09.05.1923
Efri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (396)

92. mál, hlunnindi

Frsm. meiri hl. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Það má segja um þessa síðustu atkvæðagreiðslu, „að glögt er það enn, hvað þeir vilja“. Annars vil jeg taka undir það, sem háttv. samnefndarmenn mínir sögðu, hversu erfitt sje að fá málin afgreidd frá Nd. Svo jeg ekki tali um, að setið er þar á þýðingarmiklu skattamáli.

Svo að jeg snúi mjer þá að þessu máli, þá var það fyrst á þinginu 1920, að stofnun nýs banka kom til umræðu. Var ástandið þá töluvert betra en nú, því að völ var á töluverðu innlendu fje til stofnunar bankans. En þingi sleit þá í skyndi og málið fjell niður. Eru nú margir þeirrar skoðunar, að nú myndi betur komið fjárhag okkar en er, ef svona hefði ekki farið. Nú er svo komið, að mál þetta er aftur komið inn á þingið, og eru nú líkindi til, að fá megi fje til stofnunar nýs banka, og þá sjerstaklega í Noregi. Það hefir lengi verið áhugi með að stofna banka þennan, og hefir einungis staðið á þinginu að veita honum þau hlunnindi, sem slík bankastarfsemi er við bundin.

Það voru 8 menn í háttv. Nd., sem fluttu frv. þetta, og voru litlar breytingar gerðar á því við meðferð þess í Nd., og þaðan var það afgreitt með miklum meiri hluta atkvæða. Aðalbreytingarnar, sem gerðar voru á frv. í Nd., voru, að bankanum var neitað um að hafa sparisjóðsfje, og í öðru lagi, að hann var skyldaður til að borga meira af arði sínum til ríkissjóðs en ráðgert var í fyrstu.

Annars býst jeg við, að háttv. deildarmenn hafi kynt sjer svo frv. þetta, að ekki sje ástæða til að gera grein fyrir því lið fyrir lið. Þó skal jeg geta þess, að hið minsta hlutafje, sem hann má hafa til umráða, eru 2 milj. kr., en hið mesta 6 milj. Og að 55% af þessu fje skuli boðið út innanlands í 6 mánuði eftir að lögin öðlast gildi.

Jeg býst nú við, að atkvæði manna fari eftir því, hvort þeir líti svo á, að við þurfum á peningum að halda eða ekki. Er því rjett að líta á, hvaða áhrif það hefir haft á starfsemi í landinu, að peningar fluttust inn í það, og miða jeg það við stofnun Íslandsbanka, sem stofnaður var 1905. Skal jeg því bera saman það fje, er Landsbankinn hafði þá, og það, sem þeir höfðu báðir 1921.

Reikningur Landsbankans 1905 með útibúunum:

Sjálfskuldarábyrgðarlán . .. kr. 1560960

Handveðslán — 97772

Sveitar- og bæjarfjel — 115783

Reikningslán — 483429

Víxlar — 892911

Innstæða á hlaupareikningi — 451184

Innstæða í sparisjóði — 2495746

Báðir bankarnir 31. des. 1921 með úti-

búunum:

Sjálfskuldarábyrgðarlán . .. kr. 6165171

Handveðslán — 235277

Sveitar- og bæjarfjel .. — 1370628

Reikningslán — 14382761

Víxlar — 48947324

Innstæða á hlaupareikningi kr. 13462561

Innstæða í sparisjóði — 30444454

Mjer finnast þetta eftirtektarverðar tölur. Og að umsetningin hefir aukist svona í landinu, er því að þakka, að við höfum fengið peninga. Jeg held því, að þessar tölur ættu að rjettlæta það í augum þeirra, er mest hafa haft horn í síðu Íslandsbanka, að það hafi verið vel ráðið, er hann var stofnaður.

Spurningin verður nú sú, hvort við myndum hafa gagn af því að fá nýjan banka og hvort við höfum þörf fyrir þá peninga, sem hann veitir. Jeg held, að ef þjóðin væri spurð að því, þá myndi svarið verða: Okkur vantar peninga. Bankarnir geta ekki fullnægt þörfum atvinnuveganna, sjerstaklega útvegsins. Reykjavík vantar peninga og ríkið vantar peninga. Gott dæmi um peningaekluna er það, að hrúgað er lánsheimildum í fjárlögin til ýmsra þarfra fyrirtækja, án þess nokkur von sje um, að hægt sje að veita.

Þá hefi jeg heyrt þá mótbáru, að peningar þessir væru óvissir. En því er þar til að svara, að það er ekki eðlilegt að halda, að þeir sjeu vissir, meðan Alþingi hefir ekki sagt til um það, hvort það vilji leyfa bankastofnunina, og þá ekki með hvaða kjörum fjeð megi nota í landinu. En eigi að síður telja síðustu frjettir, sem jeg hefi fengið, mjög líklegt, að peningarnir fáist í Noregi, þrátt fyrir kröggur Austmanna nú í svip.

Þá hefi jeg ennfremur heyrt þeirri mótbáru hreyft, að það væri ekki samboðið virðingu þingsins að fara að samþykkja þetta, meðan engin vissa væri fengin fyrir því, að peningarnir fengjust. En það er ekki rjett. Jeg lít svo á, að engin óvirðing sje í því að samþykkja þetta, jafnvel þótt ekkert yrði úr bankastofnuninni, enda hefir þingið áður veitt heimildir til tilrauna, sem miklu minni líkur voru fyrir að tækjust en þessi, enda miklu óvænlegri til þjóðþrifa. Um vissa peninga er vitanlega ekki að tala fyr en kunnugt er, hvaða kjör þingið vill veita þeim, sem ætla að leggja þá fram.

Hvað felst þá í þessari heimild? Ekkert annað en það, að okkur sje ljúft að taka við peningum, ef þeir fást, ríkinu að öllu áhættulaust. — að við kjósum þessa leið fremur en að taka dýr lán. Hún er jafnframt traustsyfirlýsing á landinu um það, að það geti gert sjer peninga arðberandi, og traustsyfirlýsing um það, að landið sje byggilegt og geti tekið margvíslegum framförum í sjávarútvegi, landbúnaði, iðnaði, siglingum og verslun, að hjer geti og eigi að búa fleiri menn en þær fáu þúsundir, sem enn byggja landið. Jeg held, að okkur geti ekki verið nein óvirðing að þessu: miklu fremur sæmd. Jeg er þeim mönnum miklu fremur þakklátur, sem vilja vinna að því að afla landinu peninga á þennan hátt, af því að okkur vantar peninga og þetta er áreiðanlega besta og ódýrasta leiðin til að afla þeirra. Fáist þeir ekki, fellur leyfið niður í árslok 1924.

Vil jeg því ráða háttv. deild til þess að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir, í trausti þess, að það verði ný lyftistöng til framfara fyrir land og lýð.