11.05.1923
Efri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

92. mál, hlunnindi

Frsm. meiri hl. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Jeg hefi ekki haft tækifæri til þess að athuga nál. hv. minni hl. nema aðeins stutta stund. Þó hefi jeg getað yfirfarið það, og eftir yfirlesturinn get jeg sagt, að mótbárurnar, sem hjer koma fram á móti frv., eru gamlir kunningjar, og satt að segja þykir mjer mjög vænt um þá, einkanlega af því að þeir geta ekki rótað við þeirri hugmynd, sem hv. deildarmenn hafa áður gert sjer um málið. Það er altaf gott að fá ekki slíkar röksemdaleiðslur, að maður neyðist, hvort heldur nauðugur eða viljugur, til þess að skifta um skoðun, og í þeim skilningi verður ekki annað sagt en að nál. háttv. minni hl. sje mjög gott.

Í nál. eru taldar upp 4 ástæður gegn frumvarpinu.

Fyrsta ástæðan er sú, að engin vissa sje fengin fyrir því, að leyfisbeiðendur ráði yfir nokkru fje til bankastofnunarinnar. Þetta atriði var vel skýrt við síðustu umræðu, og þarf jeg engu þar við að bæta. Það er ómögulegt að búast við því, að þeir menn, er kunna að vilja leggja til fje, geti ákveðið það til fullnustu fyr en þeir vita, með hvaða kjörum fyrirtækið fær að starfa, því að þá fyrst er hægt að ætlast á um það, hvort arðsvon sje að fjárframlögum til þess.

Um 2. lið get jeg sagt það, að mjer finst lítið samræmi í því að gera annars vegar ráð fyrir því, að ekki fáist stofnfje, en hins vegar ótti við, að rjettindin kunni að ganga kaupum og sölum, og að á þann hátt fáist miklir peningar upp úr leyfinu.

Í þriðja lið er þess getið, að það sje með öllu ótítt um einkabanka erlendis, að þeir njóti skattfrelsis, en þá vitum vjer þó, að Íslandsbanki hjer nýtur skattfrelsis og að í frv. er ekki ákveðið, að skattfrelsi þessa nýja banka standi lengur en Íslandsbanka. Auk þess virðist mjer rjettast, að allir þeir bankar, sem í einu landi eru, njóti sem líkastra rjettinda, en það fer svo fjarri því, að þessum banka sje gert auðveldara fyrir, að honum er einmitt gert að borga hærri afgjöld í ríkissjóð en einkabankanum, sem fyrir er.

Um 4. atriðið, hvort líkur sjeu til þess, að nokkru verulegu af hlutafjenu verði safnað innanlands, ætla jeg, að enginn okkar að óreyndu geti dæmt. Jeg sje svo ekki ástæðu til þess að tefja þessar umræður frekar, enda veit jeg, að hv. þingdm. hafa tekið óraskanlegar ákvarðanir um það, hvernig þeir ætla að greiða atkv.