09.05.1923
Efri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (391)

92. mál, hlunnindi

Jónas Jónsson:

Jeg lít svo á, að það sje ekki eftir venjulegum þingreglum að knýja stórmál svo áfram í gegnum þingið, að nefndir fái ekki tíma til að koma með álit um það. Jeg sje enga ástæðu til að takmarka svo mjög þann tíma, sem menn eiga að hafa til að athuga svona stórt mál, eins og hjer virðist eiga að gera. Annars er ekkert hægt að segja um, hve langur tími verður enn þá til þingstarfa, eftir því, sem hæstv. forsrh. (SE) sagði. Má því vel vera, að nægur tími verði enn þá til þess að afgreiða mál þetta, þó að það verði tekið út af dagskrá nú. En að fara að knýja svona stórt mál áfram undirbúningslaust og rannsóknarlaust er brot á þeim reglum, sem hingað til hafa gilt í þessu efni.