09.05.1923
Efri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

92. mál, hlunnindi

Jóhannes Jóhannesson:

Mjer finst ólík aðstaða meiri og minni hluta nefndarinnar. Meiri hlutinn vill láta samþykkja frv. óbreytt, og hefir þá eðlilega þurft að athuga það nákvæmlega og til þess þurft töluverðan tíma, en til að skrifa nál. sitt hefir hann engan tíma þurft. Aftur á móti leggur minni hlutinn til, að það verði felt, eftir því, sem mjer skilst helst. Þarf hann þá eðlilega meiri tíma til þess að koma með nál. sitt, því í því verður hann að rökstyðja tillögu sína.

Þar sem nú mjög er liðið á þingtímann, er ekki útlit fyrir, að mál þetta verði afgreitt frá þinginu, ef það verður tafið nú. Er þó til ein leið, og hún er sú, að háttv. minni hluti lýsi yfir því, að hann muni koma með álit sitt á morgun, svo taka megi málið til 2. umr. á föstudaginn. Og jafnframt að hann lýsi yfir því, að hann vilji þá leyfa þau afbrigði frá þingsköpum, að það komi til síðustu umræðu á laugardag. Geri hann þetta, mun jeg greiða atkvæði með því, að málið verði tekið af dagskrá.