugasemdir við ræðu hv. frsm. meiri hl. (JakM), og get jeg þá sparað mjer það við 3. umr.

Háttv. þm. hjelt því fram, að á sama stæði, hvernig greitt yrði úr gjaldeyrisskortinum, ef það aðeins yrði gert. Voru þessi ummæli hans í tilefni af því, sem jeg hafði áður sagt, að varasamt gæti verið að fá erlent fje inn í landið, þar sem atvinnuvegirnir væru nú svo tæpt staddir, að þeir gætu ekki borið sig.

Þegar svona stendur, er eina ráðið að takmarka lántökur erlendis og eyðsluna í landinu, og reyna til að fá tekjurnar með því til þess að yfirstíga gjöldin.

Af þessum sökum tel jeg það óráðlegt að taka útlent veltufje til að vinna með hjer nú sem stendur.

Háttv. frsm. meiri hl. sagði, að með því væri unt að ráðast í ný fyrirtæki, sem gætu gert það mögulegt að greiða eldri skuldir. Þetta getur nú haft við nokkuð að styðjast, en nokkuð sýnist mjer hjer djarft teflt, að fara að stofna til nýrra fyrirtækja, sem engin vissa er fyrir að hepnist.

Þessi rökfærsla er því ekki næg til að breyta skoðun minni.

Annars vil jeg geta þess, þótt jeg eigi það á hættunni að verða kallaður afturhaldsmaður og svartsýnn, að mjer er ekki ljóst, hver þessi góðu fyrirtæki eru. Hjer var kominn dálítill vísir til iðnaðar, og maður gat búist við, að hann yrði að einhverju gagni síðar meir, en það hefir sýnt sig, að svo hefir ekki orðið. Þessi hóflausa fjáraflalöngun og samkepni hefir riðið þessum fyrirtækjum alveg að fullu. Hvert fyrirtækið á fætur öðru í sömu greininni hefir verið stofnað, og það svo fyrirhyggjulítið, að þau mega heita fyrirfram dauðadæmd.

Nægir að benda í þessu efni á smjörlíkisgerðirnar, sem hafa þotið upp eins og gorkúlur og bera sig svo ekki, og fleira mætti nefna, ef þörf væri.

Alveg sama má segja um sjávarútveginn og verslunina. Má þar til nefna uppþotið 1916 að kaupa mótorskipin, sem miljónir hafa nú tapast á. Þetta ætti öllum hv. þm. að vera kunnugt, og fyrir þessu má ekki loka augum og eyrum.

Hv. frsm. meiri hl. sagði í fyrri ræðu sinni, að Íslandsbanki væri í eðli sínu ríkisbanki. Jeg mótmælti þessu, og vildi hann nú í síðari ræðu sinni að draga úr þessum ummælum sínum. Er ekki nema gott til þess að segja. Jeg gat þess þá líka, að það mætti ekki kalla bankann svo, að öðru leyti en því, sem hann væri studdur af ríkinu. En jeg held, að það sje ekki æskilegt að vera að tileinka ríkinu hann með húð og hári, eins og nú stendur. Þá bar okkur á milli um það, hvort æskilegt væri, að hlutafjáreignin væri innlend eða ekki. Jeg gat þess áður, og sama er tekið fram í nál. 1920, að það væri sjálfsögð krafa, að helmingur hlutafjárins væri innlent, og teldi jeg því veilu á frv., að slíks var ekki krafist.

Háttv. frsm. meiri hl. vildi nú halda því fram, að það væri nægileg trygging að bjóða hlutafjeð út hjer. En þetta er engin trygging, eins og nú stendur, því að innlendir menn eru ekki færir um að kaupa brjefin nú. Þá sagði háttv. frsm. meiri hl., að hvernig sem á væri litið, væri það æskilegt að dreifa ábyrgðinni, og að sjerstaklega væri það gott fyrir bankana hjer, að ný stofnun kæmi, sem gegndi viðskiftunum um stundar sakir, til þess að losa þá við þá áhættu, sem stafaði af því að skifta

við landsmenn. En þetta er hvorki æskilegt nje heppilegt. Það er bæði skylda bankanna og nauðsyn að reyna að ganga svo langt, sem þeim er unt, til þess að bæta úr þörfum manna, því að ella tapa þeir æ meira og meira af viðskiftunum, ekki aðeins í bráð, heldur fyrir fult og alt.

Dreifing ábyrgðarinnar, eins og háttv. frsm. meiri hl. komst að orði, getur því hvorki verið hyggileg eða sæmandi fyrir þá banka, sem nú starfa hjer.

Háttv. frsm. meiri hl. hefir gert mikið úr því, að reynslan hafi sýnt það, að bankarnir hafi stöðvað eða að minsta kosti dregið mjög úr öllum greiðslum til annara landa. eða því, sem vjer í daglegu máli köllum yfirfærslur, og er þetta að vissu leyti rjett. En af hverju hefir þetta verið gert? Til þessa munu vera tvær ástæður. Önnur er sú, að líklega hefir bönkunum veitt allerfitt að hafa ávalt á reiðum höndum nægilegt fje til þess að fullnægja eftirspurninni, bæði til þarfra og miður þarfra fyrirtækja. Hin ástæðan, sem er aðalástæðan, er sú, og það verða menn að gera sjer vel ljóst, að teppan stafar einmitt af því, að bankarnir álíta, að gjaldþol manna hjer á landi sje ekki meira en það, að þeir þora ekki að lána meira fje en þeir þegar hafa gert, fyr en viðskiftamennirnir hafa greitt eitthvað af þeim skuldum, sem þeir eru í við bankana. Þetta er ástæðan fyrir þessari tregðu bankanna með yfirfærslurnar og lánveitingar yfirleitt. Einstakir viðskiftamenn og stofnanir, sem við bankana skifta, eru búnir að nota að mestu lánstraust sitt og handbært fje. Því tel jeg ekki forsvaranlegt, að verið sje að ýta um of undir frekari framkvæmdir í þessum efnum.

Þá sagði háttv. frsm. meiri hl., að ef þessi banki kæmist á fót og tækist að afla honum nægilegs starfsfjár, væri það alllíklegt, að hann gæti stuðlað að því að stöðva gengi íslensku krónunnar, eða jafnvel gæti hækkað gengi hennar. Jeg verð að segja það, að ef nokkrar líkur væru til þessa. Þá væri þessi ástæða mikilsverð og væri mikið leggjandi upp úr henni; en því er miður, að jeg er hræddur um, að þetta verði ekki, og jeg er meira að segja ekki ugglaus um, að hið gagnstæða geti átt sjer stað og að einmitt það, að þessi banki komist hjer upp, geti stuðlað að — jeg vil ekki viðhafa of stór orð — gengisbraski.

Jeg ætla svo ekki að fjölyrða meira um þetta í bráðina, en aðeins draga saman örfá atriði, sem í mínum augum gera frv. óaðgengilegt, og mjer þykir hæpið, að hjer eftir ráðist bót á þeim annmörkum þess, þar sem nú er orðið svo áliðið þingtímann, að tími mun trauðlega vinnast til að gera það aðgengilegra. Það vantar ýmislegt í þetta frv., sem fyrir 3 árum var gert ráð fyrir, að nauðsynlegt væri til þess að slík stofnun kæmist á fót. Vil jeg þá taka saman í eitt þá annmarka, sem jeg tel hjer á vera:

1. Það er sjálfsögð krafa, að landsmenn eigi kost á að hafa yfirtökin í allri starfsemi þessarar stofnunar.

2. Það vantar ákvæði um það, hvað gróði bankans megi mestur vera. Það er fjarstæða að heimila bankanum að græða takmarkalaust. Þetta eru góðar og rjettmætar ástæður, sem hafa sama gildi og áður.

3. Jafnan ætti meira en helmingur hlutafjárins að vera innlendur.

4. Þá er það síðasta, en eigi það þýðingarminsta, að þetta frv. er frábrugðið því, sem gert var að skilyrði 1920, að nú er ákveðið miklu minna gjald í ríkissjóð en þá var til ætlast.

Ef öll þessi ákvæði væru tekin upp í frv., mætti fremur telja það forsvaranlegt að lofa því að ganga áfram til hv. Ed.