02.05.1923
Neðri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

92. mál, hlunnindi

Pjetur Þórðarson:

Jeg hefi verið hikandi við að fylgja þessu frv. og ljet jeg ummæli í þá átt fylgja atkvæði mínu, þegar jeg samþykti frv. til 3. umr. Það kemur til af því, að þessum banka er ætlað að verða verslunarbanki og þannig sjerstaklega að styðja verslunarviðskifti í landinu. En jeg er þeirrar skoðunar, að eins og högum okkar er varið nú, þá verslum við alt of mikið, og mundi það síst minka við það, að farið væri að veita inn í landið erlendu fje til þeirrar starfsemi.

Að jeg kom fram með þessa brtt. mína á þskj. 517. kemur til af því, að jeg álít, að með frv. sje alt of skamt gengið í því að láta ríkið njóta góðs af bankanum eftir að tekjur hans hafa vaxið að mun. Þess vegna fjell mjer vel hugmyndin hjá háttv. þm. Ak. (MK) hjer við 2. umr. málsins, að ef frv. ætti að ganga fram, þá yrði að hækka gjald það, sem bankanum er ætlað að greiða í ríkissjóð. En þegar jeg sá brtt. hans, þóttu mjer þær ganga alt of langt, og kom því með mína brtt., sem fer styttra, en fellur alveg saman við hans, svo langt sem hún nær. Hefði jeg ekki þurft að koma með mína brtt., hefði ekki staðið svo á, að nauðsynlegt var að bera 1. brtt. hans upp í einu lagi. Jeg þykist því heldur hafa gert málefninu greiða með því að koma með þessa brtt. mína, og vona því, að hún verði samþykt. Að öðru leyti ætla jeg ekki neitt að mæla á móti brtt. háttv. þm. Ak. (MK) og ekki eyða meira af hinum dýrmæta tíma þingsins í umr. um þetta mál. Mun jeg greiða frv. atkvæði mitt, ef brtt. mín nær fram að ganga.