20.03.1923
Neðri deild: 24. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í B-deild Alþingistíðinda. (410)

83. mál, fræðsla barna

Flm. (Magnús Jónsson):

Svo sem greinargerð frv. ber með sjer. er það komið fram sökum áskorana frá ýmsum prestum og umkvartana yfir lögum frá í fyrra um breyting á fræðslulögunum frá 1907. Er í þessum nýju lögum lögð skylda á presta að vera prófdómendur við barnapróf í prestakalli sínu. Prestum er það alls ekki ljóst, að þetta starf heyri til embættisstarfi þeirra nje að heimilt sje að leggja fyrir þá ýms tímafrek og kostnaðarsöm störf endurgjaldslaust, ef þau koma ekki prestsstarfinu við. Um hitt er ekki að fást, þótt aukin störf sjeu á þá lögð innan embættisins, svo sem gert hefir verið talsvert að nú á síðustu árum, sjerstaklega eftir að hagstofan var stofnuð. Verða þeir nú að senda nákvæmar skýrslur í hvert sinn er þeir vinna eitthvert embættisverk, og er það mjög aukið frá því, sem áður var, en vitaskuld hafa þeir ekki kvartað neitt yfir því. Með fræðslulögunum frá 1907 er barnafræðslan tekin úr höndum prestanna, og er þar með afskiftum þeirra af því starfi lokið. Þótt sumir vilji máske vitna í tilskipun frá miðri 18. öld, um það, að prestum beri að annast uppfræðingu barna, þá er slíkt vitleysa, og mundi enginn dómstóll nú hafa þann skilning, að þessi tilskipun væri enn í gildi, eftir setningu fræðslulaganna. enda þótt ekki sje tekið beint fram í þeim, að þau nemi tilskipunina úr lögum. Hefi jeg orð greinagóðra manna í þessum efnum fyrir því, að þessi skoðun mín sje rjett, og jeg álít, þótt ekki sje jeg lögfræðingur, að þegar lagabálkar eru gefnir út um sjerstök efni eins og þetta, þá falli þar með úr gildi eldri ákvæði um sama efni, sem ekki geta samrýmst nýju lögunum, enda þótt slíkt sje ekki tekið fram berum orðum. Mun og ekki þurfa lögfræðing til að sjá, að eldri lög verða að víkja fyrir yngri lögum um sama efni, ef árekstur verður.

Þá er það og sönnun þess, að prestum beri engin skylda til að kenna börnum almenn fræði, að þeir eru ekki álitnir hæfir til þess, nema þeir hafi lokið sjerstöku prófi við kennaraskólann. Veit jeg til, að talsvert ríkt hefir verið eftir þessu gengið og prestum hefir verið meinað að hafa barnakenslu á hendi. T. d. er ekki langt síðan aðstoðarprestur einn ætlaði jafnframt embættinu að taka að sjer barnakenslu, sem í því tilfelli hefði vel getað samrýmst, en hann fjekk ekki leyfi til þess nema hann skuldbindi sig til að taka ekki vígslu. Með öðrum orðum, hann mátti ekki hafa bæði störfin með höndum.

Er nú undarlegt, að prestarnir, sem ekki hafa þekkingu til að kenna, skuli vera álitnir færir um og skyldaðir til að vera prófdómendur, en þó furðulegra, að þeim skuli vera boðið að vinna kauplaust verk, sem þeim ber engin skylda til, og jafnvel eiga þeir sjálfir að borga ferðakostnað og önnur útgjöld, sem af þessu stafar. Auðvitað geta þeir skorast undan að vinna þetta verk, og væri gaman að vita, hvað hægt yrði að gera í því tilfelli. En með því að prestar eru yfirleitt engir bardagamenn. — þótt vitanlega sje hægt að brýna deigt járn svo, að bíti, — þá munu þeir ekki skorast undan að taka þetta verk að sjer, ef þeir fengju ómak sitt launað, svo að þeir þurfi ekki að greiða fje úr eigin vasa til ferðakostnaðar og annars.

Í sumum prestaköllum er þetta mikið verk, og enda þótt yfirstjórn fræðslumála hafi heimild til að skipa sjerstaka prófdómendur í víðlendum eða fjölmennum prestaköllum, þá er þó engin trygging fyrir því, að það verði gert, enda þótt presturinn fari fram á það, fyr en útsjeð er um, að presturinn muni ekki anna því einn. Lögin eru þannig orðuð, að presturinn virðist í þessum tilfellum ekki eiga heimtingu á því, að nýr prófdómandi sje skipaður, heldur er það fræðslumálastjórnin, sem valdið hefir.

Jeg vona, að háttv. deild sjái, að hjer er um sanngirnismál að ræða og lofi frv. að ganga til 2. umr. og allshn.