11.05.1923
Efri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (407)

92. mál, hlunnindi

Guðmundur Guðfinnsson:

Jeg skal ekki lengja umræðurnar um þetta mál, þótt það sje bæði mikið og merkilegt. Jeg greiddi atkvæði með því til 3. umr. af því að nál. minni hlutans var þá ókomið, og áleit ekki rjetta aðferð að fella það þá. Mjer finst margt athugavert við þetta mál, þótt ýmislegt mæli með því að fá nýjan banka. Mjer virðist hlunnindin nokkuð mikil og víðtæk, í samanburði við þá upphæð, sem í boði er. Við höfum áður fengið fleiri miljónir að láni, og lítill árangur sjest af því Jeg vil því taka þann kost að vísa þessu máli til stjórnarinnar og láta hana meta til næsta þings. hvaða hlunnindi sjeu mátuleg fyrir hlutafje það, sem talið er, að í boði sje. Þetta gefur mönnum betri aðstöðu til þess að átta sig á málinu. Jeg vil því gera það að tillögu minni, að málinu sje vísað til stjórnarinnar.